„Furðulegra og furðulegra,“ sagði Lísa í Undralandi eftir að hún féll ofan í kanínuholuna. Ekkert var sem sýndist. Atburðarásin virtist fylgja eigin lögmálum, alls óskyldum raunveruleikanum. Þau sem reyna að fylgjast með stefnumótun í sjávarútvegsmálum þessi misserin tengja eflaust við raunir Lísu. Það er engu líkara en að falla ofan í kanínuholu, en í stað landakorta, bollapara og bókaskápa má sjá þingsályktanir, fundahöld og frumvörp á ferð og flugi. Ferðalagið um Sjávarútvegsland er líkast furðulegum draumi þar sem vinnubrögð, stjórnsýslulegt klastur og óljós svör er nóg til að æra óstöðugan. Einhver kann að halda að ferðalag þetta sé skáldskapur, en þessi ferðasaga er dagsönn.
Matvælaráðherra sem Angóra-kötturinn: Brosir breitt, talar í gátum, og hverfur svo
Ferðalagið byrjar á samskiptum við stjórnarliða. Kosningar eftir kosningar koma fögur fyrirheit frá VG um að flokkurinn muni standa „vörð um hagsmuni minni sjávarbyggða, smábáta og minni útgerða og möguleika til nýliðunar sem aftur varðveiti fjölbreytni“ og að aflaheimildir í félagslega kerfinu „verði auknar í hóflegum áföngum með það sem endamarkmið að 8-10% veiðiheimilda verði til ráðstöfunar í slíkum tilgangi“. Þegar smábátasjómenn spyrja hvenær megi vænta að loforð þessi verði efnd er lítið um svör, þrátt fyrir að vinstri græn hafi hreppt ráðherrastólinn í einmitt þessum málaflokki. Loforð um að festa strandveiðar betur í sessi birtast á haustin og hverfa svo aftur með vorinu og aldrei má reikna með að fyrirkomulag vertíðar sé komið á hreint fyrr en korter í vertíðarbyrjun. Seinasta útspilið er frumvarp sem miðar að því að vinda ofan af lagabreytingum sem Landhelgisgæslan taldi mikið öryggismál fyrir smábátasjómenn. Það er engin furða miðað við hversu mikið er hringlað fram og til baka með strandveiðikerfið að trillukarlar og konur svari eins og Lísa þegar hún var spurð hver hún væri: „Ég veit það tæpast sjálf, herra minn, eins og sakir standa. Ég veit hver ég var, þegar ég fór á fætur í morgun, en ég held, að skipt hafi um mig mörgum sinnum síðan.“
Svandís Svavarsdóttir er Angóra-kötturinn í þessari sögu. Brosir, talar í gátum, og hverfur svo. Strandveiðifélagið hefur átt góða fundi bæði með ráðherra og ýmsum fulltrúum ráðuneytisins þar sem fullyrt er að Svandís sé ráðherra strandveiða. Eflaust vill hún strandveiðiflotanum vel. Svandísi til varnar, þá skal þess getið að hún er ekki búin að svíkja nein loforð þó hún hafi látið gullin tækifæri renna sér út greipum að efna þau. Nú biður hún okkur um að bíða eftir niðurstöðum frá nefndinni sem hún kom á legg fyrir um ári síðan.
„Ætlar þú að leika kroket við drottninguna í dag?“
„Mig dauðlangar til þess, en mér hefir ekki verið boðið ennþá,“ svaraði Lísa
„Við hittumst þar,“ sagði kötturinn og hvarf.
Auðlindin okkar sem vitfirrti hattarinn: „Ekkert sæti er laust, alls ekkert sæti“
Næsti viðkomustaður á ferðalaginu um Sjávarútvegsland er nefndin Auðlindin okkar sem minnir helst á kátbroslega kaffidrykkju hattarans vitfirrta. Nefnd þessi er með þeim furðulegustu í sögu íslenskrar stjórnsýslu enda er henni stýrt af fyrrverandi forstjóra HB Granda, nú Brim Seafood. Stórskrýtnar fullyrðingar sem eiga lítið sem ekkert skylt við raunveruleikann eru látnar flakka. Þau sem mæla gegn þeim tillögum sem ákveðnar höfðu verið áður en lagt var af stað í þessa vinnu hafa kvartað yfir því að sjónarhorn þeirra komi í besta falli óljóst og bjagað fram í bráðabirgðaskýrslunni. Nánast eins og þau séu þar til skrauts.
Fyrsta opinbera tilkynning nefndar sem skipuð var til að stuðla að sátt um sjávarútveg var að fullyrða að sá þáttur sem ósáttin snúi að hafi sannað gildi sitt og því sé engin ástæða til þess að vera ósáttur. Næsta verk var að tína til kjaftasögur um eina þátt sjávarútvegsins sem nokkur sátt er um – félagslega hluta þess, þ.m.t. strandveiðar – og leggja þær fram sem „gögn“ til þess að sverta hann. Smábátar, sem framleiða verðmætustu og eftirsóttustu sjávarafurðirnar, eru gagnrýndir varðandi meðferð á afla. Skerpa og endurskoða þarf markmið strandveiða en ekki kvótakerfisins. Grænustu og umhverfisvænustu veiðarnar eru teknar út fyrir sviga þegar rætt er um kolefnisspor á meðan að stórmengarar sleppa stikkfrí. Hvernig var komist að þessum niðurstöðum? Var það ef til vill vegna þess að nefndin talaði eingöngu við þrjá fulltrúa smábátaeigenda á meðan talsmenn kvótakónganna skiptu tugum?
Starfshóparnir segjast leggja áherslu „á opna, þverfaglega og gagnsæja nálgun“ en þegar Strandveiðifélagið bað um útskýringar á vinnulagi nefndarinnar kom ærandi þögn sem varði í hálfa aðra viku. „„Ekkert sæti er laust, alls ekkert sæti,“ hrópuðu þeir, strax og þeir sáu Lísu. „Það eru nóg sæti,“ sagði Lísa móðguð og settist í stóran hægindastól við enda borðsins.“ Loks fengum við boð um fund, þar sem Strandveiðifélagið bað um útlistun á hvernig nefndin hafi nálgast viðfangsefni sitt. Ekki gátu þau gefið afdráttarlaust svar við því hver markmið vinnunnar eru og ekki vildu þau svara hvaða aðferðafræðilegu nálgun var stuðst við til þess að safna gögnum, greina gögn, og draga ályktanir út frá þeim. Eina svarið var að aðferðafræði væri fræðigrein og af þeim sökum væri ekki hægt að styðjast við hana. Aðferðirnar liggi þó ljósar fyrir og það væri nóg. „„Hvað þér viðvíkur, þá er það eitt og hið sama,“ sagði hattarinn, og þar með féll samtalið niður um stund.“ Eins er vonlaust að leita að vísbendingum á heimasíðu nefndarinnar. Fundargerðir eru tómar og ekkert kemur fram á þeim fáu fundum sem opnir eru almenningi sem réttlætir slagsíðuna kvótakerfinu í hag.
Gagnsæið er ekkert, enda er engu líkara en að löngu hafi verið búið að ákveða niðurstöðuna áður en lagt var af stað í verkefnið. Til þess að afvegaleiða umræðuna hefur leikrit verið sett á svið, leikrit sem er orðið svo súrrealískt að Salvador Dalí hefði orðið öfundsjúkur. Í þessari hugvíkkandi veröld stjórnsýslunnar snýr upp niður, svart er hvítt, rétt er rangt, gagnsæi er drullumall, sanngirni er frekja, sameign þjóðarinnar er einkaeign útvaldra. Það er ógjörningur að átta sig á rökfræði stjórnsýslunnar, enda treystir sér enginn til þess að svara fyrir hana.
Manni dettur helst í hug að þetta sé einmitt ásetningurinn: að rugla svo mikið í ferlinu að þátttakendur fari að efast um eigin vitsmuni. „Þetta er alveg rétt,“ hefði hertogafrúin eflaust svarað. „Og af því má læra: „Vertu það, sem þú virðist vera“ eða greinilegar orðað: „Ímyndaðu þér aldrei, að þú sért öðruvísi en öðrum mundi virðast að þú værir, eða hefðir getað verið, öðruvísi en það sem þeim mundi hafa virzt vera öðruvísi“.“
SFS/LÍÚ sem Hjartadrottningin: „Hálshöggvið hana! Hálshöggvið — “
Að leiðarlokum hittum við fyrir hana sem í raun ræður ríkjum í Sjávarútvegslandi, Hjartadrottninguna sjálfa, sem spilar kroket með sjávarpláss og æðir um leikvöllinn og hrópar í sífellu: „Hálshöggvið hann“ eða „hálshöggvið hana!“ Allir sem verða á vegi hennar eiga á hættu að missa höfuðið. Margverðlaunaður fréttamaður sem afhjúpaði spillingu og skattasniðgöngu lenti í skæruliðadeild hennar og þurfti að fara í veikindaleyfi í kjölfar þess. Blaðamenn og ritstjórar voru kallaðir inn til yfirheyrslu hjá lögreglu með réttarstöðu sakborninga, þvert á mannréttindasáttmála Evrópu, vegna stuldar á síma starfsmanns Hjartadrottingarinnar. Bókaútgefanda var hótað málsókn fyrir það eitt að gefa út bók. Heil starfsstétt er úthrópuð sem hættulegir frekjuhundar þegar hún stendur fast á mannréttindum sínum.
Hjartadrottningin er ólík öðrum íbúum Sjávarútvegslands að því leyti að hún skeytir engu um rökleysu og öfugmæli. Hennar ær og kýr eru alræði og aftökur. Hún vill að allir íbúar Sjávarútvegslands lúti hennar vilja og svífst einskis til þess að fá vilja sínum framgengt. En svo fór að lokum að Lísa svaraði Hjartadrottningunni fullum hálsi.
„Þegiðu,“ hrópaði drottningin, eldrauð af reiði.
„Nei, ég þegi ekki,“ sagði Lísa.
„Hálshöggvið hana,“ öskraði drottningin, froðufellandi af bræði, en enginn hreyfði hönd né fót.
Lísa var nú orðin fjarska stór og sagði: „Hvaða mark er á ykkur takandi? Þið eruð bara spil!“
Höfundur er formaður Strandveiðifélags Íslands.
Athugasemdir (1)