Á þeim tíma sem ég fór að venja komur mínar austur til Anatólíu fyrir tuttugu árum ríkti nokkur bjartsýni með nýja ríkisstjórn í Tyrklandi. Það kvað við annan tón í mannlífinu þar eystra og hann var léttari en heyrst hafði áratugina á undan því umtalsverðar vonir voru bundnar við kosningaloforð þessa nýja flokks sem réði nú einn í ríkisstjórn og á þingi landsins.
Árið 2002 urðu söguleg kosningaúrslit í landinu sem bjó við gamalreynt, en töluvert skert lýðræði og meingallað atkvæðakerfi, svo ekki sé meira sagt; máttlitlar samsteypustjórnir, afskipti hers, misrétti, frændhygli og spillingu. Það var því kominn tími á breytingar. Þó man ég eftir að hafa rætt við fólk þarna á þessum tíma sem bar strax ugg í brjósti.
Nýi stjórnmálaflokkurinn sem vann þennan sögulega sigur og kenndi sig við réttlæti og þróun hafði á að skipa forystusveit með ágætlega menntuðu, íhaldssömu og að því virtist heiðarlegu fólk í ljósi tyrkneskrar stjórnmálasögu undangenginna ára. Samsett úr blöndu tyrkneskrar nýfrjálshyggju, alþjóðaviðskipta og mið-hægri sinnaðrar þjóðrækni, auk sterkra tengsla við íslamstrú. Upp á íslenska vísu hefði mátt kalla það „háttheldið og kirkjurækið fólk” ef ekki beinlínis ættað úr öflugum sértrúarsöfnuði, því þarna stjórnuðu ferðinni stjórnmálamenn sem ræktuðu trú sína sérstaklega, ásamt hefðbundnum venjum, samfara áhuga á samfélagsmálum í þessu gamla, fallna heimsveldi, með stórmerka átakasögu og þá dreymdi horfna tíð en hugðust gera Tyrkland öflugt á ný, á sínum forsendum. Sumir af þeim býsna fornir í skoðunum þegar betur var að gáð – ef horft er ofan af sjónarhóli á vesturhveli jarðar.
Einn af þeim sem þarna var í forystuliðinu, Recep Tayyip Erdogan að nafni, þá hálf fimmtugur, átti eftir að verða meira áberandi þegar leið á fyrstu stjórnarárin og gerast frekur til plássins, því hann geymdi með sér stórar hugsjónir um horfið Tyrkjaveldi; útskrifaður í grunnfræðum úr klerkaskóla, mikill áhugamaður um knattspyrnu og með einhverja kúrsa í viðskiptafræðum, auk þess að hafa tekið þátt í stjórnmálastarfi íslamista. Hann reyndist farsæll og umbótasinnaður borgarstjóri í Istanbúl um nokkurra ára skeið undir lok síðustu aldar og kom þar í verk endurbótum á ýmsu, s.s sorphirðumálum og veitukerfi í þessari fornu „höfuðborg heimsins”, sem Istanbúl er stundum kölluð. Stækur bindindismaður á vín og tóbak, með horn í síðu gömlu veraldlegu forréttindastéttarinnar í landinu, sem aðhylltist „kemalisma” og fram að þessu hafði ráðið flestu í framgangi landsmála og hann taldi sig eiga mjög grátt að gjalda.
Þegar líða tók á níunda áratug síðustu aldar höfðu sterkefnaðir trúmenn utan frá landsbyggðinni smám saman verið að gera sig gildandi í efnahagslífi og stjórnmálum, og svo einkennilegt sem það var, í skjóli veraldlega sinnaðrar herforingjastjórnar er rændi völdum 1981. Það var í fyrrgreinda hópnum sem Recep Tayyip Erdogan sótti fram til valda.
Helsta ástæða þessa óvænta kosningasigurs Réttlætis- og þróunarflokksins upp úr aldamótunum var djúpstæð óánægja jafnvel vonleysi á meðal breiðs og langt í frá einsleits hóps tyrkneskra kjósenda. Þeir voru orðnir langþreyttir á óðaverðbólgu, pólitískri spillingu, afskiptum hersins, innviðaskorti og skelfingu lostnir eftir mannskæða jarðskjálfta nærri Istanbúl fáeinum árum áður sem kostuðu 17. 000 mannslíf og felldu þáverandi ríkisstjórn, að öllum líkindum.
Áratuga gömul loforð stjórnvalda um efnahags - og samfélagsumbætur upp á vestræna vísu höfðu ekki skilað sér, kalda stríðið lék til að mynda tyrkneskt samfélag illa. Þá hefur viljað brenna við að þjóðin „skjóti sig í fótinn” ef vel hefur gengið í efnahagslífinu í einhvern tíma – fjárfestingarfylleríin eru nokkur og skapa sveiflur í gegnum tíðina og svo einkavinavæðingarnar. Íbúarnir voru lengst af fátækir, stórfelldir fólksflutningar á milli sveita og þéttbýlis með því umróti sem fylgir. Þótt samskiptin væru mikil vestur var þjóðin tvístígandi í viðhorfi sínu til inngöngu í Evrópusambandið, þar þótti landið reyndar á móti „full stór og kámugur pakki” vestur í Brussel og ekki bætti það ástandið að á meðal kúrdíska þjóðarbrotsins í eystri héruðum landsins ríkti hálfgert borgarastríð, ef eitthvað, á milli fylkingar kúrdískra aðskilnaðarsinna og hers tyrkneskra stjórnvalda.
Meingölluð kosningalög með 10% háum atkvæðaþröskuldi fyrir þingsetu og einhvers konar ”winner takes all” atkvæðaskiptingu, skapar einkennilegt ástand. Flokkar undir tíu prósenta fylgi þurrkast út en atkvæðin og um leið þingsætin, falla til þess flokks sem mest fylgi hlýtur og getur fleytt þeim flokki í hreinan meirihluta á þingi, þrátt fyrir takmarkað atkvæðamagn eða fylgi, í þessu tilfelli fékk Réttlætis- og þróunarflokkur 35% atkvæða en stóð á endanum uppi með hreinan meirihluta á þingi, þegar tugir prósenta atkvæða smærri flokka féllu dauð.
Recep Tayyip Erdogan (RTE) var kominn með öruggt þingsæti á tyrkneska þinginu og stuttu síðar varð hann forsætisráðherra og gat tekið til óspilltra málanna. Í hönd fór skeið mikilla samfélagsbreytinga og það töldust vera uppgangsár framan af, þar sem marktækar umbætur, m.a. á sviði samgangna og heilbrigðisþjónustu litu dagsins ljós, svo ekki sé minnst á veisluna í verktakabransanum, heilu borgarhverfi rudd og ný reist. Knattspyrnuhallir víðsvegar um landið, fyrir helstu liðin þar sem vænta mátti pólitísks stuðnings. Það var meira að segja farið að ræða um „tyrkneska efnahagsundrið” um tíma í virtum viðskiptafjölmiðlum víða um heim, landsmönnum til mikillar gleði. Seinna kom í ljós að þetta var meira og minna út á erlenda krít og á eftir fylgdi ýmislegt annað sem ekki vakti hrifningu. En efnaminni og trúræknari helmingur landsmanna er býr utan fjölmennustu borganna, hefur þó fylgt „sínum manni” og flokknum, sama hvað, í undanförnum kosningum, utan þeirra síðustu 2019, þegar stjórnarandstaðan náði Istanbúl og Ankara.
Á tveimur dramatískum áratugum hefur Erdogan orðið sífellt einráðari, óútreiknanlegri og hornóttari í garð vestrænna bandalagsþjóða og beinlínis hættulegur þeim landsmönnum sínum sem hreyfðu andmæli gegn honum, auk hernaðarumsvifa í löndum múslíma. Nokkuð sem tyrknesk stjórnvöld forðuðust allan lýðveldistímann, frá 1923. Ýmsir af gömlum félögum, flúnir land, gengnir í raðir stjórnarandstæðinga eða hætti afskiptum af stjórnmálum. Það allt væri efni í aðra umfjöllun, en þessari grein víkur nú til samtímans.
Gömul hugmynd um að einræðisstjórn sé skilvirkari en margróma lýðræðisríki í að drífa málin áfram tók á sig nýja mynd í kórónuveirufaraldrinum. Ýmsir vestrænir fréttaskýrendur héldu því fram að á meðan lýðræðisríkin hefðu patað og deilt um leiðir, hafi stjórnendur einræðisríkja verið fljótir að bregðast við og gripið til sinna ráða. Í sumum tilfellum getur þetta verið rétt – en það á aðeins við ef stjórnsemin hafði yfir að ráða góðri skynsemi. Í tilfelli Erdogans, forseta Tyrklands, hefur það sýnt sig að hann telst ekki í þeim hópi. Það fullyrðir Gönul Tol, höfundur bókarinnar Erdogan’s War: A Strongman’s Struggle at Home and in Syria.
Hún skrifar í grein sem birtist á vef Foreign Policy fyrir stuttu að viðbrögð Erdogans við hinum hrikalega jarðskjálfta sem reið yfir fjölmenn héruð í mið-suður hluta Tyrklands 6. febrúar, sem voru átakanlega hæg og einkenndust af ósamhæfðum aðgerðum, eða aðgerðarleysi. En ríki með öflugt miðstjórnarvald eiga að geta brugðist við hraðar og skipulegar. Það eina sem Erdogan forseti þurfti að gera að mati Tol var að taka upp símann og skipa herforingjum sínum að senda næst stærsta her NATO til þeirra borga sem urðu verst úti, virkja skrifræðið til að senda þangað mjög svo nauðsynleg hjálpargögn og neyðarsveitir. Þetta gerði hann ekki. Aðeins nokkrum mínútum eftir að skjálfti af stærðinni 7,8 reið yfir í 10 héruðum voru hermenn í viðbragðsstöðu, tilbúnir að taka þátt í leitar- og björgunarstörfum. En á þessum miklvægu upphafsstundum kom aldrei skipun að ofan. Yfirstjórn Hamfara- og neyðaráætlunar landsins (AFAD – tyrknesku almannavarnirnar) hröðuðu sér heldur ekkert á vettvang til að aðstoða fórnarlömb jarðskjálftanna. Hvers vegna ekki?
Í bók sinni, Weak Strongman: The Limits of Power in Putin’ s Russia útskýrir Timothy Frye að ráðríkir þjóðarleiðtogar séu ekki eins öflugir og við öll höldum. Það er enginn hægðarleikur að vera einráður stjórnandi. Stjórnlyndir leiðtogar, og það á sérstaklega við um einráðan forseta Tyrklands, standa frammi fyrir málamiðlunum. Þeir virkja sér stuðning með loforðum um að koma ákveðnum hlutum í framkvæmdum, en það sem þeir verða að gera til þess að ná undir sig öllum völdum leiðir að lokum til þess að þeir grafa undan getu sinni til að efna loforðin. Eitt af því fyrsta sem einráðir leiðtogar gera er að þeir þvinga fram miðstýringu og með því veikja þeir innviði stofnananna. Veikburða stofnanir gera þeim erfitt fyrir að stjórna og á endanum grefur það smám saman undan einræði þeirra, með öllu því sem þá getur losnað úr læðingi.
Í tuttugu ára stjórnartíð sinni hefur Erdogan holað stofnanir ríkisins að innan og komið þar fyrir vanhæfum trúnaðarmönnum sínum og taglhnýtingum í lykilstöður til þess að ná valdataumunum í eigin hendur og fullkomna miðstýringuna. Þetta kom Erdogan í stöðu valdamesta manns landsins en lamaði um leið skilvirkni ríkisins. Eitt af eftirminnilegustu dæmunum um stofnanarof er bæling Erdogans á tyrkneska hernum, sem gekk langt út fyrir eðlilegt lögmætt markmið um að takmarka hlutverk yfirstjórnar hersins í stjórnmálum landsins.
Neyðaraðstoð er mikilvægur þáttur í starfi flestra nútímaherja. Herinn getur brugðist skjótt við - veitt læknisaðstoð og skipulagt nauðsynlega flutninga á hamfarasvæðum. Í viðleitni sinni við að draga úr valdi yfirherstjórnarinnar, rýrði Erdogan getu hersins til að bregðast tafarlaust við náttúruhamförum á borð við jarðskjálfta, og setti á fót sérstaka Hamfara- og neyðaráætlunarstofnun AFAD til að taka að sér það hlutverk staðinn.
Stofnunin varð fljótlega eins og allar aðrar ríkisstofnanir landsins verkfæri fyrir Erdogan í að efla hann sjálfan heima fyrir og erlendis. Hann fyllti AFAD upp af vanhæfum stuðningsmönnum og gerði það að hluta af neti trúarlegra hjálparsamtaka til að styðja við áform í ímyndaruppbyggingu sinni sem sérstaks „verndara múslima” um allan heim. Auglýsingar sýndu AFAD veita þurfandi múslimum aðstoð og voru birtar á öllum sjónvarpsstöðvum og í dagblöðum, hlynntum stjórnvöldum og einnig eru þær sýndar á viðburðum sveitarfélaga undir stjórn Réttlætis- og þróunarflokks Erdogans.
„Maðurinn sem komst til valda og hét því að koma málum í verk, stóð ekki við það loforð á myrkustu tímum í aldalangri lýðveldissögu Tyrklands.“
Raunin er hins vegar að AFAD skortir búnað, færni og mannauð til sinna því verkefni sem því er ætlað. Sá sem stýrir hamfaraviðbragðsáætlun stofnunarinnar er menntaður í íslömskum fræðum en hefur enga sérstaka reynslu af hjálparstarfi. Hann starfaði áður á skrifstofu Stjórnarnefndar trúmála (einskonar trúarlegt menntamálaráðuneyti). Þrátt fyrir þekkta annmarka AFAD - takmarkað fjármagn og rétt rúmlega 7000 manna starfslið – var stofnunin sett yfir að stjórna neyðaraðgerðum á hamfarasvæðunum. Allt björgunarstarf og mannúðaraðstoð þurfti að fara um hendur stofnunarinnar og engin önnur ríkisstofnun, alþjóðleg hjálparsamtök eða frjáls félagasamtök gátu lyft litla fingri án leyfis AFAD, að sögn Gönuls Tols í grein hennar í Foreign Policy. Erdogan og flokksbræður í innsta hring hans vildu ekki að neinn og allra síst herinn, léki stærra hlutverk en stofnunin sem hann setti á laggirnar.
Maðurinn sem komst til valda og hét því að koma málum í verk, stóð ekki við það loforð á myrkustu tímum í aldalangri lýðveldissögu Tyrklands, vegna þess að stjórnmennska eins manns hafði gert stofnanir landsins óstarfhæfar og laskað grundvöll stjórnskipulagsins.
Jarðskjálftinn varpaði ekki aðeins ljósi á hvernig Erdogan hefur skaðað getu ríkisins á þeim tveimur áratugum sem hann hefur setið að völdum, segir Gönul Tol, heldur leiddi hann í ljós hver forgangsröð hans er. Eins og allir einvaldar stóð Erdogan frammi fyrir þeirri málamiðlun á milli þess að auðga fjölskyldu sína og nánasta valdahring eða þjóna þjóðinni. Það er erfitt að halda því jafnvægi. Þegar einvaldur velur að hygla flokksfélögum á kostnað þjóðarinnar getur hann staðið frammi fyrir mótmælum almennings. Ef hann ákveður að þjóna almenningi með því að nýta ríkisútgjöld í óhag félaga sinna, þá gæti hann mætt áskorun frá innsta hring stuðningsmanna.
Á síðastliðnum áratug valdi hann alltaf fyrri leiðina. Umdeild og óhefðbundin peningastefna hans að lækka vexti þrátt fyrir vaxandi verðbólgu sem gerði auðuga virktarvini hans ennþá ríkari, á meðan hækkandi matvöruverð og svimandi vöxtur á fasteigna- og leiguverði þrengdi að þeim sem sátu á botninum.
Fátækt jókst og milljónir Tyrkja gátu ekki lengur staðið undir nauðþurftum sínum. Auk þess sem á sjöttu milljón flóttamanna frá Sýrlandi, hefur dvalið í Tyrklandi þennan tíma (mikið af því á jarðskjálfta svæðunum). Áhrifin sem þetta hefur haft á almennt mannlíf í landinu hafa verið mjög sýnileg til hins verra.
Á sama tíma útdeildi Erdogan innviðum og verktakasamningum, hægri, vinstri, til virktarvina sem högnuðust um milljarða evra, meðal annars með því að sneiða af öryggiskröfum í óvönduðu íbúðarhúsnæði sem þeir reistu og breyttist síðan í grafir tugþúsunda manna.
Erdogan gæti loksins þurft að greiða gjald fyrir þetta allt. Líklegt er að forseta- og þingkosningar í Tyrklandi verði haldnar í júní. Sama hversu harkalega fjölmiðlar í þjónustu Erdogans reyna að spinna umræðuna, þá gerir umfang eyðileggingarinnar það að verkum að forsetinn getur illa falið óhæf viðbrögð ríkisstjórnar sinnar. Þetta veikir möguleika hans. Vandamál hans mun heldur ekki leysast þótt hann fresti kosningunum til síðari tíma. Jarðskjálftinn hefur magnað upp efnahagsleg, félagsleg og stjórnmálalegt vandamál Tyrkja, sem voru ærin fyrir og munu ekki hverfa alveg á næstunni, en setja þjóðina og framtíðarhorfur Erdogans á vondan stað. Ég ímynda mér að almenningi í Tyrklandi bíði erfiður róður.
Gölun Tol lýkur grein sinni á þeim orðum að Tyrkland Erdogans er sterk áminning um að einráðir leiðtogar tryggja ekki stöðugleika og koma ekki hlutunum í verk. Þeir bregðast helst þegar þjóð þeirra þarf mest á þeim að halda. Harmleikurinn í upphafi febrúar minnir á að Tyrkir, ekki frekar en aðrir, þurfa ekki á frekjukörlum að halda við stjórnvölinn, heldur hæfum og öflugum samfélagsinnviðum, og stofnunum sem almenningur getur treyst.
Höfundur hefur búið í Tyrklandi hluta úr ári, alla stjórnartíð Erdogan.
Athugasemdir