Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson, sem hlaut sjö ára fangelsisdóm fyrir kynferðisbrot gegn fimm konum, er nú í afplánun á Kvíabryggju. Fangelsið er skilgreint sem opið fangelsi, þar eru ekki rimlar fyrir gluggum og svæðið afgirt eins og hefðbundið sveitabýli.
Jóhannes Tryggvi rak meðferðarstöðina Postura og sagðist sérhæfa sig í meðferðum við stoðkerfisvanda. Hann braut á konunum fimm þegar þær voru á nuddbekk hjá honum í meðferð. Í dómi Landsréttar sagði að brot Jóhannesar gegn konunum hefðu verið framin í skjóli trúnaðartrausts og samkvæmt atvikalýsingu mætti ráða að vilji hans til að brjóta á þeim hafi verið sterkur og einbeittur.
Segist enn vera saklaus
Mikil reiði greip um sig á dögunum eftir að Vísir.is birti umfjöllun um Jóhannes þar sem haft er eftir houm að hann telji sig hafa verið sakfelldur án dóms og laga, þrátt fyrir að hafa sannarlega verið sakfelldur á tveimur dómstigum. Þar var einnig fjallað um fjársöfnun sem hann hafði sett af stað fyrir sjálfan sig.
Í byrjun þessa mánaðar hafnaði endurupptökudómstóll kröfum Jóhannesar Tryggva um að dómur Landsdóms yrði endurupptekinn. Í beiðni sinni til dómstólsins hélt hann því fram að stór hópur kvenna hefði sameinast um að saka hann ranglega um kynferðisbrot. Endurupptökudómstóll komst að þeirri niðurstöðu að ekkert benti til að svo væri.
Sýnir enga iðrun
Heimildinni hafa borist ábendingar þar sem fólk undrast að Jóhannes sé kominn í opið fangelsi svo skömmu eftir að hann hóf afplánun, ekki síst í ljósi þess að brot hans voru alvarleg og ítrekuð, auk þess sem hann sýni enga iðrun eða taki ábyrgð á brotum sínum.
Jóhannes hóf afplánun á Litla-Hrauni um mitt ár 2022 en var fluttur á Kvíabryggju í febrúar 2023. Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segist ekki geta tjáð sig um mál einstakra fanga en segir að allir fangar eigi möguleika á framgangi í afplánun, óháð brotaflokki og brotasögu.
„Allir hefja afplánun í lokuðu fangelsi. Ef menn eru agabrotalausir eiga þeir möguleika á að fara síðan í opið fangelsi, að þeim tíma loknum á áfangaheimili og eru síðan heima hjá sér með ökklaband,“ segir Páll. Þá gilda þau tímaskilyrði að fangar afpláni ekki lengur en þrjú til fjögur ár í opnu fangelsi. Fangar með lengri dóm þurfi því að vera lengur í lokuðu fangelsi áður en þeir eiga möguleika á að afplána í opnu fangelsi. Samkvæmt Páli er samsetning fangahópsins svipuð hvort sem um er að ræða opið eða lokað fangelsi.
Miðað við alvarleika brota Jóhannesar má reikna með því að hann afpláni tvo þriðju dómsins og fari síðan á reynslulausn.
Yfir tuttugu konur kærðu
Rúmlega tuttugu konur kærðu Jóhannes Tryggva fyrir sambærileg brot þegar þær voru hjá honum vegna meðhöndlunar á stoðkerfisvanda. Enn fleiri konur hafa lýst brotum af hendi Jóhannesar án þess að hafa lagt fram kærur. Í öllum tilfellum lýstu konurnar því að Jóhannes hefði strokið kynfæri þeirra og farið með putta ýmist upp í leggöng eða endaþarm eða hvort tveggja. Þessu til viðbótar kærðu tvær konur hann fyrir að brjóta á þeim þegar þær voru börn. Þau mál voru látin niður falla.
Jóhannes Tryggvi var í janúar 2021 dæmdur í fimm ára fangelsi í fyrir að hafa nauðgað fjórum konum sem leituðu meðferðar hjá honum við stoðkerfisvanda á árunum 2009 til 2015. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Jóhannes Trygggvi áfrýjaði dómnum til Landsréttar sem þyngdi hann upp í sex ár. Dómur Landsréttar féll í nóvember 2021.
Í ársbyrjun 2022 gerði Héraðsdómur Reykjaness Jóhannesi síðan tólf mánaða hegningarauka þegar hann var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn fimmtu konunni, og bætist hegningaraukinn við sex ára dóminn.
Hann sótti um að skjóta málinu til Hæstaréttar en því var hafnað, meðal annars með þeim rökum að niðurstaða Landsréttar væri að verulegu leyti byggð á sönnunargildi munnlegs framburðar og það mat verði ekki endurskoðað hjá Hæstarétti.
Athugasemdir (1)