Norskur eigandi Arnarlax á Bíldudal heldur því fram að enginn tilfelli um slysasleppingar hafi komið upp á í rekstri fyrirtækisins á Íslandi í fyrra þrátt fyrir að Arnarlax hafi fengið sögulega sekt vegna slysasleppinga það ár. Í nóvember í fyrra sektaði Matvælastofnun nefnilega Arnarlax um 120 milljónir króna vegna þess að fyrirtækið tilkynnti ekki um strok á eldislöxum úr sjókví í Arnarfirði sem gat fannst á í ágúst árið 2021. MAST hefur aldrei áður sektað laxeldisfyrirtæki vegna slysasleppingar hér á landi.
Í upplýsingagjöf norska fyrirtækisins, Salmar AS, í ársreikningi fyrir 2022 er þessi sekt ekki nefnd sérstaklega í yfirliti um sektargreiðslur þess og ekki er minnst á það að fyrirtækið veit ekki hvað um varð um tæplega 82 þúsund eldislaxa sem voru í kvínni.
„Árið 2022 voru tvö slík tilfelli í Noregi og ekkert á Íslandi.“
Arnarlax og eldislaxarnir í Mjólká
Eins og annar af fyrirrennurum Heimildarinnar, Stundin, greindi frá í fyrra þá voru eldislaxar sem veiddust í Mjólká í Arnarfirði raktir til Arnarlax. Í yfirliti yfir brot Salmar á lögum og reglum í Noregi og á Íslandi, sem og sektargreiðslum fyrirtækisins, kemur fram að fyrirtækið hafi engin brot framið og að það hafi greitt 0 krónur í sektir á Íslandi í fyrra.
Í ársreikningi Salmar, sem á rúmlega 50 prósenta hlut í Arnarlaxi, segir um þetta: „SalMar er með það að markmiði að enginn eldislax sleppi hjá fyrirtækinu og tekur öll slík tilfelli alvarlega. Árið 2022 voru tvö slík tilfelli í Noregi og ekkert á Íslandi. Samtals sluppu 11 laxar úr sjókvíum okkar í Noregi og á Íslandi, sem þýðir að minna en 0,00002 prósent allra laxa sem SalMar var með í sjókvíum sínum.“
Ein skýring sem kann að vera á þessu er sú að gatið á sjókvínni sem laxarnir sluppu úr fannst síðsumars árið 2021 en hins vegar var slátrað úr kvínni og þá fyrst kom í ljós hversu marga laxa vantaði í hana. Allar upplýsingar um umfang og alvarleika slysasleppingarnar komu því fram í fyrra. Þrátt fyrir þetta skautar Salmar AS fremur léttilega framhjá bæði slysaleppingunni sjálfri og sektinni fyrir hana.
Salmar lítur svo á að málið sé opið
Í ársreikningi Salmar kemur svo fram af hverju félagið tilgreinir ekki sektina sem félagið fékk slysaleppingarinnar í Arnarfirði. Ástæðan er sú að Arnarlax hefur kært sektina og lítur því ekki á hana sem orðinn hlut. „Árið 2022 braut SalMar ekki gegn neinum reglum. Arnarlax fékk sekt vegna slysasleppingarinnar sem tilkynnt var árið 2021, en málið er í áfrýjunarferli og er ennþá opið,“ segir í reikningnum.
Þetta er skýring SalMar á því af hverju ekki er greint frá sektinni en í ársreikningnum er ekki að finna skýringu á því af hverju félagið greinir ekki frá umfangi slysasleppingarinnar í ársreikningnum.
Arnarlax hefur sjálft rætt um slysasleppinguna opinberlega og segist ætla að læra af henni: „Arnarlaxi þykir mjög miður að lax hafi sloppið úr kví fyrirtækisins en starfsfólk leggur hart að sér alla daga til að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst. Þrátt fyrir að Arnarlax telji að verklagsreglum hafi verið fylgt í umræddu tilviki þá mun fyrirtækið draga lærdóm af þessu óhappi,“ sagði í tilkynningu á heimasíðu fyrirtækisins þar sem greint var frá því að sektin hafi verið kærð.
Kæran frá Arnarlaxi er nú í ferli í matvælaráðuneytinu og hefur MAST meðal annars skilað inn sérstakri umsögn um hana þangað.
Athugasemdir