Ég hef verið beðin um að segja frá því sem ég hefi lært af lífinu og ég fór að velta þessu fyrir mér. Hvað hef ég lært af lífinu, hafi ég yfirleitt lært nokkuð á þessum rúmlega sjötíu árum sem ég hef lifað, þá ekki síst þann lærdóm sem ég hef öðlast á síðustu þrjátíu árum. Jú, það er heldur betur mikið sem ég hef lært og þá ekki aðeins á síðustu þrjátíu árum heldur allan minn fullorðinsaldur. Þá á ég fyrst og fremst um sjálfa mig og afstöðuna til lífsins, allt frá ákafa unglingsáranna til hógværðar ellinnar.
Um tvítugt var ég róttæk, en samt fordómafull og áköf, en um leið vissi ég um mína veikleika sem ég hafði reyndar fundið fyrir allt mitt líf, en þegar komið var fram á þrítugsaldurinn toguðust þrárnar á við hvor aðra og ávallt af sama ofsanum uns önnur þráhyggjan varð ofan á og ég fór að vinna að framgangi hennar. Þær voru samt margar hindranirnar í veginum og ég horfði á niðurlæginguna sem fólk varð fyrir sem reyndi að komast úr úr skápnum og það var ljóst að það yrði ekki auðveldara hjá mér ef ég kæmi út við þær aðstæður sem ríktu á Íslandi á þeim tíma og ég lærði að fara varlega, halda mér við þá hópa sem stóðu mér nær tilfinningalega séð og forðaðist samneyti við aðra. Þannig var ég í reynd farin að einangra sjálfa mig tilfinningalega þótt ég hafi ávallt verið frekar opin félagslega.
Svo kom að því að ég þurfti að hrökkva eða stökkva, flutti til Svíþjóðar að ráðum þess góða fólks sem reyndi að aðstoða mig heima á Íslandi og hóf að leita leiða til að komast í aðgerðarferli til leiðréttingar á kyni þar í landi. Þar gerðist ég fljótlega meðlimur í Benjamin, félagi transsexual fólks, góður vettvangur til að kynnast öðrum trans manneskjum, en sem á þeim tíma vann einungis inn á við, en gerði ekkert í þeim tilgangi að bæta ástandið gagnvart trans fólki út á við.
Ákveðin atvik urðu til þess á árinu 1993 að ónefndir hópar hófu að ofsækja trans fólk og við sem stóðum utan stjórnar félagsins hófum því að gagnrýna stjórnina fyrir aðgerðarleysi og fyrir að fara í felur í stað þess að verja málstað okkar gagnvart almenningi. Þetta varð til þess að stjórn félagsins sagði öll af sér í ársbyrjun 1994 og ég neyddist til að taka að mér formennskuna með ungt og öflugt fólk mér við hlið. Um leið þurfti ég að standa við stóru orðin og þar með var ég komin út úr skápnum í sænsku samfélagi og orðin hálfopinber persóna þar í landi þannig að öll loforðin um að halda mér til hlés fóru fyrir bí og ég þurfti að koma fram fyrir hönd félagsins í útvarpi og sjónvarpi sem og í dagblöðum. Ekki leið á löngu uns fréttir af mér bárust til Íslands.
„Það mótlæti sem ég varð fyrir fyrstu árin á Íslandi varð svo fáum til sóma og sjálf var ég iðulega lítið betri er ég þurfti að svara munnlegum eða skriflegum árásum á mig, en um leið lærði ég að taka leiðindunum með hógværð.“
Ég lauk aðgerðarferli mínu árið 1995 og flutti heim ári síðar. Ég hafði tekið ýmislegt með mér í veganesti, hógværð í málflutningi svona oftast nær, en um leið ákveðna varúð og ég reyndi að gæta þess að stíga ekki á neinar tær á þessari vegferð eins og ég hafði kannski oft gert áður en ég hóf vegferðina fyrir alvöru.
Það mótlæti sem ég varð fyrir fyrstu árin á Íslandi varð svo fáum til sóma og sjálf var ég iðulega lítið betri er ég þurfti að svara munnlegum eða skriflegum árásum á mig, en um leið lærði ég að taka leiðindunum með hógværð. Um leið var ávallt góður kjarni sem stóð að baki mér og fór sá hópur stækkandi eftir því sem árin liðu. Eftir að við urðum fleiri sem gátum tekið þátt í baráttunni á Íslandi minnkuðu fordómar fólks gagnvart mér og smám saman skiptu þeir um skoðun sem höfðu verið andvígir mér í upphafi.
Þegar liðnir voru kannski tveir áratugir frá heimkomu minni frá Svíþjóð má segja að fordómarnir hafi verið að mestu horfnir, nema þá hjá allra hörðustu andstæðingum fjölbreytileika samfélagsins. Um svipað leyti var ég búin að draga mig að mestu út úr baráttunni, lét yngra fólki um hana og taldi mig hafa gert nóg. Ég hafði fengið nóg í veganesti og nú var það bara að tileinka mér auðmýkt og hógværð og læra að brosa út í heiminn þótt ég viðurkenni alveg að enn á ég það til að missa mig í orðum þegar ég fæ á tilfinninguna að einhver er að gera á hlut skoðana minna á mönnum og málefnum.
„Ég var vissulega eins og „The only trans in the village“ fyrsta áratuginn eftir að ég flutti heim aftur frá Svíþjóð.“
Ég er löngu hætt að berjast í dag, reyni að njóta sólar og sumars sem mest á suðlægum slóðum þótt vissulega heyri ég af einu og öðru sem full þörf er á að berjast fyrir. Því er ljóst að það er langt í að fullt jafnrétti náist á við aðra hópa samfélagsins svo það er engin ástæða til að hætta baráttunni.
Ég viðurkenni alveg að ég átti ákveðinn þátt í þeirri þróun til viðurkenningar á trans fólki og var vissulega eins og „The only trans in the village“ fyrsta áratuginn eftir að ég flutti heim aftur frá Svíþjóð, svo skemmtilegum frasa úr ensku sjónvarpsþáttunum Little Britain sé snúið upp á trans fólk, en það er samt langt í frá að ég hafi verið ein í baráttunni. Við vorum ávallt hópur, jafnt á Íslandi sem og annars staðar sem þurftum að standa í fararbroddi, en um leið get ég ekki annað en þakkað með auðmýkt fyrir þann stuðning sem við fengum og fáum enn í dag.
Athugasemdir (3)