Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að það muni taka tíma að byggja nægilegt húsnæði. Gríðarleg ásókn sé í að búa á Íslandi og hér fjölgi mjög hratt. Hann væntir þess að lagafrumvörp verði fram sett á næsta þingi sem muni taka á þessu. „Þá er lagaumgjörðin komin, en það kemur auðvitað ekki í veg fyrir að óvandað fólk misnoti eymd og fátækt fólks til að bjóða því þessar aðstæður sem við sáum því miður í gær. Taka þarf á því og það er samfélagslegt vandamál.“
Þetta sagði innviðaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag en formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, spurði hann hvort ekki þyrfti að bregðast við húsnæðisvandanum strax.
Vísaði Inga í umfjöllun Kveiks frá því í gær en þar kemur fram að þremur árum eftir brunann mannskæða á Bræðraborgarstíg í Reykjavík búi fjöldi fólks við óboðlegar aðstæður. Skortur á úrbótum, mikil fólksfjölgun og húsnæðisekla séu meðal þátta sem þrýsta fólki í hættulegar aðstæður og gera óprúttnum kleift að nýta sér neyð annarra.
Stundin fjallaði ítarlega um bagalegar aðstæður á Holtsgötu 7 í Reykjavík í maí á síðasta ári en þar kom fram að hátt í 30 manns leigðu herbergi í húsnæði sem búið var að stúka niður í fjölda lítilla herbergja. Eldvörnum var illa eða ekkert sinnt. Fyrirtækið sem leigði út herbergin sætti engu opinberu eftirliti þar sem húsið var skráð sem íbúðarhúsnæði. Margir viðmælendur Stundarinnar sáu mikil líkindi með aðstæðum þar og þeim á Bræðraborgarstíg 1.
Býr fólk líka í kartöflugeymslum eða manngerðum hellum?
Inga sagði í upphafi fyrirspurnar sinnar að hún talaði líklega fyrir munn margra þegar hún lýsti því yfir að hún hefði orðið fyrir sjokki þegar hún horfði á Kveik í gærkvöldi.
„Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér, þegar maður sér fólk búa í mygluðum kolakjallara með tvö börn, hvort við eigum ekki líka eitthvað af kartöflugeymslum og manngerðum hellum og einhverju slíku sem einhverjir búa í án þess að við vitum af því,“ sagði hún.
Þá rifjaði hún upp að fyrir þremur árum hefði hörmulegt slys orðið þegar kviknaði í húsi sem búið var að troða allt of mörgu fólki í, á Bræðraborgarstíg, og þrjú ungmenni dóu. „Maður er eiginlega með grátstafinn í kverkunum. Nú hefur Framsóknarflokkurinn, flokkur hæstvirts innviðaráðherra, verið með þessi húsnæðismál meira og minna frá lýðveldisstofnun. Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvernig hæstvirtur ráðherra hafi orðið við. Það væri kannski réttara að spyrja fyrst hvort hæstvirtur ráðherra hafi séð þær hörmungar sem voru sannarlega bornar á borð fyrir okkur í Kveik í gærkvöldi. Maður veltir líka fyrir sér: Hvernig stendur á því að það þarf fjölmiðla til að draga fram þann óþverra sem sjálfsagt þúsundir búa við í dag án þess að ríkisvaldið skipti sér nokkurn skapaðan hlut af því?“ spurði hún.
Inga spurði ráðherrann jafnframt hvað væri um að vera. Hefði hann hugsað sér að grípa inn í þetta strax eða ætti kannski að skipa stýrihóp eða setja málið í nefnd eða bíða þangað til næsta kjörtímabil gengur í garð.
Ábyrgð stjórnvalda felst í því að tryggja viðunandi og sanngjarna löggjöf
Sigurður Ingi svaraði og sagði að hann hefði séð þennan þátt í gær og að umfjöllunin hefði veitt innsýn í aðbúnað og húsnæði fólks sem væri algerlega óviðunandi í íslensku samfélagi. Hann gæti verið sammála Ingu um það.
„Einnig veitti þessi umfjöllun okkur innsýn í það hversu langt er gengið í að gera eymd fólks og húsnæðisvanda að féþúfu. Það er satt að segja hryllilegt að hugsa til þess hvað fólk leyfir sér í þeim efnum. Það eru sár vonbrigði og samfélaginu öllu alvarleg áminning. Ábyrgð stjórnvalda, ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar, felst í því að tryggja viðunandi og sanngjarna löggjöf á þessu sviði, til að mynda húsaleigulög, brunavarnalög, lög um lögheimili og aðsetur, að skipuleggja virkt eftirlit og svo framvegis.
Eftir brunann á Bræðraborgarstíg var sett af stað mikilvæg vinna, bæði á vegum stofnana og nú síðast á vegum tveggja starfshópa sem ég skipaði fyrir rúmu ári sem skiluðu skýrslu með 13 úrbótatillögum. Þessar 13 úrbótatillögur eru þannig að fimm þeirra er lokið og sjö af þeim eru síðan þessum tveimur starfshópum og eru að hluta til til umsagnar í samráðsgátt með það að markmiði að undirbúa löggjöf sem styrkir annars vegar takmarkanir á fjöldaskráningu lögheimilis og aðseturs og hins vegar lagabreytingar vegna óleyfilegrar búsetu. Þær þurfa annars vegar að vera á því sviði að heimila tímabundna skráningu aðseturs í atvinnuhúsnæði þannig að það sé tekið út og haft eftirlit með því, sem ekki er í dag, og hins vegar varðandi brunavarnalög til að veita slökkviliðinu heimildir til að skoða slíkt húsnæði,“ sagði hann.
Ríkisvaldið og sveitarfélögin búin að ýta í gang „algerlega óútskýranlegu ferli“
Inga steig aftur í pontu og sagði að horfast þyrfti í augu við það að ríkisvaldið og sveitarfélögin væru búin í rauninni að ýta í gang einhverju algerlega óútskýranlegu ferli inn á húsnæðismarkaðnum. „Græðgin og hryllingurinn sem þar er í gangi – okur, leigan og allt sem þar er í gangi. Það er eiginlega ekki hægt að tala um það og að það skuli vera í samkeppni við ríki og sveitarfélög sem keyra þetta upp er ennþá sorglegra.“
Hún sagði að það væri frábært að málið skyldi vera komið inn í samráðsgátt og að slökkviliðið skyldi fá frekari heimildir en hún spurði ráðherrann hvort ekki þyrfti að gera eitthvað meira – alveg undir eins.
Græðgisvæðing samfélagslegt vandamál
Sigurður Ingi sagðist í framhaldinu ekki vilja taka undir það að græðgisvæðing væri ríki eða sveitarfélögum að kenna. „Ég held að hún sé miklu stærra samfélagslegt vandamál heldur en svo. Við eigum hins vegar að gera allt sem við getum til að ýta undir uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Sveitarfélögum ber skylda til að skjóta skjólshúsi yfir íbúa sína, ríkið hefur ákveðin tæki til þess og við erum að vinna slíka vinnu,“ sagði hann og bætti því við að hann vænti stuðnings frá Ingu og þinginu öllu til að klára það þegar húsnæðisstefna birtist í þinginu.
„Það mun taka tíma að byggja nægilegt húsnæði. Gríðarleg ásókn er í að búa á Íslandi og hér fjölgar mjög hratt, fyrir utan að við erum líka að leysa úr fortíðarvanda. Ég get verið sammála háttvirtum þingmanni í því að það væri gott ef við gætum unnið enn hraðar, en á þessu sviði er verið að vinna mjög góða vinnu og ég vænti þess að við munum sjá lagafrumvörp á næsta þingi sem munu taka á þessu. Þá er lagaumgjörðin komin, en það kemur auðvitað ekki í veg fyrir að óvandað fólk misnoti eymd og fátækt fólks til að bjóða því þessar aðstæður sem við sáum því miður í gær. Taka þarf á því og það er samfélagslegt vandamál,“ sagði hann að lokum.
Eina viðeigandi lýsingin á þessum orðum Sigurðar Inga er enska orðið ...BULLSHIT !
Vandamálið er heimatilbúðið og sömu gerðar og þegar kvótinn var leyfður í framsal og veðsetningar ..... þetta er gróðabisness og draumur þéttingar og skipulagsmöppudýra sem vilja frekar fá sinn vilja í gegn en leysa vandamálið.
"Ég get verið sammála háttvirtum þingmanni í því að það væri gott ef við gætum unnið enn hraðar, en á þessu sviði er verið að vinna mjög góða vinnu og ég vænti þess að við munum sjá lagafrumvörp á næsta þingi sem munu taka á þessu. Þá er lagaumgjörðin komin, en það kemur auðvitað ekki í veg fyrir að óvandað fólk misnoti eymd og fátækt fólks til að bjóða því þessar aðstæður sem við sáum því miður í gær. Taka þarf á því og það er samfélagslegt vandamál,“