Okkur þykir hún kannski bjánalega einföld, skilgreining sem ég rakst á til að lýsa fátækt. Þegar við heyrum hana eða lesum hana, skynjum við strax að hún er augljós og borðleggjandi, en samt er hún nokkuð nýleg og þykir meira að segja ögrandi og djúptæk: „Fátækt er fyrst og fremst skortur á peningum.“
Það þýðir að fátækt er ekki fyrst og fremst skortur á siðgæðum, eða tækifærum, eða færni, eða dugnaði, eða vilja, eða seiglu, eða klækjum, eða atorku, eða frumleika eða hverju sem okkur dettur í hug. Nei, ef þú vilt lækna fólk af þessum bráðavanda, sem við vitum að hefur skelfileg áhrif á heilabúið, þá er meðalið einfalt: Gefðu fólkinu pening.
„Fátækt er fyrst og fremst skortur á peningum.“
Hann er hollenskur, höfundurinn sem fólk er farið að kenna við þessa lausn. Rutger Bregman, eða „borgaralaunagaurinn“, skrifar eitthvað á þessa leið í bók sinni Utopia for Realists, bók um útópíu fyrir raunsæisfólk. Þar er ráðist á garðinn þar sem hann er hæstur: Fimmtán klukkustunda vinnuvika, ókeypis peningar handa öllum og heimur án landamæra. Þetta ætti altént að vera markmiðið, spurningin er hvort og hvernig við komumst þangað.
Lesandinn veit það jafnvel og höfundurinn að þetta hljóma eins og gjörsamlega sturlaðar hugmyndir. Boðskapurinn skilur samt eftir sig sterkt eftirbragð: Ef ekki þetta, þá hvað? Hver eru okkar stærstu og djörfustu markmið? Hver er okkar útópía? Fyrir utan allt hitt, sem er lystilega framreitt í þessari bók, þá er ef til vill þetta sem hressir lesandann mest, eins og blaut tuska í andlitið eftir heilan eftirmiðdag á samfélagsmiðlum: Það er enginn að spyrja þessara spurninga.
Ekki einu sinni auglýsingasmiðurinn sem skrifar tímana sína á Íslandsbanka þessa dagana – hvar verðum við árið 2050? – nær utan um þessa gátu. Ég efast um að hann hafi haft borgaralaun og rúma helmingun vinnuvikunnar í huga. Hvað þá heim án landamæra. Eftir lesturinn finnst manni enginn vera að spyrja nógu stórra spurninga. Hvað þá að svara þeim.
Athugasemdir