1.
Ópíöt eru lyf sem eru annaðhvort unnin úr ópíumi eða hafa svipaða efnafræðilega byggingu og virkni og slík lyf. Meðal ópíata teljast meðal annars morfín, heróín, kódín, metadón og petidín. Þau hafa áhrif á heila og miðtaugakerfi, til dæmis hafa þau öflug verkjastillandi áhrif og valda syfju, sljóleika og sælutilfinningu.
2.
Ópíöt eru mjög vanabindandi og fólk sem hættir neyslu þeirra eftir að vera orðið háð þeim finnur fyrir sterkum fráhvarfseinkennum. Þetta á sérstaklega við um sterkari ópíöt á borð við heróín og morfín. Af þessum sökum er framleiðsla á heróíni almennt bönnuð með lögum og morfín er aðeins notað undir ströngu eftirliti og við sérstakar kringumstæður vegna kvalastillandi áhrifa þess.
3.
Ópíum er duft sem unnið er úr safa ópíum-valmúans. Það er blanda af nokkrum efnasamböndum og þar á meðal eru morfín og kódín. Heróín er svo unnið úr morfíni. Svokölluð efnasmíðuð ópíöt eru framleidd á rannsóknarstofum og meðal þeirra er metadón sem er til dæmis notað til að draga úr fráhvarfseinkennum hjá þeim sem reyna að hætta heróínneyslu.
4.
Ópíóíðum er almennt ávísað við svæsnum eða meðalsvæsnum verkjum. Gagnsemi ópíóíða til verkjastillingar í skammtímameðhöndlun mikilla verkja, af öðrum toga en krabbameini, er vel staðfest í rannsóknum en aftur á móti hefur gagnsemi ópíóíða í langtímameðferð við verkjum ekki verið staðfest. Meðferð langvinnra verkja getur verið mjög flókin.
5.
Lyfjafyrirtækið Purdue Pharma setti svokallað OxyContin, sem flokkast sem ópíóíðar, á markað árið 1996 en það var framleitt í stórum stíl þar í landi. Framleiðsla og sala á þessum verkjalyfjum stórjókst svo á fyrsta áratug aldarinnar þegar samheitalyfjafyrirtæki eins og Actavis byrjuðu að framleiða samheitaútgáfu af Oxycontin og eins eigin morfínlyf sem voru frumlyf.
Stóra breytingin með OxyContin var að Purdue Pharma markaðssetti lyfið þannig að það væri hægt að nota það að staðaldri gegn krónískum, langvinnum verkjum eins og í baki, sinaskeiðabólgu, gigt og jafnvel höfuðverk. Einn af sölupunktum fyrirtækisins á OxyContin var að „einungis minna en 1 prósent notendanna yrðu háðir því“.
6.
Reglulega kemur upp umræða í íslensku samfélagi um ópíóíðafíkn. Engar staðfestar tölur liggja fyrir yfir hversu margir hafa látist á þessu ári hjá Landlæknisembættinu sem heldur utan um tölfræði um dánarorsök. Gögn frá sjúkrahúsinu Vogi sýna að 20 einstaklingar undir 50 ára, sem hafa nýtt þau úrræði sem sjúkrahúsið býður upp á, hafa látist á fyrstu þremur mánuðum ársins.
7.
Í viðtali við Stundina fyrir um ári síðan sagðist rúmlega 30 ára íslensk kona hafa stundað það um nokkurra ára skeið á síðasta áratug að kaupa OxyContin á Spáni og selja lyfið á Íslandi. Konan segist fyrst hafa orðið vör við OxyContin á fíkniefnamarkaðinum á Íslandi árið 2014. Hún sagðist meðal annars hafa falsað bréf frá íslenskum lækni um að hún væri með bakverki. Svo hefði hún farið með þetta bréf til Spánar og fengið ávísað OxyContin þar í landi. Hún flutti þetta OxyContin svo til Íslands og seldi það hér á landi. Pillan á Spáni kostaði 1.000 krónur en konan seldi hana á 8.000 krónur á Íslandi. Konan keypti einnig lyf á Íslandi, af milliliðum.
Hún greindi frá því að aðgengið að OxyContin á svarta markaðinum væri frekar gott, meðal annars vegna þessa innflutnings frá Spáni. Viðskiptin með þessi lyf færu fram í gegnum samskiptaforrit eins og Telegram.
8.
Yfirlæknir á Vogi, Valgerður Rúnarsdóttir, sagði í viðtali við RÚV fyrir stuttu að hún óttaðist að það stefndi í metár í andlátum vegna fíknisjúkdóma. Hún sagði að mikil aukning væri í ópíóíðafíkn – sérstaklega hjá þessum yngri hóp. „Það er mjög hættuleg fíkn. Þessi sterku verkjalyf, OxyContin og Contalgin, sem er fyrst og fremst verið að nota á Íslandi, þau eru bara bráðdrepandi.“
9.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tjáði sig um sláandi tölur látinna á þessu ári á Alþingi í þar síðustu viku. „Við verðum bara að horfa á þessar óyggjandi tölur og þurfum að gera fjölmargt, betur og meir.“ Hann sagði að fjölmargt þyrfti að gera. „Það þarf sveitarfélögin og sameiginlegt átak þings og ríkisstjórnar, þvert á ráðuneyti og með sveitarfélögum, og skoða þarf skaðaminnkandi úrræði.“
Hann sagði jafnframt að auka þyrfti forvarnir og fræðslu og ná til þeirra félagasamtaka sem vinna með fjölskyldum og veita aukinn stuðning við þær. „Við þurfum að koma á þessari viðbragðsþjónustu og auka aðgengi og svo þurfum við að horfa til þessara skaðaminnkandi úrræða, frekari klíník, neyslurými.“ Enn fremur væru stjórnvöld að skoða það að bæta við þjónustu á sjúkrahúsinu Vogi, svokallaðri viðbragðsþjónustu, og auka samvinnu við Landspítalann um þá lífsbjargandi viðhaldsmeðferð sem veitt er þar.
Í lok apríl lagði Willum fram minnisblað um að verja 170 milljónum króna á ársgrundvelli í aðgerðir til að sporna við skaða af völdum ópíóða. Á ríkisstjórnarfundi í dag var þessi upphæð hækkuð um 55 milljónir og samþykkt að verja 225 milljónum í málaflokkinn.
10.
Í þessari umræðu allri hefur lyfið Naloxone borið á góma en það er mótefni gegn ópíóíðlyfjum eins og morfín, fentanýl, oxykódon, heróín, metadón og búprenorfín. Naloxone hefur mikla sækni í ópíóíðviðtaka og ryður í burtu og kemur í veg fyrir að ópíóíðarnir nái að bindast og valda verkjun. Lyfið stöðvar verkun ópíóíða tímabundið og kemur ekki í staðinn fyrir bráðaþjónustu læknis. Lyfið er notað sem neyðarlyf og er notað tafarlaust við ofskömmtun ópíóíða eða hugsanlegri ofskömmtun ópíóíða hjá fullorðnum og unglingum 14 ára og eldri. Einkenni ofskömmtunar geta verið öndunarerfiðleikar, alvarleg syfja og bregst ekki við miklum hávaða eða snertingu.
Heilbrigðisráðuneytið gaf út yfirlýsingu í júní í fyrra þar sem sagði að Naloxone-nefúði yrði aðgengilegur um allt land, notendum að kostnaðarlausu. Naloxone er hvorki ávanabindandi né hættulegt og eina ábendingin fyrir notkun þess er tafarlaus neyðarmeðferð við þekktri eða ætlaðri ofskömmtun ópíóíða sem kemur fram sem öndunarbæling og/eða bæling á miðtaugakerfinu. Eftir sem áður þarf að koma viðkomandi undir læknishendur. Stjórnvöld skoða nú hvort hægt sé að setja Naloxone í lausasölu – þó að það hafi ekki verið samþykkt af Lyfjastofnun Evrópu.
Heimild:
Athugasemdir (1)