„Sögulegt,“ „hræðilegt“ og „ógnvekjandi“. Lýðfræðingar eiga ekki orð til að lýsa hratt versandi lífslíkur í Bandaríkjunum á síðustu árum. Meðal-bandaríkjamaðurinn gat búist við að lifa í 79 ára fyrir nokkrum árum sem var þó töluvert undir meðaltali hjá efnaðri þjóðum heims, en árið 2022 var meðalævilengd komin niður í 76,1 ár, sem er lægsta mæling síðan 1996. Á Íslandi mælist meðalævilengd 82,5 ár sem er sex og hálft ár meira en í Bandaríkjunum.
Covid-faraldurinn aðeins ein af skýringunum
Að mati stofnunarinnar Center for Desease Control (CDC) útskýrir Covid-faraldurinn um það bil 50% af rýrnun lífslíkna. Faraldurinn reyndist vera sérstaklega banvænn í Bandaríkjunum en umframdauðsföll vegna Covid-19 eru talin vera yfir milljón talsins. Þetta skýrist af þremur þáttum. Í fyrsta lagi eru offita og sykursýki útbreiddari þar í landi og auka líkur á andlátum af völdum Covid. Í öðru lagi búa borgarnir við veikt velferðarkerfi sem leiðir til erfiðara aðgengi að heilbrigðisþjónustu og veikari samningsstaða launþega gagnvart vinnuveitendum þegar kemur til dæmis að því að semja um fjarvinnu. Að lokum hefur verið töluverð andstaða almennings gegn bólusetningu: aðeins 30% Bandaríkjamanna hafa fengið örvunarskammt.
Í mörgum vestrænum löndum varð tímabundin og minniháttar dýfa í lífslíkum vegna Covid-faraldursins en í Bandaríkjunum varð dýfan meiri auk þess sem hún hefur ekki jafnað sig heldur hefur þróunin haldið áfram niður á við.
Opíóðafaraldur ein helsta plágan
Síðan 2010 hefur orðið sprenging í fjölda dauðsfalla vegna ofneyslu ópíóða. Milljónir Bandaríkjamanna urðu fíkninni að bráð á árunum 1990 til 2010 eftir ágenga auglýsingaherferð af hálfu lyfjaiðnaðarins. Eftir að stjórnvöld takmörkuðu sölu ópíóða árið 2010 sneru margir sér að svarta markaðnum. Þar hafði nýtt lyf skotið upp kollinum, fentanyl, sem var mun öflugra og hættulegra en aðrir ópíóðar. Á síðustu árum hafa um 100.000 Bandaríkjamanna látist árlega vegna ofskammta ópíóða. Þá eru dauðsföll vegna ópíoðafíknar orðin jafn mörg og dauðsföll í umferðarslysum.
Byssumenning og bílamenning áfram ráðandi
Fram að 1980 voru banaslys í umferðinni ekki meira vandamál vestanhafs en í Evrópu, en á síðustu þrjátíu árum hefur tíðni þeirra lækkað mun hraðar í Evrópu en í Bandaríkjunum. Þróun almenningssamgangna, strangari hraðatakmarkanir, aukið eftirlit og aukin skattlagning á eldsneyti og þyngri ökutæki eru meðal þess sem hefur bætt umferðaröryggi í Evrópu, en slíkar aðgerðir hafa ekki verið innleiddar í sama mæli í Bandaríkjunum. Þungir og stórir jeppar og pallbílar hafa orðið sérstaklega vinsælir og ráðandi einkabílamenning hefur orðið til þess að á síðasta ári varð met í fjölda dauðsfalla meðal gangandi vegfarenda. Þá hefur dauðsföllum meðal hjólandi vegfarenda fjölgað um 44% milli 2010 og 2020. Banaslys í umferðinni eru í dag fjórum sinnum algengari vestanhafs en á Íslandi.
Morðtíðni er sömuleiðis töluvert hærri í Bandaríkjunum en í flestum öðrum vestrænum löndum og byssumenningin spilar stóran þátt í því. Hún ústkýrir hins vegar ekki versnandi lífslíkur á síðustu árum því hún hefur lækkað töluvert á síðustu árum og áratugum og er nú orðin helmingi lægri en hún var árið 1990. Þrátt fyrir það er morðtíðni áfram miklu hærri vestanhafs en á Íslandi, eða 5,4 morð á ári fyrir hverja 100.000 íbúa á móti 0,7 á Íslandi.
Tíðni sjálfsvíga er líka líka tiltölulega há í Bandaríkjunum með 23 dauðsföll per 100.000 íbúa á mótu 11 á Íslandi. Hún er sérstaklega mikil hjá karlmönnum, sem eru fjórum sinnum líklegri en konur til að grípa til slíkra örþrifaráða.
Lífstílssjúkdómar áfram helsti skaðvaldur
Yfir 70% Bandaríkjamanna glíma við ofþyngd og 36% þjást af offitu, en offita er einn helsti áhættuþáttur þegar kemur að algengum dánarorsökum svo sem hjartasjúkdómar, sykursýki og heilablóðfall. Þá eru andlát sem rekja má til offitu tvöfalt algengari í Bandaríkjunum en á Íslandi.
Dýrt en óskilvirkt heilbrigðiskerfi
Samkvæmd tölum OECD verja Bandaríkjamenn um 17% af þjóðartekjum til heilbrigðiskerfisins sem er nánast tvöfalt meira en á Íslandi (8,3%) og í OECD (8,8%). En kerfið er mjög ósklivirkt og stór hluti af þessum fjármunum fer í umsýslukostnað og tryggingakostnað. Þá hafa efnameiri mjög greiðan aðgang að heilbrigðisjónustu en efnaminni standa jafnvel utan kerfisins.
„Við erum með frábært umönnunarkerfi sem heldur utan um þá sem eru mjög veikir,“ segir sérfræðingur í viðtali við Washington Post, „en heilbrigðiskerfið okkar er mjög ófullnægjandi.“ Hann bendir á að aðgengi fólks að heilbrigðiskerfinu er háð meðal annars því hvort það sé tryggt, hvar það býr og af hvað litarhætti þar er. Slík misskipting leiðir til þess að sumir hafa ekki aðgang að þeim gæðum sem tryggir fólki gjarnan góða heilsu, svo sem hreint loft, hreint vatn, þak yfir höfuðið, góða menntun og heilsulegt fæði.
„Það sem gerir kerfið okkar öðruvísi er að við leggjum alla áherslu á þjónustu við sjúklinga á kostnað þess að fjárfesta í og styðja við forvarnir og heilsueflingu,“ segir annar sérfræðingur.
Misskipting dregur úr meðalævilengd
Á eyjunni Kúbu mælast hærri lífslíkur en í Bandaríkjunum (77,5) þrátt fyrir að litla eyjan í Karabíska hafinu sé með sjö sinnum minni þjóðarframleiðslu á mann en Bandaríkin. Í bók sinni The Spirit Level (2009) hafa bresku faraldursfræðingarnir Kate Pickett og Richard Wilkinson bent á að efnahagsleg gæði landsins og fjárframlög til heilbrigðiskerfisins leiða ekki endilega til betri heilsu og hærri lífslíkna. Þau halda því hins vegar fram að misskipting sé lykilþáttur og að lífslíkur séu yfirleitt hærri í þeim samfélögum þar sem jöfnuður er meiri.
„Það er sterk fylgni á milli misskiptingar annars vegar og lægri meðalævilengdar, hærra tíðni ungbarnadauða, slæmrar heilsu, hærra tíðni alnæmis og þunglyndis hins vegar,“ segja höfundarnir. Þá benda þeir á að svartir karlmenn í Harlem-hverfinu í New York búa við verri lífsslíkur en meðal-karlmaður í Bengladesh, endar er mikill munur á meðalævilengd hjá mismunandi þjóðfélagshópum.
„Það er hins vegar mikilvægt að árétta að verri lífslíkur endurspegla ekki eingöngu minni meðalævilengd hjá þeim lægri settum, sem búa gjarnan við verri heilsu, heldur eru lífsslíkur þeirra sem hafa það gott líka verri en annars staðar. Með öðrum orðum er það alveg sama hvar maður er staddur félagslega, það er alltaf ávinningur af því að búa í jafnara samfélagi,“ segja höfundarnir að lokum.
Athugasemdir