Ótti er sterk tilfinning. Þegar fólk verður hrætt þá er það líklegra til að gefa afslátt af skynsemi og dómgreind þess litast af ástandinu. Krafa á að málflutningur sé byggður á staðreyndum minnkar og fólk er sennilegra til að láta tilfinningar ráða afstöðu sinni en raunveruleikann. Þetta vita ýmsir stjórnmálamenn og reyna því að ala á ótta við hið óþekkta sjálfum sér til pólitísks framdráttar.
Slíkir tækifærissinnar reyna eftir fremsta megni að mála upp ranga mynd af gangverki samfélagsins þar sem einhverjir hópar séu að taka gæði, réttindi, menningu eða pláss frá öðrum. Stilla upp andstæðum. Búa til einhvers konar „við“ sem séu í vörn gegn ásókn „þeirra“ sem hafi það eitt að markmiði að riðla samfélagsgerðinni.
Rætur þessa menningarstríðs liggja í átökum milli íhaldsmanna og frjálslyndra afla í Bandaríkjunum á síðustu öld. Hugmyndin þar var að frjálslyndari stjórnvöld, sem studdu meðal annars skýran aðskilnað ríkis og trúarbragða, fjölmenningarsamfélög, aukin réttindi kvenna og ýmissa minnihlutahópa og aðrar leiðir til að takast á við félagsleg vandamál en að auka aðgengi almennings að skotvopnum eða dæma fólk til lengri fangelsisvistar væru einhvers konar ógn við bandaríska samfélagsgerð, hið hefðbundna fjölskylduform og kristin gildi. Undirliggjandi var þó skýr rasísk nálgun. Verið var að verja hina „hvítu“ tilveru frá ágangi annarra.
Að reka fleyg
Á undanförnum áratugum hefur hlaðist utan á þennan bolta, sérstaklega vegna áhrifa alþjóðavæðingar sem hafa leitt til þess að ýmis leiðandi ríki í hinum vestræna heimi hafa efnast gríðarlega en á sama tíma hefur ójöfnuður aukist mjög. Hinir ríku hafa orðið stjarnfræðilega ríkari á meðan að störf sem áður tryggðu ágætis millistéttarlíf hafa flust til annarra landa þar sem kostnaður við þau er mun minni. Á móti hafa svo íbúar frá stríðshrjáðum löndum eða þeim sem eru eftir á í efnahagslegri framþróun í auknum mæli ákveðið að flýja til betur stæðra ríkja. Samhliða hafa velferðarkerfi verið kerfisbundið veikt.
Þessi þróun hefur leitt af sér að stórir hópar telja sig skilda eftir. Að búið sé að hafa af þeim tækifæri sem áður voru til staðar til að eiga mannsæmandi líf með sómasamlegar tekjur í umhverfi sem svipar til þess sem þeir þekktu áður. Opinbera þjónustu sem það áður taldi sjálfsagða en er nú í molum. Þar sem réttur eins til að segja hvað sem er var sterkari en réttur hins til að verða ekki fyrir þeirri orðræðu.
Ýmsir stjórnmálamenn hafa nýtt sér þessa stöðu til að reka fleyg milli hópa innan ríkja. Búa til strámanninn um „þá“ sem eru að reyna að taka gæðin og samfélagsgerðina af „okkur“. Á Vesturlöndunum hafa Donald Trump og Boris Johnson staðið þar upp úr. Menn sem skeyta ekkert um staðreyndir og hafa sýnt að þeir eru meira og minna tilbúnir að klæða allt í búning fullyrðinga svo lengi sem þeir telja að það sé markaður fyrir því sem þeir eru að selja.
Ybbarnir
Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að flytja áherslur þessa menningarstríðs inn í íslensk stjórnmál. Þar hefur farið einna fremstur í flokki Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra. Menningarstríðið hefur verið leiðandi stef í allri hans pólitík síðan hann kom fram á sjónarsviðið sem stjórnmálamaður í kjölfar hrunsins. Allt snýst um að skipta fólki upp í hópa þeirra sem eru að hans mati réttstæðir og þeirra sem séu rangstæðir. Fjölmiðlar, kröfuhafar, útlendingar, alþjóðastofnanir og svo á endanum það sem hann kallaði, í grein sem Sigmundur skrifaði árið 2020, „ybba“. Þar sagði hann að nafnið væri „viðeigandi vegna þess að meðlimir hópsins telja sig yfirleitt yfir aðra hafna og álíta sig jafnan yfirburðafólk með yfirburði yfir „fávísan og fordómafullan almúgann“. Fyrir vikið telja þeir það hlutverk sitt að vera yfirboðarar hinna fávísu (hvað sem líður gömlum hugmyndum um lýðræði og skoðanafrelsi). Auk þess er uppáhaldsiðja meðlima hópsins sú að ybba sig, ybba gogg og útskýra fyrir öllum öðrum hvers vegna þeir hafi rangt fyrir sér. Þetta er yfirleitt gert af talsverðu yfirlæti.“
Sigmundur sagði að ef finna mætti einhverja samfellu í viðhorfum ybbanna, aðra en þversagnirnar og tilhneigingu til að draga fólk í dilka, væri „það andstaða við grunngildi vestrænnar menningar. Þar er margt undir; frelsi einstaklingsins, tjáningarfrelsi, réttarríkið, jafnræði, sakleysi uns sekt er sönnuð, eignarréttur, einkaréttur ríkisins á valdbeitingu, persónuvernd og svo mætti lengi telja.“
Snákaolíusala
Það er engum vafa undirorpið að eftir því sem fleiri stjórnmálamenn tala opinberlega á þessum nótum því meiri líkur eru á því að þessi orðræða fái á sig áferð eðlilegrar þjóðmálaumræðu. Sérstaklega þegar valdir fjölmiðlar hlaupa undir bagga.
Innflutta menningarstríðið hefur fyrir vikið breitt úr sér í landi þar sem engar forsendur eru fyrir því aðrar en pólitískar keilur óvandaðra pólitíkusa. Þriðji orkupakkinn, Bókun 35, meint ritskoðun, ætluð höft á málfrelsi, réttindi trans fólks, réttur kvenna til að tjá sig um ofbeldi sem þær verða fyrir, kórónuveirufaraldurinn, hvernig á að takast á við fíknivanda, þungunarrof. Allt eru þetta dæmi um málefni sem þessi hópur hefur tekið í sína þjónustu, talað upp í vandamál sem þau eru ekki og tengt við fjarstæðukenndar samsæriskenningar um að einhver sé að reyna að hafa eitthvað af okkur. Allt byggt á tilfinningum og snákaolíusölu.
Andstæðingarnir eru óljós hópur sem ógnar. Góða fólkið. Woke-hreyfingin. Snjókornin. Glóbalistarnir. Ybbar.
Málgagn innflutta menningarstríðsins
Morgunblaðið er málgagn þessara hópa. Þar hafa þeir fundið skjól fyrir sinn hræðsluáróður og hundaflaut. Þar fá þeir, undir formerkjum málfrelsis, greiða leið inn á umræðusíður eða bloggsvæði miðilsins með sitt hatur og upplýsingaóreiðu. Þaðan er óværan oft tekin upp og færð inn í ritstjórnarskrif. Stundum tekur blaðið þó bara boltann sjálft.
Í síðasta Reykjavíkurbréfi annars ritstjóra Morgunblaðsins, fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar, sagði til að mynda að rannsókn á Dominic Raab, nú fyrrverandi varaforsætisráðherra Breta, sem sagði nýverið af sér vegna þess að hann þótti sýna eineltistilburði í garð margra undirmanna sinna, minnti „á woke-tilburðina í Bandaríkjunum sem eru alla að drepa og demókratar hafa gert að sínu máli og „umræðu“ um „trans karla“ sem breytast á augabragði í trans konur og eiga þar með rétt á, frá því augnabliki, að rjúka inn á kvennasnyrtingu, til að mynda í flughöfnum og samkomuhúsum, án þess að nokkur megi finna að því. Demókratar, undir forystu fyrrverandi forseta Obama, voru í forystu fyrir viðbrögðum og undanlátssemi gagnvart þessari vitleysu.“
Best þegar Björn Friðfinnsson valdi flóttafólk
Sami ritstjóri, og ýmsir undirsátar hans, hafa þó helst verið duglegir við að breiða út rangfærslur og óhróður um flóttafólk sem hingað leitar eftir skjóli eða betra lífi. Í Reykjavíkurbréfi sem birt var í nóvember 2022 sagði meðal annars að: „Íslendingar hafa lengi tekið á móti raunverulegum flóttamönnum. Og við gerðum það hlutfallslega miðað við aðra. Tækju Bandaríkjamenn á móti 30.000 flóttamönnum frá Víetnam tókum við á móti 30. Björn Friðfinnsson valdi þá. Gunnlaugur Þórðarson, dr. jur., fór og sótti hingað Ungverja eftir uppreisnina þar. Allt þetta fólk hefur staðið sig vel. Það fólk átti ekki afturkvæmt heim lengi vel. Það hefur breyst. Nú virðist tískan að flytja inn glæpaklíkur. Auðvitað misvondar og mishættulegar. En á meðan ríkisvaldið hefur ekki val, eins og áður var, þá kemur þetta fólk hingað með ólögmætum hætti.“
Annað dæmi er frá árinu 2019, þegar Morgunblaðið birti frétt á forsíðu sinni með fyrirsögninni: „Hælisleitandi safnaði geymasýru á Ásbrú“. Í fréttinni, sem var 79 orð, stóð að ekki hafi verið vitað í hvaða tilgangi maðurinn safnaði sýrunni. Fréttin var tekin upp af öllum stærstu miðlum landsins, meðal annars RÚV. Síðar kom í ljós að maðurinn hafi ætlað sér að losa um stíflu í vaski með sýrunni. Lögreglan var aldrei kölluð til.
Þetta skipti þó engu máli. Sagan um flóttamanninn sem safnaði sýru til að skvetta í andlit lifir enn góðu lífi. Í úttekt Heimildarinnar í dag um útlendingaandúð er hún nefnd sem rökstuðningur fyrir hræðslu við útlendinga, fjórum árum eftir að sýnt var fram á að fréttin væri þvæla.
„Það víkur ekki“
Þetta er það sem daður hræðsluáróðurspólitíkusa og óvandaðra málgagna þeirra skilar okkur. Margra ára klifun á hræðslu við hið óþekkta, sérstaklega útlendinga, er því miður farið að skila árangri. Fjöldi fólks, meðal annars kjörnir fulltrúar í sveitarstjórn og á Alþingi, tjá sig í forsíðuumfjöllun Heimildarinnar um sögusagnir af hegðun og atferli flóttafólks og notar þær sem grunn fyrir neikvæðri afstöðu sinni til þeirra. Úttekt Heimildarinnar sýnir að nánast allar sögusagnirnar virðast byggðar á sandi.
Samt finnst fólkinu í lagi að tala um „þetta fólk“ og skilgreina það fyrst og síðast sem ógn. Einn viðmælandinn sagði um flóttafólk: „Það víkur ekki þegar það labbar á miðri götu og ég er að keyra götuna. Við erum að borga undir þetta lið. Ég vil að þau sýni landinu sem er að hjálpa þeim virðingu.“
Annar, þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson, sem hefur margoft orðið uppvís að því að hræra í pottum menningarlegs rasisma, sagði „þetta fólk, mest allt karlmenn [...] sitja þeir til dæmis í stórri verslunarmiðstöð og mæna á kvenfólk. [...] þetta er það sem fólk segir.“ Hann bætti svo við: „Hræðslan við þetta fólk stafar af því að í til dæmis götu sem ég bý rétt hjá, að þar koma hópar karlmanna dökkir á brá og brún og ganga þar um og það hræðir fólk.“ Þegar borið var upp á Ásmund að saga sem hann flutti úr pontu Alþingis, um að íbúum hafi verið hent út úr blokk í Reykjanesbæ og á götuna til að rýma fyrir flóttafólki, hafi reynst röng þá sagði þingmaðurinn: „Annars er ég að bergmála það sem mér er sagt og ég geri ráð fyrir að flestir segi sannleikann. Ég hef ekki tíma til að gá hvort fólk er á götunni."
Rísum upp
Flóttafólk, og aðrir nýir Íslendingar, eru ekki ástæða þess að ýmsir búa ekki við boðlegar aðstæður á Íslandi. Út frá staðreyndum er það tæmd umræða. Ástæða þessa er sú að stjórnvöld velja að beina ekki fjármunum í þá málaflokka sem gætu bætt lífsgæði þeirra. Þeim er meira umhugað um að skila meiri fjármunum til betur settra. Þangað má beina reiði.
Góða fólkið, snjókornin eða hvað sem afturhaldið vill kalla fólk með áhuga á mannréttindum og virðingu fyrir tilfinningum, stöðu og skoðunum annarra er heldur ekki vandamálið, heldur þeir sem geta ekki aðlagast nýjum veruleika, klifa á að það hafi allt verið betra í gamla daga og að nú „megi ekkert segja lengur“. Sérstaklega þeir sem nota sér bágar aðstæður jaðarsettra hópa til að ljúga upp á þá myrkraverk til að slá pólitískar keilur.
Við eigum að rísa upp gegn ömurlegum áróðri, nálgast umræðuna af samkennd og með vísun í staðreyndir.
Göngum þessa götu. Á miðju hennar ef þess þarf. Víkjum ekki.
Heimildin er hér að snúa við orsök og afleiðingu.
Fyrsta skrefið til að leysa vandamál er viðurkenna tilvist þess.
Þangað til að það gerist mun ástandið bara halda áfram að versna.
"For every action there is an equal and opposite reaction."
- Sir Isaac Newton