Ágrip
Nýleg ásókn erlendra sementsframleiðenda í jarðefni frá Íslandi hefur leitt til umræðna um gagnsemi þessara efna og verðmæti. Þau jarðefni sem hér er um að ræða falla undir samheitið gosefni, en það eru efni, sem verða til við eldgos. Um miðja síðustu öld var farið að rannsaka gosefni á íslandi og 1974 skipaði Iðnaðarráðuneytið nefnd, Gosefnanefnd, til þess að kanna möguleika á vinnslu og nýtingu þessara efna. Þau eru af margs konar tagi svo sem vikur, eldfjallagjall, steintrefjar (steinull) og basalttrefjar. Meðal þeirra er eitt sérstakt gosefni, sem nefnt er perlusteinn (eftir enska heitinu perlite).
Perlusteinn kemur fyrir sem jarðefni í náttúrunni og hefur þann óvenjulega eiginleika að þenjast mikið út við nægilega upphitun. Árið 1947 fannst perlusteinn í Loðmundarfirði og tveim árum síðar í Prestahnjúk, sem er líparítfjall ofan Hvalfjarðar. Athuganir á perlusteinsvinnslu þar hefjast 1954. Áframhaldandi rannsóknir leiddu af sér samstarf og styrki frá iðnþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNIDO (United Nations Industrial Development Organization), og komu sérfræðingar á vegum stofnunarinnar hingað til lands næstu árin til að aðstoða við rannsóknirnar.
Árið 1972 lagði Sementsverksmiðja ríkisins (SR) á Akranesi til, að verksmiðjan gæti leikið stórt hlutverk í perlusteinsverkefninu, þar sem verksmiðjan hefði yfir að ráða vélbúnaði og mannskap hliðstæðan perlusteinsvinnslunni.Var SR falið það verkefni. Þá hafði danska sementsfyrirtækið Aalborg Portland Cement (APC) sýnt áhuga á verkefninu og samstarfi og var gerður samningur um það við Gosefnanefnd Iðnaðarráðuneytisins (GI).
Árið 1975 kemur jarðfræðiskýrsla frá GI, þar sem fram kemur að Prestahnjúkur er líparítgúll, sem sennilega er orðinn til við gos undir jökli á síðasta jökulskeiði ísaldar. Hann er gerður úr ýmsum afbrigðum af súru bergi. Í fjallinu eru sex aðskilin perlusteinssvæði og leiddi rannsókn í ljós, að í þeim eru a.m.k. 18 miljónir m3 af þenjanlegum perlusteini. Árið 1976 er SR falinn rekstur og sala perlusteins á innlendum markaði svo og fyrirhugaður rekstur og stórvinnsla til útflutnings. Athuganir á útflutningi á möluðum perlusteini til notkunar í öðrum löndum voru þó ekki taldar vænlegar vegna fjarlægðar Prestahnjúks frá næstu höfn. Stærsti útflutningsaðii í Evrópu á perlusteini var þá gríska eyjan Milos, þar sem námurnar eru nærri ströndinni.
„Á árunum 1976–1979 fóru fram viðamiklar rannsóknir á þenslueiginleikum perlusteinsins í tilraunaofni sem reistur var í SR. Jafnframt voru gerðar kannanir á flutningi efnisins frá Prestahnjúk til strandar. Gáfu þenslutilraunirnar góðar niðurstöður, en kostnaður við flutning til strandar síður. Norska sementsfyrirtækið Norcem sýndi á þessum árum áhuga á samstarfi um útflutning á óþöndum perlusteini til Bandaríkjanna , en taldi það að lokum of áhættusamt. Þegar þarna er komið sögu lýkur afskiptum SR af rannsóknum og athugunum á vinnslu og útflutningi perlusteins úr Prestahnjúk.
Síðan líða 30 ár. Þá tekur Gylfi Guðmundsson viðskiptafræðingur þetta mál upp sem verkefni til meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum við háskólann á Bifröst árið 2010. Nefndi hann það „Jarðefni á Íslandi, útflutningur og vinnsla á perlusteini.“. Markmiðið með verkefni Gylfa var að kanna hvort það mikið hefði breyst á þessum 30 árum, að tilefni væri til að skoða aftur möguleikana á vinnslu perlusteins í Prestahnjúk og útflutningi hans. Niðurstaða Gylfa er sú, að full ástæða sé til að halda rannsóknum áfram.
Hvað er perlusteinn?
Perlusteinn er ókristallað glerkennt gosefni með tiltölulega hátt vatnsinnihald. Perlusteinn kemur fyrir sem jarðefni í náttúrunni og hefur þann óvenjulega eiginleika að þenjast mikið út við nægilega upphitun. Hann er notaður til iðnaðar, þar sem nýtt er lág rúmþyngd hans eftir þenslu. Þegar perlusteinn er hitaður upp í 850-900 °C verður hann mjúkur (rétt undir bræðslumarki hans). Vatn sem er innilokað í efninu þenst út og rýkur úr því. Þetta veldur því að perlusteinninn þenst út 7 til 16 falt miðað við upprunalegt rúmtak.
Þaninn perlusteinn er mjallahvítur. Rúmþyngd óþanins perlusteins er um 1.100 kg/m3 , en rúmþyngd þanins perlusteins getur legið milli 30 og 150 kg/m3.
Perlusteinn er notaður til margs konar hluta. Því veldur léttleiki hans og lágt verð. Í byggingariðnaði er hann notaður í léttmúr og sem eldfast einangrunarefni. Þá er hann notaður í garðyrkju og sem sértækt síuefni í iðnaði. Í garðyrkju má nota perlusteininn sem jarðvegsbæti. Þá er perlusteinn mjög gott síuefni, gjarnan notaður í drykkjariðnaði . Minna magn af perlusteini er notað í málmsteypur og sem einangrun í kælitækni. Þá er hann notaður sem fylliefni í léttmúr (eldfastan) og í keramik, sem bætiefni í leirinn.
Upphaf perlusteinsrannsókna á Íslandi
Athuganir á perlusteini hér á landi hefjast 1947 og sumarið 1948 finnst perlusteinn í Loðmundarfirði. Árið 1949 finnst perlusteinn í Prestahnjúk, líparítfjalli ofan Hvalfjarðar. Um tilkomu nafnsins Prestahnjúks hefur eftirfarandi verið ritað: „Prestahnjúkur (1225 m) er áberandi líparítfjall suðvestan hábungu Geitlandsjökuls. Hann er ljós efst en neðar stálgrár og grænblár. Líklegast hefur hann myndast við gos undir jökli. Nafnið er ungt og lengi vel haldið, að það væri dregið af fyrstu göngu á fjallið, en þar voru á ferð prestarnir Helgi Grímsson á Húsafelli og Björn Stefánsson á Snæfoksstöðum. Þeir fóru fyrst í Þórisdal, en ólíklegt talið að þeir hafi líka gengið á hnjúkinn.
Athuganir á perlusteinsvinnslu í Prestahnjúk hefjast svo 1954. Kom þar í ljós mjög mikið magn af perlusteini. Á næstu árum var reynt að áætla magn nýtanlegs perlusteins í fjallinu og 1958 var talið að um eina miljón tonna væri að ræða.
Auknar rannsóknir í samstarfi við erlenda sérfræðinga
Árið 1969 skipaði iðnaðarráðherra nefnd (Perlítnefndin) til að annast undirbúning hugsanlegrar vinnslu á perlusteini hér á landi. Var fyrst gerð umfangsmikil rannsókn á perlusteininum í Loðmundarfirði sumarið 1969 og voru niðurstöður neikvæðar.
Rannsóknir í Prestahnjúk fóru fram 1971 með borunum og jarðýtuvinnu undir forystu bandaríska fyrirtækisins John Manville. Rannsóknaskýrsla fyrir nefndina, gerð af Þórólfi Hafstað frá Orkustofnun, kemur út 1971. Þar kemur fram að tilgangur rannsóknanna var að afla nægra upplýsinga svo dæma mætti, hvort hagkvæmt væri að hefja perlusteinsvinnslu í Prestahnjúk.
Önnur skýrsla kom frá John Manville 1972. Fjallaði hún um magn og gæði hráperlusteinsins, þensluprófanir, markaðsrannsókn, einnig kostnað við námugröft í Prestahnjúk svo og við uppsetningu mölunarverksmiðju. Magn í hnjúknum áætlaði hann allt að 10 miljón tonn, sem stæði undir vinnslu í langan tíma. Annars fjallar skýrslan mest um þenslueiginleika perlusteinsins í samanburði við perlusteininn frá grísku eyjunni Milos, sem er mjög þekktur og hefur góða eiginleika.
Sumarið 1971 dvaldi sérfræðingur á vegum Iðnþróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNIDO (United Nations Industrial Development Organization), hér á landi. Skyldi hann yfirfara skýrslur um perlustein,vikur og önnur gosefni og meta hagkvæmni þess að hefja vinnslu perlusteins í Prestahnjúk
Að tilhlutan Iðnaðarráðuneytisins var auk þess skipaður sérfræðingahópur í maí 1972 og fór hann í kynnisferð til Evrópu í júní-júlí 1972. Heimsótti hann framleiðendur á þöndum perlusteini í Austurríki, Ungverjalandi, Rússlandi og Tékkóslóvakíu. Kynntu þeir sér vinnsluaðferðir við hráperlustein og þenslu hans í fyrirtækjum, sem þeir heimsóttu í þessum löndum. Best leist hópnum á perlusteinsvinnsluna í Ungverjalandi ( Pálháza ). Þar fór svo fram tilraunaþensla á sýnum úr Prestahnjúk sem Ungverjunum leist vel á og náðu þau góðri rúmvigt (45-105 g/l).
Sementsverksmiðja Ríkisins verður miðstöð perlusteinsrannsókna
Í ársbyrjun 1972 tók undirritaður við starfi sem tæknilegur framkvæmdastjóri Sementsverksmiðju ríkisins (SR). Lagði ég til að SR tæki að sér stórt hlutverk í perlusteinsverkefninu, enda félli það vel að verksviði verksmiðjunnar, sem að mörgu leyti var hliðstætt perlusteinsvinnslunni. Má þar nefna líparítvinnsluna í Hvalfirði, rekstur stórra mölunarkvarna og brennsluofns. Perlusteinn er líka mikið notaður í byggingaiðnaði, oft bundinn með sementi, og svo var Sementsverksmiðjan í hæfilegri fjarlægð frá Prestahnjúk.
Þannig gat perlusteinsvinnslan fallið ágætlega að starfsemi verksmiðjunnar, sem var vel búin tækjum til efnavinnslu, bjó að þjálfuðu starfsfólki og hafði afgangsvarma til ráðstöfunar. Tók ég sæti í sérfræðingahópnum, sem nú hafði fengið nafnið Gosefnaiðjunefnd, sem fulltrúi SR.
Ungverjar til liðs við íslenskar perlusteinsrannsóknir
Um áramótin 1972/1973 var tekið í notkun rannsóknartæki til þenslu á perlusteini og því komið fyrir hjá Rannsóknastofnun iðnaðarins. Snemma árs 1973 kemur svo sérfræðingur UNIDO, dr. Janos E. Ujhelyi, til Íslands, til að vera Iðnaðarráðuneytinu til ráðgjafar um nýtingu gosefna hér á landi. Dr. Ujhelyi vann hjá Byggingavísindastofnun Ungverjalands (IBS) í Búdapest. Hann dvaldi hér fyrst í febrúar-mars 1973 og síðar í júlí-ágúst sama ár. Dr. Ujhelyi var fyrstur af nokkrum unverskum sérfræðingum, sem voru Íslendingum til ráðgjafar í þessum málum á vegum UNIDO.
Í október og nóvember 1973 var Aðalsteinn Jónsson efnaverkfræðingur á vegum UNIDO í Ungverjalandi. Ferðaðist hann um landið og kynnti sér þenslutækni og þensluaðferðir . Var honum sýndur þar tilraunaþensluofn, en ungversku sérfræðingarnir ráðlögðu kaup á svipuðum ofni til Íslands. Þessi ofn var þriggja metra langur og 25 cm. í þvermál, hallandi um 60° frá láréttu. Gasbrennari blæs lofti og eldi inn í neðri enda rörsins en hráperlusteinninn mataður í ofninn ofan frá.
Þenslan í ofnrörinu er tvenns konar: Í efri hlutanum fer fram það sem nefna má mótstraumsþensla en í neðri hlutanum meðstraumsþensla. Mót
straumsþenslan fer fram, þegar perlusteinskornin falla niður ofnrörið móti loftstraumnum þangað til að þau hafa þanist nægilega mikið til að berast með loftstraumnum upp á við. Afgangurinn fer lengra niður og heldur þá áfram að þenjast (meðstraumsþensla), þar til loftstraumurinn ber þau einnig upp á við. Kornin sem ekki þenjast falla niður úr ofninum. Fullþaninn perlusteinninn berst með loftstraumnum upp úr ofnrörinu og fer síðan í gegn um 5-6 metra langa leiðslu yfir í hverfisíu (cyclone) sem fangar hann.
Ný nefnd, fleiri gosefni og aukið samstarf við Ungverja
Um áramótin 1973/1974 urðu aftur breytingar af hálfu iðnaðarráðuneytisins varðandi rannsóknir á perlusteini úr Prestahnjúk, þegar iðnaðarráðherra lagði Gosefnaiðjunefnd niður og skipaði nýja nefnd, Gosefnanefnd (GI), í hennar stað. Hlutverk hennar var að vinna áfram að verkefnum fyrri nefndar, en kanna að auki möguleika á vinnslu og nýtingu fleiri gosefna. Var þar rætt auk perlusteins um vikur, eldfjallagjall, steintrefjar (steinull) og basalttrefjar.
Formaður GI var Hörður Jónsson og hafði nefndin aðsetur á vinnustað hans hjá Iðnþróunarstofnun Íslands. Frá Ungverjalandi kom svo sérfræðingur, Gáspár Tahy, sem áður hafði aðstoðað við undirbúning rannsóknanna á þenslugetu perlusteinsins. Skömmu síðar kom fyrsta skýrslan um væntanlegar rannsóknir hjá SR. Var þar gert ráð fyrir tilraunaofni með þenslugetu um 1 m3 á klst. Einnig öðrum tækjabúnaði fyrir hráperlustein (mölunartækjum, tækjum til sigtunar o.fl.).
Í framhaldinu gerði GI verksamning við SR, sem leigði til viðbótar annan nauðsynlegan búnað til verksins. Var Gáspár Tahy fenginn til að aðstoða við uppsetningu tilraunaverksmiðju hjá SR og í áframhaldinu gera tillögur um nýtingu þanins perlusteins úr Prestahnjúk. Fleiri ungverskir sérfræðingar á vegum UNIDO komu að þessu verkefni. Í framhaldi af því bað ríkistjórn Íslands UNIDO um aðstoð og var samningur undirritaður milli UNIDO og IBS snemma árs 1974.
Samstarf við Dani og rannsókn á Prestahnjúk
Vegna mikils samstarfs SR við F.L.Smith í Kaupmannahöfn, sem hannaði og byggði SR á sínum tíma, kom í ljós að það fyrirtæki og einnig danska sementsverksmiðjan Aalborg Portland Cement (APC) höfðu áhuga á nýtingu perlusteins. Var sýni af perlusteininum því sent til Danmerkur til rannsókna árið 1973. Niðurstaða þeirra rannsókna varð sú að F.L.Smith og APC lýstu yfir áhuga á samstarfi. Var undirrituð viljayfirlýsing milli APC og GI um samstarf um vinnslu perlusteins. Síðla árs 1974 eru svo fulltrúar Gosefnanefndar á ferð í Ungverjalandi til að kynna sér nýtingu Ungverja af þöndum perlusteini og var þá, meðal annars, komið við á námusvæðinu í Pálháza.
Í byrjun árs 1975 lýkur Gylfi Þór Einarsson jarðfræðingur BS ritgerð sinni um jarðfræði Prestahnjúks, þar sem fram kemur m.a.í ágripi: „Prestahnjúkur á Kaldadal er líparítgúll, sem sennilega er orðinn til við gos undir jökli á síðasta jökulskeiði ísaldar. Hann er gerður úr ýmsum afbrigðum af súru bergi. Í fjallinu eru sex aðskilin perlusteinssvæði og leiddi rannsóknin í ljós, að á þeim eru a.m.k. 18 milljónir m3 af þenjanlegum perlusteini.“
Tilraunaverksmiðja rís og markaður kannaður
1975 var svo tilraunaverksmiðja með þensluofni með 1m3 afkastagetu og öðrum tækjabúnaði til meðhöndlunar og þenslu hráperlusteins sett upp í SR. Sumarið 1976 kemur svo skýrsla Gylfa um framvindu reksturs tilraunaverksmiðjunnar, sem þá hafði verið starfrækt í 9 mánuði. Höfðu á þeim tíma verið gerðar prófanir og endurbætur á tækjum ásamt efnisprófunum og framleiðslu fyrir innlenda og erlenda markaðskönnun, en í mars 1976 var byrjað að framleiða verulegt magn af þöndum perlusteini í SR fyrir þær kannanir.
Fyrst var athugað með perlustein sem jarðvegsbæti (garðaperla) og einnig í pússningu í stað kalks (léttperla). Þá voru gerðar tilraunir með notkun perlusteins sem lausa einangrun á steypt loft. Voru loft dvalarheimilisins Höfða á Akranesi til dæmis einangruð með þeim hætti að hluta.
Þegar rætt var um framtíð perlusteinsnáms úr Prestahnjúk til útflutnings var oftast rætt um verksmiðju, sem þurrkaði og malaði perlusteininn í réttar kornastærðir. Var þá gjarnan litið til iðnaðarsvæðisins á Grundartanga sem staðsetningu, en þar var þá að rísa höfn vegna Íslensku járnblendiverksmiðjunnar.
Flutningur perlusteinsins úr Prestahnjúk til strandar var stærsti kostnaðarliðurinn við meðhöndlun hans til útflutnings. Var gert ráð fyrir bílaflutningi stystu leið frá Prestahnjúki yfir á Kaldadalsveg, sem síðan var farið eftir suður að Uxahryggjavegi og þaðan yfir á Botnsheiði. Síðan nálægt Draghálsvegi niður á Hvalfjarðarveg til Grundartanga alls 78,5 km. Miðað var við að árlegur útflutningur yrði um 100.000 tonn af óþöndum perlusteini.
Stefnan sett á framleiðslu fyrir innanlandsmarkað og útflutning í stórum stíl
Undir lok 1976 ályktar stjórn SR að framleiðsla og sala perlusteins á innlendum markaði og fyrirhugaður rekstur stórvinnslu til útflutnings og sala perlusteins á erlendum markaði skuli falin Sementsverksmiðju ríkisins, enda verði fjármagn til slíks reksturs tryggt áður en framkvæmdir hefjast. Ályktunin byggðist á jákvæðum niðurstöðum rannsókna í tilraunaverksmiðjunni hjá SR. Var ályktunin send Iðnaðarráðuneytinu.
Í greinargerð með tilkynningu til ráðuneytisins kemur fram, að tilraunaverksmiðjan sé í húsakynnum SR og framleiðslugeta hennar fyrir hráperlustein það mikil, að hún geti annað þörfinni innanlands. Þá hafi hagkvæmniathugun á mögulegri stórvinnslu perlusteins til útflutnings í 100.000 tonna verksmiðju sem gert var ráð fyrir að byggð yrði á Grundartanga gefið jákvæða niðurstöðu. Stjórn SR fól svo framkvæmdastjórum verksmiðjunnar að halda áfram með athuganir á nýtingu perlusteinsins. Framkvæmdastjóri viðskiptasviðs SR, Svavar Pálsson, tókst þá á hendur ferð til Grikklands.
Samkeppnisstaða Íslands ekki beysin en rannsóknir halda áfram
Í gegn um sambönd sín í Grikklandi fékk Svavar leyfi til að skoða framleiðslustöðvar stórfyrirtækisins Silver & Baryte Ores Mining Co á eyjunni Milos. Taldi hann að ferð lokinni að námu-, vinnslu- og dreifingaraðstæður á Milos væru það góðar að lítil von væri um raunverulega samkeppnishæfni íslensks perlusteins á alþjóðamarkaði.
Rannsóknir héldu engu að síður áfram og haustið 1977 fór fram athugun á hugmyndinni um að flytja perlustein í pípu með vatni til strandar. Mat á þeirri hugmynd leiddi í ljós að sú flutningsaðferð yrði að líkindum töluvert kostnaðarsamari en flutningur með bílum.
Sama haust 1977 var farið að huga að stofnun innlendra fyrirtækja með það að markmiði að stunda námuvinnslu, þenslu og vöruþróun á perlusteini úr Prestahnjúk. Má þar til nefna námufélagið Prestahnjúk hf. og Perlu hf., framleiðslu- og sölufyrirtæki á íslenskum markaði.
Árið 1978 kom svo skýrsla Iðnþróunarstofnunar um hráperlustein, þróunarstig og framtíðarmöguleika, þar sem farið er gróflega yfir sögu perlusteinsrannsóknanna. Fram kemur að ekki er ljóst hversu mikið nýtanlegt magn af perlusteini er fyrir hendi. Þó megi reikna með miljónum tonna, en heimsmarkaðurinn var þá um 2 miljónir tonna árlega. Tæknilega séð hafi rannsóknir á íslenska perlusteininum sýnt að gæði hans væru sambærileg við það sem í boði var á markaðnum.
Lýst er stöðunni í vinnslutilraunum á íslenska perlusteininum, en SR hafði á þessum tíma starfrækt tilraunavinnslu sína í ríflega hálft annað ár. Aðstæður þar voru að mörgu leyti óhagstæðar; þurrkunin fór fram í of stórum og óhentugum ofni, geymapláss var lítið og öll aðstaða óhentug fyrir meiriháttar framleiðslu. Því var talið rétt að færa frekari vinnslu af tilraunastiginu og í hendur alvöru vinnsluaðila.
Árið 1978 er athugunum á flutningi perlusteins í pípum með vatni fram haldið. Er þá Chalmers-tækniháskólinn í Svíþjóð fenginn til þess að kanna betur flutningsgetu perlusteinsins í vatnsleiðslu. Í framhaldi af því er haft samband við franska fyrirtækið Spie – Batignolles, sem er sérhæft í flutningi fastra efna með vatni. Hugmyndir fyrirtækisins um kostnað þóttu ekki nægilega hagstæðar og var sambandinu við það slitið.
Bakslag
Þegar fram kom á árið 1979 fór að draga úr kraftinum í perlusteinsverkefni GI. Olíukreppan sem hófst um 1970 hafði valdið erfiðleikum í byggingariðnaði og hækkaði kostnaður sementsverksmiðjanna í takt við miklar verðhækkanir á olíu. Sementsiðnaðurinn var því upptekinn við það langt fram eftir áttunda áratugnum að breyta olíukyndingu sementsofnanna yfir í kolakyndingu. Þetta átti einnig við um SR, sem hóf kolakyndingu 1982.
Hið danska APC dró sig smám saman út úr perlusteinsverkefninu, þar sem stjórnendum þess þótti það of áhættusamt. Einn starfsmaður APC sem tók þátt í verkefninu, Niels Knudsen, greip þá tækifærið, stofnaði fyrirtækið Nordisk Perlit og kom upp eigin þenslustöð í Hilleröd á Sjálandi. Hráperlusteininn sótti hann til hins vegar ekki hingað heldur til grísku eyjunnar Milos.
Í Noregi var þensluverksmiðja fyrir perlustein í Gullhaug við Drammen í eigu norsku sementsverksmiðjanna, Norcem, á þessum tíma. Norcem hafði allan tímann sem athuganir Gosefnanefndar á perlusteininum fóru fram fylgst með og sýnt áhuga að fá íslenskan perlustein, ef af útflutningi yrði. Þegar kom fram á árið 1979 kom fram að þeir hefðu áhuga á að koma upp perlusteinsþenslu á austurströnd Bandaríkjanna en þangað seldu þeir 500–800 þúsund tonn af sementi á ári. Jafnframt létu þeir í ljós áhuga á þeim útflutningshugmyndum frá Íslandi sem uppi voru.
Þáverandi forstjóri Norcem, Gerhard Heiberg, sýndi þessum hugmyndum mikinn áhuga og kom til Íslands í september 1979. Fór hann upp að Prestahnjúk og skoðaði aðstæður. Á endanum fór þó svo að Norcem þótti útflutningurinn frá Íslandi of áhættusamur. Þeir þurftu að taka ákvörðun um langtímasamning við Silver and Baryte á hinni grísku Milos, svo að þeir hættu við öll áform um vinnslu og útflutning perlusteins frá Íslandi til Bandaríkjanna. Þensluverksmiðja Norcem við Drammen mun einnig hafa verið lögð niður síðar.
SR hættir rannsóknum en nýrra er þörf
Þegar þarna er komið sögu lýkur afskiptum SR af rannsóknum og athugunum á vinnslu og útflutningi perlusteins úr Prestahnjúk. Síðan líða 30 ár. Þá tekur Gylfi Guðmundsson þetta mál sem verkefni til meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum við háskólann á Bifröst árið 2010. Nefndi hann það „Jarðefni á Íslandi, útflutningur og vinnsla á perlusteini“.
Markmiðið með verkefni Gylfa var að kanna hvort það mikið hefði breyst á þessum 30 árum til þess að tilefni væri til að skoða aftur möguleikana á vinnslu perlusteins í Prestahnjúk og útflutningi á honum. Niðurstaða hans var í stuttu máli sú að verkefnið bæri að endurskoða nánar. Gæðin væru til staðar, en betri hreinsun en beitt var við fyrri tilraun væri væri æskileg.
Aðferðin sem Gylfi notaði við þessa greiningu var virðiskeðja Porters. Hann gerði sér ferð til þeirra aðila í Ungverjalandi, Danmörku og Bandaríkjunum sem komið höfðu að tilraununum hjá SR og ræddi einnig við þá aðila, sem unnu að verkefni SR og GI.
Niðurstaða heimsóknanna var sú að perlusteinninn væri enn eftirsótt vara með hagstæða eiginleika og ætti því að vera áfram til skoðunar hér á landi. Aðalvandamálið, nú sem fyrr, væri þó óheppileg staðsetning Prestahnjúks og þar af leiðandi hár flutningskostnaður til strandar.
Höfundur er fyrrverandi tæknilegur framkvæmdastjóri Sementsverksmiðju ríkisins.
Athugasemdir