Í Laugardalnum býr karl, kannski er hann menntaður lögfræðingur, með blágrá augu, tveggja barna faðir, hann elskar nýju plötuna hans Friðriks Dórs og er flinkur bak við grillið. Enda þótt lífið brosi við honum glímir hann við angist sem hann orðar aldrei við neinn.
Hann fer í vinnuna, heilsar kollegunum, fær sér kaffi, sest við skrifborðið og upplifir leyndar kvalir: Það sem hann gerir lungann úr deginum er hreinasta bull. Honum finnst verkefnin vera óþarfi og eftir átta tíma streð er heimurinn hvorki betri né verri. Í stóra samhenginu grunar hann að hann sé gagnslaus.
„Þau trúa því að heimurinn sé verri eftir vinnudaginn“
Upplifun þessa ímyndaða karls er kannski algengari en við höldum. Snemma á síðustu öld spáði fólk því af fúlustu alvöru að árið 2023 yrði vinnuvikan fimmtán klukkustundir. Þessa dagana hamast ég við að hjóla í og úr vinnu með ögrandi kenningu í eyrunum: Vinnuvikan er í raun fimmtán gagnlegar klukkustundir – við lengjum hana með bulli.
David Graeber heitir bandaríski mannfræðingurinn sem varpar þessu fram. Hugmyndin byrjaði sem grein í tímariti en varð síðar að bók og safni vitnisburða sem hann nefnir Bullshit Jobs.
Þar lýsir fólk þessum kvölum. Sum eru sannfærð um að þau tilheyri stétt sem gæti horfið á morgun án þess að nokkur lyfti brúnum. Reynslan sýnir að slíkt hrjáir hvorki skúringakonur né olíubílstjóra. Annar hópur hangir á Facebook tímunum saman en þykist vera ómissandi.
Enn annar hópur hefur það verst af öllum. Þau stimpla sig inn og gera samfélaginu bjarnargreiða. Þau trúa því að heimurinn sé verri eftir vinnudaginn. Það er ofbeldi gegn mannsandanum að neyðast til að gera ógagn, skrifar höfundur bókarinnar.
Ég vona að þessi karl, sem við ímyndum okkur að vinni í Borgartúni, sé hamingjusamur, að hann upplifi vinnudaginn ekki sem afplánun, að honum finnist á sig hlustað. Það breytir því ekki að í draumaheimi gæti hann verið heima hjá sér, ekki í bullinu.
Athugasemdir (1)