Foreldrar mínir hafa alltaf unnið mikið og mér hefur alltaf þótt það vera dyggð. Það er dyggðugt að slíta sig út, þetta hugsaði ég og vann eins og skepna í nokkur ár. Svo slitnaði ég, fyrr en ég ætlaði mér. Áður en ég varð ríkur, áður en ég varð gamall. Ég sá foreldra mína aldrei slitna eða brotna eða bugast undan álagi. Kannski gerðu þau það, maður sýnir börnunum sínum það ef til vill ekki.
Á heimili foreldra minna er eldað nánast alla daga, þau eru ekkert hrifin af því að eyða pening í óþarfa. Þegar ég geng að heimili þeirra blæs háfurinn yfirleitt lykt af steiktum hvítlauk. Um helgar fara þau í göngutúr, eyða heilu dögunum við eldamennsku og þrífa – ef þau eru í fríi.
„Það er dyggðugt að slíta sig út, þetta hugsaði ég og vann eins og skepna í nokkur ár. Svo slitnaði ég, fyrr en ég ætlaði mér.“
Þegar ég var barn vöknuðum við öll saman, foreldrar mínir og systkini mín. Mig minnir það allavega. Eftir morgunmat fórum við öll saman í vinnu og skóla, fyrir utan þrjá daga í viku þegar mamma fór í líkamsrækt fyrir vinnu. Mamma er sjálfstætt starfandi en kaus að mæta í vinnuna á sama tíma og pabbi. Ég er sjálfstætt starfandi, með skrifstofu úti í bæ hvert ég mæti aldrei, síst af öllu þegar Hófí, kærastan mín, mætir snemma morguns í sína vinnu.
Það er allt í röð og reglu á heimili foreldra minna. Allt á sinn stað. Þau vaska upp eftir kvöldmat og raða skálum, bollum og lyfjum á borðið fyrir svefninn, til þess að það sé frágengið þegar þau vakna. Þau mæta ekki of seint til vinnu og reyna aldrei á mörk skilafrests, eins og ég er til að mynda að gera með þennan pistil.
Þegar ég ímynda mér líf mitt sem fullorðinn maður ímynda ég mér heimili foreldra minna, ef það er tóm dós á borðinu og diskur í vaskinum þá er ég ekki þar, þá er ég ekki fullorðinn, þá hef ég tíma.
Athugasemdir (1)