Þegar rætt erum um vottaðar kolefniseiningar skv. staðlinum Skógarkolefni heyrist oft kallað úti í horni: „En hvað með alþjóðlega vottun?“ Já, hvað með hana? Og þá verður fátt um svör, oftast bara „ja alþjóðleg vottun, það verður að vera alþjóðleg vottun; það dugar ekkert heimatilbúið!“ án þess þó að alþjóðleg vottun sé skilgreind nánar.
Gott er því að velta fyrir sér hvað sé „alþjóðlegt“ (e. international). Í grunninn er það þegar fleiri en eitt þjóðríki, ellegar fyrirtæki eða einstaklingar frá fleiri en einu þjóðríki, eiga í samvinnu eða samskiptum á einhvern hátt. Alþjóðleg vottun væri samkvæmt því vottun sem aðilar frá fleiri en einu þjóðríki stæðu að. Engu að síður er það svo, að engin vottun á kolefniseiningum er til á hinum frjálsa kolefnismarkaði í heiminum, sem aðilar frá fleiri en einu þjóðríki standa að.
Skoðum þetta betur. Vissulega varð það sem kallast Clean Development Mechanism (CDM) til undir Kyoto-bókuninni og er á margan hátt undirstaða hins frjálsa kolefnismarkaðar. CDM er kerfi á vegum Sameinuðu þjóðanna sem gerir löndum kleift að fjármagna í öðrum löndum verkefni sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og nýta hina minnkuðu losun sem hluta af aðgerðum til að uppfylla eigin skuldbindingar. Undir CDM urðu til grunnreglur (e. carbon principles) sem nánast allir staðlar á frjálsa markaðinum hafa tekið sig saman um að vinna eftir. Þessar grunnreglur eru nánast eins í öllum kolefnisstöðlum sem starfa á frjálsum kolefnismörkuðum. Grunnreglurnar má því kalla alþjóðlegar þó að vottunarkerfin sem byggð eru á þeim eigi hvert sitt heimaland.
Hverjar eru þá þessar grunnreglur? Fyrst er hægt að nefna þrjár meginreglur:
- Viðbót (additionality). Verkefni er „viðbót“ ef það og aðgerðirnar sem því tilheyra eru ekki áskildar í lögum og hefðu ekki verið mögulegar án fjármögnunar kolefnismarkaða.
- Varanleiki (permanence). Spurningin um hversu lengi koldíoxíð sem tekið hefur verið úr andrúmsloftinu er geymt í skógi eða á einhvern annan hátt. Er skilgreindur. Ekki óendanlegur.
- Leki (leakage). Losun koldíoxíðs sem tilheyrir ekki bókhaldi viðkomandi verkefnis en verður þó til af völdum þess. Dæmi um þetta getur verið landbúnaðarstarfsemi sem færð er frá einum stað til annars og veldur þar skógareyðingu eða þyngri nytjum á skóglausu landi. Verkefnið veldur því losun annars staðar.
Svo eru fjórar aðrar reglur sem ICROA (International Carbon Reduction and Offset Alliance), samtök hagsmunaaðila á kolefnismörkuðum sem ítrekað er vísað til, hefur innleitt í sínar kröfur:
- Mælanleiki (measurable). Skýr aðferðafræði um vöktun og mælingar.
- Gagnsæi (transparency). Aðgengilegar upplýsingar almennings um mælingar og aðferðafræði.
- Úttekt (audit). Verkefni og árangur þess tekinn út og staðfestur af óháðum vottunaraðila.
- Skráð (registered). Kolefniseiningar eru gefnar út og skráðar í miðlæga rafræna skrá.
Hvernig uppfyllir þá Skógarkolefni þessar grunnreglur og stenst Skógarkolefni alþjóðlegan samanburð?
Í fyrsta lagi er öll nýskógrækt undir Skógarkolefni „viðbót“ þar sem þau verkefni hefðu ekki orðið að veruleika ef ekki væri fyrir Skógarkolefni og fjármögnun einkaaðila. Í öðru lagi er „varanleiki“ vel skilgreindur í Skógarkolefni. Samningstími verkefna er 50 ár og eftir það er hægt að semja um áframhald verkefnisins. Að öðrum kosti gilda landslög og reglur um meðferð skóga. Í þriðja lagi er áhættan á „kolefnisleka“ hverfandi á Íslandi þar sem nánast hvergi er þröngt um landnotkun. Ólíklegt er t.d. að nýskógræktarverkefni á Íslandi leiði til skógareyðingar annars staðar. Engu að síður er tekið á leka í staðlinum.
Í fjórða lagi er aðferðafræðin á bak við Skógarkolefni byggð á mælingum og gögnum sem rannsóknasvið Skógræktarinnar hefur í aldarfjórðung safnað og skilað til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) og Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Þá er Skógarkolefni byggt á UK Woodland Carbon Code sem er breskur staðall, aðlagaður íslenskum lögum og reglum. Í fimmta lagi eru öll gögn, upplýsingar, vottanir og mælingar varðandi verkefni undir Skógarkolefni birt í Loftslagsskrá Íslands þegar verkefni hefur verið staðfest (e. validated).
Skógræktin vinnur nú að nýjum vef, www.skogarkolefni.is, sem fer í loftið í apríl. Þar verður ný uppfærsla á Skógarkolefni (útgáfa 2.0) ásamt ítarefni. Skógarkolefni verður þar aðlagað nýrri tækniforskrift Staðlaráðs um kolefnisjöfnun, ofan á hina alþjóðlegu staðla ISO 14064-1 og -2. Í sjötta lagi gerir Skógarkolefni þá kröfu að verkefni séu vottuð af óháðum þriðja aðila. Í sjöunda lagi eru öll verkefni og allar kolefniseiningar undir Skógarkolefni gefnar út í Loftslagsskrá Íslands. Skráin tryggir að kolefniseiningar séu einkvæmar, framseljanlegar og tvítalning því fyrirbyggð.
Skógarkolefni er íslenskur staðall byggður á alþjóðlegum grunnreglum og gæðastöðlum. Eitt svar við spurningunni, hvað er alþjóðlegt?, getur því hæglega verið: „Skógarkolefni“.
Athugasemdir