„Í stjórnsýslunni er orðin slík meðvirkni með fordæmalausri stöðu og fjölgun hælisleitenda að ekki má lengur segja sannleikann í málinu.“
Þetta sagði Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í gær. Hann hélt ræðu undir liðnum störf þingsins tvo daga í röð þar sem hann gerði málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd að umtalsefni og setti í samhengi við húsnæðismál á Suðurnesjum.
Hann sagði í fyrri ræðunni að ástandið þar væri að verða ógnvænlegt og óbærilegt vegna fjölda hælisleitenda, hræðslu og ógnandi umhverfis.
„Fjöldi þeirra kallar á mikinn íbúðakost. Nú er svo komið að leigusalar á Suðurnesjum eru hættir að endurnýja leigusamninga eins og þennan hérna við íbúa sem hafa verið á leigumarkaði í yfir 15 ár, eins og við þann einstakling sem á þennan samning. Hann fær ekki framlengingu á leigusamningum sínum vegna þess að ríkið er búið að yfirborga leiguna. Það er búið að yfirbjóða leiguna á 30 samningum á Ásbrú, þar sem 30 fjölskyldum er sagt upp leigunni til að koma fyrir útlendingum.
Þessum einstaklingi er boðið helmingi minna húsnæði á 140.000 krónur á mánuði þar sem er aðgangur að salerni og sameiginlegu eldhúsi. Erlendir byggingarverktakar sem vinna á höfuðborgarsvæðinu, í Suðurnesjabæ og í Reykjanesbæ hefur verið sagt upp blokkinni sem þeir búa í vegna þess að Vinnumálastofnun er búin að yfirbjóða leiguna,“ sagði þingmaðurinn.
„Það ræður enginn orðið við að leigja hús á Suðurnesjum. Og það er ríkið sem gengur þar á undan.“
Nefndi Ásmundur hugmyndir um leiguþak. „Mér hefur stundum dottið í hug að styðja jafnvel þá tillögu, en þegar ríkið sjálft er nú farið að ganga fram með þessum hætti þá nær það ekki nokkurri átt. Það er þannig suðurfrá að ef það losnar íbúð þá eru tugir fjölskyldna sem eru að reyna að fá íbúðir, sem hefur þau áhrif að það er alveg sama hvaða kompur eru í boði; leiguverðið fer upp úr öllu valdi. Það ræður enginn orðið við að leigja hús á Suðurnesjum. Og það er ríkið sem gengur þar á undan,“ sagði hann og lauk ræðunni á að spyrja hvort ekki væri mál að linni í því máli. Mátti heyra að nokkrir þingmenn samsinntu honum með því að kalla: „Heyr, hey.“
Segir heimafólk komið á götuna
Í síðari ræðunni hélt Ásmundur áfram að greina frá áhyggjum sínum af málum á Suðurnesjum. „Þar er gríðarlegur fjöldi hælisleitenda og staðan er orðin erfið og viðbrögð fólks við stöðunni mjög sterk. Sveitarstjórnarmenn og starfsmenn félagsþjónustunnar eru að bugast og starfsmenn í flugstöðinni hafa fyrir löngu misst tökin á landamærunum. Hingað streymir fólk sem við hefðum alls ekki viljað taka við undir öllum venjulegum kringumstæðum.
Það liggur fyrir að ríkisstofnun er að taka húsnæði á leigu undir hælisleitendur sem áður var leiga á almennum markaði. Heimafólk, sem hefur leigt og verið leigjendur áratugum saman, er komið á götuna. Það hefur í fæstum tilfellum í önnur hús að venda og er látið víkja úr íbúðum vegna fólks sem er á flótta. Þegar ég leitaði eftir svörum um hverju það sætti var mér sagt að þetta væri góður „business“ fyrir leigusala,“ sagði hann.
Varðandi hugmyndir um að reisa flóttamannabúðir þá sagði Ásmundur að reyndar væri talað um skipulagða byggð sem væri áætlað að kostaði 5.000 milljónir.
„Ég hef ekki séð hvort þær tölur eru inni í fjármálaáætluninni en það er þá ekki til þess að draga saman seglin í ríkisfjármálunum. Í stjórnsýslunni er orðin slík meðvirkni með fordæmalausri stöðu og fjölgun hælisleitenda að ekki má lengur segja sannleikann í málinu. Þegar sannleikurinn er orðinn feimnismál er rétt að benda á að samkvæmt áætlun mun hælisleitendum fjölga um 460 manns í hverjum mánuði þetta ár að minnsta kosti og verða alls 6.000 í árslok, 11.000 á tveimur árum. Ég spyr, virðulegur forseti: Er ekki mál að linni?“ spurði hann aftur í síðari ræðunni.
Getur ekki gengið að Suðurnesin beri hita og þunga af móttökunni
Ásmundur og Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar ræddu málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Oddný segir á Facebook-síðu sinni að ástandið og ólgan á Suðurnesjum sé afleiðing athafnaleysis síðustu ríkisstjórna í málefnum þeirra sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd.
„Það getur ekki gengið að Reykjanesbær og Suðurnesin beri hita og þunga af móttökunni. Dreifa þarf þjónustunni á fleiri sveitarfélög,“ skrifar hún.
„Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar ekki verið reiðubúin til að horfast í augu við stöðuna í heiminum og alltaf verið í eftiráreddingum.“
Þá bendir hún á að í kjölfar stríðsins í Sýrlandi hafi fjöldi flóttafólks aukist í Evrópu umtalsvert, þróun sem hafi átt sér stað yfir langan tíma. „Við höfum haft mörg ár til að styrkja móttökukerfið okkar smátt og smátt. Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar ekki verið reiðubúin til að horfast í augu við stöðuna í heiminum og alltaf verið í eftiráreddingum. Móttakan er byggð upp á tímabundnum búsetuúrræðum og ástandið slæmt löngu áður en umsóknum fjölgaði svona mikið eins og núna og háar upphæðir greiddar fyrir skyndilausnir.
Við erum aðilar að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindarsáttmála Evrópu. Nú eru um 100 milljón manns á flótta og hafa aldrei verið fleiri. Fólk er að flýja stríð, harðræði, glæpi, spillingu og fátækt og allt bendir til að loftlagsflóttamönnum muni fjölga á næstu árum,“ skrifar hún jafnframt.
Oddný lýkur færslu sinni á því að spyrja hvort ekki sé hægt að vera sammála því að það þurfi að standa betur að þessum málum. „Ríkisstjórnin sem Ásmundur Friðriksson styður verður að gera betur og stjórnmálamenn þurfa að gæta orða sinna til að magna ekki upp óæskuleg viðbrögð í afar viðkvæmri stöðu á Suðurnesjum.“
Athugasemdir (4)