Ragnar Þór Ingólfsson var endurkjörinn formaður VR í allsherjaratkvæðagreiðslu til formanns og stjórnar hjá VR sem lauk í dag. Ragnar Þór hlaut 6.842 atkvæði eða 57,03 prósent greiddra atkvæða. Elva Hrönn Hjartardóttir hlaut 4.732 atkvæði eða 39,44 prósent atkvæða.
VR er stærsta stéttarfélag landsins og voru ríflega 40 þúsund félagar með atkvæðisrétt í formannskjörinu. Auk formanns var kosið í stjórn VR þar sem 16 voru í framboði. Sjö sitja í stjórninni auk þriggja varamanna.
Halla Gunnarsdóttir, Sigurður Sigfússon, Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir, Ólafur Reimar Gunnarsson, Jennifer Schröder, Þórir Hilmarsson og Vala Ólöf Kristinsdóttir voru kjörin í stjórn VR til tveggja ára samkvæmt fléttulista eins og kveðið er á um í lögum VR. Þá voru þrír varamenn kjörnir í stjórn VR til eins árs, þau Ævar Þór Magnússon, Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir og Gabriel Benjamin.

Formannskjörið hófst á miðvikudaginn í síðustu viku og lauk á hádegi í dag. 11.996 félagar greiddu atkvæði í rafrænum kosningum. Kosningaþátttaka var því 30,6 prósent og hefur aldrei verið meiri. Í síðustu formannskosningum árið 2021 var kosningaþátttaka 28 prósent, þegar Ragnar Þór hafði betur gegn Helgu Guðrúnu Jónasdóttur.
Elva Hrönn Hjartardóttir, sérfræðingur á þróunarsviði VR, var eini mótframbjóðandi Ragnars Þórs. Í framboðstilkynningu sinni sagði Elva að hún væri að bjóða sig fram vegna óánægju með þá vegferð sem verkalýðshreyfingin er á.
Verkalýðshreyfingin þarf að mæta sameinuð til leiks í kjaraviðræður
Helstu áherslur Ragnars Þórs í formannskjörinu að þessu sinni voru að fylgja eftir kröfugerð VR í yfirstandandi kjarasamningum þar sem helstu áherslur eru fjögurra daga vinnuvika (32 stundir), útvíkkun á veikindarétti, 30 daga orlof, atvinnulýðræði og auknar kjarabætur til millitekjuhópa.
Ragnar Þór spurði í aðsendri grein í Heimildinni í síðustu viku hvort hægt sé að ná sátt innan verkalýðshreyfingarinnar og um hvað sáttin eigi að snúast?
„Ein leiðin sem einhverjir hafa kastað fram, til að ná sáttum, er að losna við fólkið sem lætur í sér heyra. Það er jú ein leiðin og sjónarmið útaf fyrir sig. En er það lausn? Finnur ósættið sér ekki alltaf farveg á endanum? Liggur þá lausnin í kurteisislegu samtali aðila á milli við sameiginlegt háborð Þjóðhagsráðs? Eða er þetta eitthvað vandamál yfir höfuð?“ spurði Ragnar.
Hann segir að verkalýðshreyfingin muni mæta sameinuð til leiks í yfirstandandi kjaraviðræðum. Hún þurfi einfaldlega að gera það.
Athugasemdir