Á rúmlega átta ára búsetu í Stokkhólmi skammaði fullorðið fólk mig oftar en ég hafði verið skammaður hin 35 árin í lífi mínu.
Í Svíþjóð er samfélagslega viðurkennt að fólk skammi aðra fullorðna. Það er segja ef þeir brjóta reglur. Þar gildir línan úr laginu góða: ,,Þetta fullorðna fólk er svo skrítið, það er alltaf að skamma mann."
Almennt séð eru Svíar reglufastari og nákvæmari en Íslendingar. Einhver myndi nota orðið ferkantaður, stífur, jafnvel anal eða þá bara hreinlega leiðinlegur. Svíarnir eru hlynntari því að reglubinda samskipti og hátterni fólks. Bæði með skráðum og óskráðum reglum. Það má kalla þetta etikett: Reglurnar og viðmiðin um það hvernig fólk á að hegða sér í ákveðnum aðstæðum.
Ekkert á að vera óvænt, ekkert á að vera spontant. Í aðstæðum X gilda reglur A og B; í aðstæðum Y gilda reglur P og Q; í aðstæðum Þ gilda reglur D og V. Fólk á að geta gengið inn í hvaða aðstæður sem er og vitað hvernig það á að vera og hvað það á og má segja. Út frá reglunum sem eiga við um þessar aðstæður.
Svíar eru alltaf að spyrja sig: Hvernig ég að hegða mér og hvað á ég að gera.
Reglur, reglur, reglur
Í Svíþjóð eru til reglur og viðmið sem flestir Íslendingar hafa sjálfsagt aldrei velt fyrir sér að væru mögulega til.
Fyrir mig, innflytjandann í Stokkhólmi, var til dæmis ákveðið menningarsjokk að heyra það frá sænskum kollegum mínum að maður ætti helst ekki að umgangast vinnufélaga sína nema í vinnunni eða á vinnutengdum samkomum. Maður á að halda einkalífinu og vinnunni aðskildri. Einn sænskur vinur minn hafði unnið með sama yfirmanninum í 10 ár en hafði bara einu sinni komið heim til hans og það var í starfsmannahittingi.
Önnur óskráð regla er að tala ekki um pólitík við vinnufélagana. Maður talar um hlutlaus málefni eins og sumarfríið og veðrið. Ekkert sem getur verið stuðandi eða búið til átök. Svo er líka mikilvægt að verða sér ekki til skammar með því að segja eitthvað óvarlegt eða vanhugsað sem hægt er að misskilja. Þess vegna getur verið best að halda því sem maður segir sem hlutlausustu og ekki nota mikið af kaldhæðni.
Ég man ennþá eftir eina skiptinu á sex árum þar sem þessi regla um pólitíkina var brotin á vinnustaðnum mínum og upp úr sauð þannig að öllum á kaffistofunni leið illa af því stemningin varð eins og hún átti ekki að verða. Vegna þess að öll samskipti eiga að vera stíft hólfuð niður verða öll minnstu frávik frá þessu svo eftirminnileg, þegar eitthvað passar ekki inn í módelið sem er í gildi. Þarna hafði eitthvað gerst sem átti ekki að gerast og þetta gerðist ekki aftur.
Þriðja reglan er til dæmis að tala aldrei við ókunnugt fólk á götum úti eða í almannarýmum. Ef þú gerir það þá ertu að öllum líkindum skrítinn eða hreinlega síkópati og fólkið sem þú yrðir á mun líta þannig á þig. Sænsk kunningjakona mín á miðjum aldri kenndi mér þessa reglu. Þess vegna töluðu hvítu Svensonarnir aldrei við mann í sundlauginni og brostu aldrei til manns á meðan menn með rætur í Miðausturlöndum smáspjölluðu gjarnan hlýlega um daginn og veginn.
Auðvitað hafa þessar reglur allar líka sína kosti. Af því fólk kann sig svo vel og sýnir öðrum svo mikla tillitssemi með því að troða ekki skoðunum sínum upp á þá verður minna um átök og deilur milli fólks. Samskipti eru vingjarnleg og passív og einstaklingurinn passar sig á því að taka ekki of mikið pláss. Fólk berar síður tilfinningar sínar eða skoðanir.
Að skamma með bíl
Fyrir nokkrum vikum var ég að keyra á þjóðveginum áleiðis frá Stokkhólmi og norður í land.
Talsvert fyrir framan mig á vinstri akrein var Volvo sem keyrði undir 110 km hámarkshraðanum. Á hægri akreininni var hins vegar annar Volvo sem keyrði miklu hraðar og nálgaðist bifreiðina á vinstri akreininni óðfluga.
Í stað þess að keyra framhjá hægfara bílnum sem gaufaði á vinstri akreininni ákvað bílstjórinn á hægri akreininni hins vegar að skipta um rein og fara upp að rassgatinu á bílnum sem var vinstra megin. Með þessu lét bílstjórinn, sem keyrði hratt, hæga ökumanninn viljandi, og að yfirlögðu ráði, hægja á hröðum akstri sínum, jafnvel þó aksturslagið gæfi til kynna að hann væri að flýta sér mikið.
Í Svíþjóð, rétt eins og á Íslandi, er ætlast til þess að vinstri akreinin sé notuð fyrir framúrakstur og að bílstjórar sem vilji fara sér hægt keyri á þeirri hægri. Munurinn á þessari óskrifuðu umferðar- og háttsemisreglu á Íslandi og í Svíþjóð er hins vegar sá, rétt eins og með svo margar aðrar reglur sem gilda um samskipti fólks, að Svíar taka hana miklu alvarlegar en Íslendingar.
Hvað gerðist eftir að bílstjórinn sem keyrði hratt hafði skipt um akrein frá hægri til vinstri og hægt þannig á sér yfirferðina? Bílstjórinn sem var að brjóta regluna með því keyra hægt á vinstri akrein áttaði sig og færði sig yfir á þá hægri og hraði bíllinn spændi svo framhjá honum á vinstri akreininni.
Af hverju gerði bílstjórinn þetta? Af hverju keyrði hann ekki bara framhjá silalega bílnum sem drollaði á vinstri akreininni?
Af því að bílstjórinn sem keyrði hratt vildi skamma ökumanninn sem keyrði hratt og láta hann vita af því að hann hefði brotið reglu í umferðinni í Svíþjóð. Hann þurfti ekki að gera þetta en gerði það samt.
Þetta augnablik í umferðinni var svo dæmigert fyrir eitt af þeim einkennum sem mér finnst hvað mest lýsandi fyrir Svía. Viljann og fróunina sem felst í því að skamma fullorðið fólk ef það fylgir ekki settum reglum og jafnvel að refsa því með orðum eða gjörðum.
Ég fylgi reglum en þú ekki!
Þarna, úti á hraðbrautinni, horfði ég beint inn í sænska þjóðarhjartað í gegnum tvo nýlega Volvóa.
Kjósendur brutu reglur
Þegar ég bjó í Stokkhólmi var ég íbúi í alls þremur fjölbýlishúsum. Í öllum húsunum var sérstakur tölvupóstsþráður þar sem fólk skiptist á skoðunum um hitt og þetta. Ekkert gefur betri innsýn inn í sænsku þjóðarsálina en tölvupóstsþræðir í húsfélögum. Við eitt þessara fjölbýlishúsa var opinber bygging sem notuð var sem kjörstaður í kosningum til sænska þingsins eitt árið. Lítið var um bílastæði í nágrenni við kjörstaðinn og þurftu fjölmargir kjósendur að leggja ólöglega meðan þeir kusu.
Þetta fannst sumum íbúum hússins vera ótækt og fóru af stað umræður um þessa fásinnu á íbúaþræðinum. Einn íbúinn endaði á því að hringja á lögregluna til að benda henni á öll stöðubrotin. Þessi íbúi tilkynnti hróðugur um þetta á íbúaþræðinum og mátti skilja hann sem svo: Gott á pakkið sem braut reglurnar. Íbúinn var með óbeinum hætti að skamma fólkið sem lagði ólöglega með því að siga stöðumælavörðum á það.
Og það er alkunna að enginn vill lenda í sænskum stöðumælaverði. Þetta er verra en að lenda í löggunni, ígildi þess að verða fyrir barðinu á handrukkara eða agentum úr FSB eða Mossad. Stöðumælaverðirnir ganga um með hágæða mæla og taka nákvæm mál á því hversu langt bílarnir eru frá gangbrautum eða gatnamótum. 10 metrar er reglan. Tvisvar sinnum fékk ég sekt fyrir að leggja 8,7 og 7,5 metra frá gangbraut í miðbæ Stokkhólms.
Enginn íbúi í fjölbýlishúsinu nema einn sagði neitt við þessu innleggi. Sá maður lét leiðinlega nágrannann heyra það og spurði hvort hún fengi eitthvað út úr því að vera „súr“ við annað fólk. Í Svíþjóð er samfélagslega viðurkennt að vera leiðinlegur við þá sem brjóta reglur. Sá sem skammar er í rétti ef regla er brotin.
Barnavagninn á stigaganginum
Í fjölbýlishúsinu þar sem ég bjó síðustu árin var stórt anddyri. Þar var bannað að geyma barnavagna jafnvel þó það væri stórt og að það mætti geyma vagna í öðrum stigagöngum í húsinu. Ástæðan var sögð vera tengd eldhættu og brunavörnum; að ef eldsvoði ætti sér stað í húsinu þá gætu barnavagnarnir blokkað útganginn fyrir íbúunum.
Við vorum eina smábarnafjölskyldan í stigaganginum og þar af leiðandi sú eina sem brúkaði barnavagn.
Stundum þegar rigndi mikið settum við hann í útskot í anddyrinu þar sem hann var ekki fyrir neinum. Samt brást það ekki að alltaf þegar við gerðum það kom einn af nágrönnunum og kvartaði. Nágrannarnir sáu aldrei í gegnum fingur sér og spurðu: Skiptir þetta máli?
Ég viðurkenni að ég var farinn að láta barnavagninn vera í anddyrinu oftar og lengur en ella af því ég vildi sjá hvort nágrannarnir myndu koma aftur og kvarta. Þeir gerðu það, alltaf. Einn þeirra sendi meira að segja að tölvupóst á húsfélagið og formaðurinn sagði mér að þetta væri bannað samkvæmt reglum.
Spurningin er auðvitað: Hversu oft og hversu lengi nennir fólk að vera leiðinlegt bara til að vera leiðinlegt? Svarið, í einhverjum tilfellum alla vegana, er: Til eilífðar.
Skammarinn nýtur ekki dagsins
En allt þetta eru bara örsögur, anekdótur og dæmi um einstrengingshátt Svía út frá reynslu eins einstaklings.
Ef lífsviðhorf sumra Evrópuþjóða við Miðjarðarhafið er að njóta dagsins og láta honum nægja sína þjáningu þá er viðhorf Svía kannski að njóta frekar morgundagsins. Sá sem er þannig innstilltur að hann er alltaf að skamma aðra getur varla notið dagsins. Morgundagurinn kemur samt auðvitað aldrei í dag þannig að dagurinn þar sem viðkomandi nýtur verður aldrei. Þess vegna má líka skamma aðra af því dagurinn í dag er ekki sá dagur. Það er ekki hægt að vera lífsglaður skammari.
Einstrengingsháttur Svía er sannarlega þekktur og er viðfangsefni skáldsagna, kvikmynda og annars menningarefnis í Svíþjóð. Leiðinlegi, sænski þvergirðingurinn er svona álíka þekkt manngerð í Svíþjóð og persónueinkenni og skoðanir Bjarts í Sumarhúsum eru á Íslandi. Þeirra Bjartur er kannski skáldsagnapersónan Ove úr bók sem heitir eftir honum og vinsæl kvikmynd var gerð eftir. Nú hefur Hollywood meira að segja tekið Ove upp á sína arma með Tom Hanks í aðalhlutverki. Á Íslandi hefur sænskhugsandi leiðindapúkinn sennilega verið best túlkaður af Jóni Gnarr í persónu Georgs Bjarnfreðarsonar.
Ég kynntist einum leiðinlegasta manni sem ég hef hitt á ævinni í Svíþjóð. Hann var nánast eins og þessar skáldskaparpersónur. Alltaf að skamma, alltaf fúll, og alltaf að tala um að innleiða þyrfti nýjar reglur. Við þjálfuðum saman lið 9 ára sona okkar.
Þessum manni var svo uppsigað við skriðtæklingar í fótboltanum hjá sonum okkar að hann vildi sekta foreldra barnanna sem tækluðu. Skriðtæklingar áttu að vera bannaðar og foreldrarnir áttu að finna fyrir því í veskinu ef þeir kæmu börnum sínum ekki í skilning um það.
Ein besta leiðin til að láta fólk fylgja reglum er auðvitað að sekta það.
Konan sem leiðbeindi og skammaði í áratugi
Kannski er eitt besta og skýrasta dæmið um vilja Svía til að hegða sér vel og rétt í öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum sú staðreynd að í áratugi hélt einn af blaðamönnum Dagens Nyheter, Magdalena Ribbing, út vikulegum dálki í blaðinu þar sem hún sagði lesendum hvernig þeir ættu að hegða sér. Fólk gat spurt hana spurninga um hvað væri rétt og rangt að gera í vissum aðstæðum sem það var að glíma við í höfði sínu í hversdagslífinu.
Þessi dálkur var svo vinsæll og lesendur spurðu svo margra spurninga að Magdalena Ribbing varð þjóðþekkt fyrir ráð sín um rétta hegðun í Svíþjóð. Hún skrifaði pistlana allt þar til hún lést árið 2017, 77 ára að aldri, og gaf auk þess út margar bækur þar sem hún sagði fólki til um hvernig það ætti að vera. Ég las þessa pistla alltaf og ég elskaði þá bæði og þoldi þá ekki á sama tíma.
Ein af spurningunum sem Ribbing svaraði frá lesanda var meðal annars hvort það væri í lagi að kona málaði sig í strætó eða í neðanjarðarlestinni. Þetta truflaði lesandann, sem benti meðal annars á mögulega slysahættu vegna pensla eða blýanta sem gætu farið í augun á öðrum farþegum. Þó að Ribbing hefði ekki sagt beint út að slíkt mætti ekki þá útilokaði hún ekki þann möguleika að lesandinn gæti einfaldlega beðið næstu konu sem hann sæi mála sig í strætó að vinsamlegast hætta því.
Þegar Magdalena Ribbing féll frá sagði ritstjóri Dagens Nyheter, Peter Wolodarski, til dæmis að hann hefði svo oft í gegnum tíðina heyrt fólk spyrja sig að því hvað Magdalena Ribbing hefði sagt um tiltekin mál: „Ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt fólk í tilteknum félagslegum aðstæðum segja, spontant og með hlýju: Hvað ætli Magdalenu Ribbing finnist um þetta, má gera svona?“
Staða Magdalenu Ribbing var því í vissum skilningi eins og staða Jesú Krists hjá þeim sem fylgja honum: What would Jesus do?
Þú skalt ekki verða fullur með vinnufélögunum
En hvernig voru ráðleggingarnar sem Magdalena Ribbing prentaði í bókum sínum og hvernig var tónninn í því sem hún skrifaði?
Hér er eitt dæmi um mikilvægi þess að verða ekki fullur á samkomum í vinnunni. Þetta er texti úr síðustu bók Magdalenu Ribbing: „Ekki verða fullur. Þú skalt algjörlega láta ógert að drekka of mikið nálægt samstarfs- og yfirmönnum þínum. Ekkert er athugavert við að afþakka áfengi án þess að koma sjálfum sér í óþægilega stöðu. „Takk, í dag ætla ég ekki að drekka áfengi/takk, ég ætla að láta það ógert/ég sleppi því/ekki núna“. Ef einhver spyr spurninga eftir að maður kurteislega afþakkar á maður að endurtaka svar sitt þar til sá sem nauðar í manni skilur. Ef maður missir stjórn á sér og dómgreindin slævist er það verra en þegar maður er með vinum sínum. Ef maður verður fullur, sem mikilvægt er að reyna að koma í veg fyrir eins og hægt er, þá reynir maður að notast við þá litlu dómgreind sem er eftir í kollinum og drífa sig heim áður en það verður of seint. Ef vinnufélagi manns verður fullur færir maður hann/hana afsíðis og aðstoðar viðkomandi við að fara heim, til dæmis með því að panta leigubíl. Ef yfirmaður byrjar að sýna af sér óviðeigandi háttsemi eins og snertingu, viðreynslu eða að segja persónulegu hluti, þá á maður að samstundis að fara eitthvert annað: „Afsakaðu mig, en ég þarf að drífa mig.“
Þannig er hægt að lesa skrif og bækur Magdalenu Ribbing sem eins konar leiðarvísi fyrir lífið þar sem fólk er undirbúið fyrir allar mögulegar og ómögulegar félagslegar aðstæður sem komið geta upp hjá viðkomandi. Ekkert þarf að koma á óvart, ekkert þarf að vera slump, því hægt er að vera viðbúinn hverju sem er og hegða sér rétt.
Slagorð skattsins er slagorð Svía
Eitt þekktasta slagorð sænska skattsins, Skatteverket, sem er lykilstofnun í sænsku samfélagi, og gegnir einnig sama hlutverki og þjóðskrá og sýslumaður að vissu leyti á Íslandi, fjallar um það hvernig fólk á að hegða sér. „Með samvinnu gerum við samfélagið mögulegt [...] Markmið okkar er samfélag þar sem allir vilja breyta rétt.“
Þetta er auðvitað gott og blessað í stórum og mikilvægum málum. Að skatturinn undirstriki að fólk eigi að fylgja lögum, breyta rétt og borga skatt öllu samfélaginu til heilla.
Vandamálin geta hins vegar byrjað í samskiptum fólks - Svía - þegar þeir ætla sér ekki að bara að fylgja þessu slagorði fyrir sig heldur líka að sjá til þess að aðrir geri það líka. Og ekki bara í stórum málum eins og að borga skatta heldur líka í smærri málum sem snúast jafnvel bara um matskenndar óskráðar reglur eins og að mála sig ekki í strætó. Þá byrja skammirnar, þá byrjar hirtingin, þá byrjar talið um fjársektir. Það er dyggð að breyta rétt í sínu persónulega siðferði en getur orðið snúnara þegar þú ætlar að vera siðalöggan sem lætur alla aðra gera það líka.
Ef heilt samfélag er prógrammerað þannig að það veit ekki bara hvað er rétt, samkvæmt lögum og skráðum og óskráðum hegðunarreglum, og breytir samkvæmt þeim, heldur leggur sig líka fram við að skamma aðra sem fylgja ekki þessum reglum er ekki skrítið að fólk sem kemur annars staðar frá sé skammað í Svíþjóð.
Að einhverju leyti snýst þetta um viljann til að vera fullkominn og laus við breyskleika. Hvernig býr maður til hið fullkomna samfélag? Í slíku samfélagi gera allir það sem er rétt. Fólk tekst ekki á, er tillitssamt og vingjarnlegt við aðra, og sýnir ekki inn í kvikuna á sér af ótta við að styggja aðra.
Þannig getur mennskan verið siðuð úr fólki. Samskipti fólks verða að eins konar vélrænum verkferlum sem fylgja ákveðnum brautum. Blikið hverfur úr augunum á fólki og enginn kynnist neinum sannarlega af því allir eru á bremsunni sinni til að passa sig á að segja eða gera alveg örugglega ekkert sem gæti mögulega skilist sem rangt.
Annars heyrði ég eitt sinn sögu um kurteisi svía,sem segir frá tveimur ungum mönnum er sátu í lest og voru að segja hvorum öðrum brandara og hlógu mikið,en á móti þeim sat maur þeim alls ókunnur og sagði í miðjum hlátur köstum þeirra"Forlåt ,en er ykkur ekki sama þó ég hæli með ykkur.
Ég stundaði nám við Háskólann í Lundi á árunum 1972-1976 og lærði fljótt að ég átti engu að deila með Svíunum á stúdentgarðinum, sem ég bjó á. Þeir vildu engum skulda eitt né neitt og fyrir vikið aldrei gefa neinum neitt.
Ég gæti nefnt mörg dæmi um þetta, en nefni bara eitt hér:
Þegar ég var nýflutt inn á stúdentagarðinn, nýkomin frá Íslandi til Lundar, þá var haldið gangapartý. Ég átti hvorki vín né bjór (vissi ekki enn hvar Statsbolaget var) svo þegar ég gekk inn í partýið og sá einn gangfélaga minn með bjórkippu í hönd, spurði ég hann hvort ég mætti fá eina flösku.
Þar sem ég var vön því úr partýum á Íslandi að deila drykkjarföngum mínum með öðrum, þá varð ég svolítið hissa þegar hann sagðist geta lánað mér eina flösku.
Næsta morgun vaknaði ég við það að bankað var á hurðina hjá mér og þegar ég opnaði dyrnar stóð bjórflöskueigandinn við dyrnar og rukkaði mig um greiðslu á bjórflöskunni!
Maður einfaldlega fer EKKI framúr vinstra megin í UK eða hægra megin í Svíþjóð. Allir í umferðinni taka þátt í að minna alla á það. Þannig bara er það, og enginn fer röngu megin framúr til að þurfa ekki að flauta á þann sem fer of hægt á hröðu akreininni, né er eninn að eltast við að komast framúr á „réttri“ akrein til að „skamma“ þann hægfara.
Hún setur neiðarljós á og flautar reglulega til að láta vita að ferð uppá líf og dauða væri um að ræða. En svo lenti hún með miðaldra beturvita á undan sér sem gerir í því að keyra í veg fyrir hana. Stoppa hana frá því að komast yfir ljós. Tefur hana með ítrekuðum fyrir-akstri. Það munaði ca. 3 mínum af leið sem hefði orðið 4 mínútur.
Henni tókst ekki að endurlífga mömmu.
Ég hef ekki getað fyrirgefið þessum manni og hann veit ekki af sínu hlutverki í láti mömmu.
Munum við vitum ekki allt. Hann sá ofsa akstur þegar það var neiðar akstur.