Sex af þrettán þingmönnum Framsóknarflokksins hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um hnefaleika. Þingmennirnir vilja heimila keppni, sýningu og kennslu hnefaleika, bæði áhugamanna- og atvinnumannahnefaleika.
Flutningsmenn frumvarpsins, sem útbýtt var á Alþingi í gær, eru Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Jóhann Friðrik Friðriksson og Stefán Vagn Stefánsson. „Það getur verið að þótt við fyrstu sýn líti hnefaleikar út eins og almenn áflog tveggja manna þá er það langt frá því að vera raunin,“ segir meðal annars í greinargerð frumvarpsins.
Ásamt því að heimila keppni, sýningu og kennslu hnefaleika vilja þingmennirnir heimila sölu og notkun hnefaleikahanska, annars búnaðar og tækja til notkunar við iðkun og þjálfun hnefaleika ásamt mótshaldi tengdu hnefaleikum. Þá er lagt til að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setji reglur um iðkun og þjálfun hnefaleika ásamt mótshaldi tengdu hnefaleikum á Íslandi. Hnefaleikasamband Íslands var stofnað árið 2015 og sjö hnefaleikafélög eru starfrækt á Íslandi í dag og reka þau skipulagt íþróttastarf á sviði hnefaleika.
Áhugamannahnefaleikar verið leyfðir frá 2002
Hnefaleikar voru bannaðir á Íslandi árið 1956 með lagasetningu en árið 2002 voru samþykkt lög sem heimila ólympíska hnefaleika, eða áhugamannahnefaleika. Verði frumvarpið að lögum mun það fella úr gildi önnur lög um hnefaleika. Helsti munurinn á atvinnumannahnefaleikum og áhugamannahnefaleikum er sá að skylt er að hafa höfuðhlífar í áhugamannahnefaleikum. Þar eru loturnar einnig færri, alls þrjár, en í atvinnumannahnefaleikum getur viðureign staðið í allt að tólf lotur.
„Það getur verið að þótt við fyrstu sýn líti hnefaleikar út eins og almenn áflog tveggja manna þá er það langt frá því að vera raunin.“
Í greinargerðinni er saga hnefaleika rakin, þeir sagðir hafa verið vinsæl íþrótt bæði meðal áhorfenda og iðkenda hér á landi og um allan heim. Þá er bent á að hnefaleikamenn hafa verið meðal hæstlaunuðu íþróttamanna heims síðastliðin ár „enda er nánast alltaf slegist um miða á hvern hnefaleikaviðburð ásamt því að fólk um allan heim borgar háar fjárhæðir fyrir að horfa á viðburði hvort sem það er í sjónvarpi eða á netinu“. Í greinargerðinni er einnig minnst á nokkra hnefaleikamenn sem eru „meðal frægustu einstaklinga heims“, til að mynda Muhammad Ali, Mike Tyson, Floyd Mayweather, Manny Pacquiao, Oscar De La Hoya og George Foreman.
Þar segir einnig að hnefaleikar, „stundum kallað „box“ í almennu tali,“ sé á meðal þekktustu íþróttagreina heims. „Ýmsar reglur gilda um lögmæti höggs, öryggisráðstafana er gætt í hvívetna og högg eru mismunandi skilgreind hvað varðar stigagjöf. Ásamt þessu eru ýmis brögð og stílar til staðar sem hnefaleikakappar, eða „boxarar“, hafa varið árum saman í að fullkomna.“
Hnefaleikar góðir fyrir líkama og sál
Þá segir að þeir sem æfa og stunda hnefaleika reglulega „eru almennt í góðu líkamlegu formi og lifa heilbrigðum lífsstíl. Hnefaleikar, eins og allar aðrar íþróttir, eru góðir fyrir líkama og sál.“
Flutningsmennirnir segja engan grundvallarmun á hnefaleikum, eða öðrum bardagaíþróttum, og öðrum íþróttum sem viðurkenndar eru hér á landi. „Hins vegar hafa hnefaleikar, sem og margar aðrar bardagaíþróttir verið misskildar og/eða sætt fordómum í áranna raðir hér á landi og víðar.“
Í greinargerðinni segjast flutningsmennirnir vera meðvitaðir um áhættu þess að stunda hnefaleika en benda á að öllum íþróttagreinum fylgir hætta á meiðslum hvort sem þau eru alvarleg eða meiri háttar.
Bann við hnefaleikum skerðir frelsi bæði til iðkunar og atvinnu að mati flutningsmannanna og vísa þau í 75. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir: „Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa.“ Það frelsi má þó takmarka með lögum ef almannahagsmunir krefjast þess en flutningsmenn frumvarpsins segja að ekki er talið að almannahagsmunir samfélagsins krefjis þess að takmarka skuli frelsi til atvinnu hvað hnefaleika varða.
„Með samþykkt frumvarpsins verður staða hnefaleika, þessarar vinsælu íþróttagreinar, styrkt hér á landi og um leið auknir möguleikar á því að atvinnumenn í hnefaleikum geti komið frá Íslandi í náinni framtíð,“ segir í greinargerð frumvarpsins.
Rothögg getur valdið heilaskemmdum og jafnvel langri innlögn á sjúkrahúsi. Það eru almannahagsmunir að sjúkrahúsin séu ekki ofhlaðin að óþörfu.