Eigandi laxeldisfyrirtækisins Arnarlax á Bíldudal stefnir á að greiða út 32 milljarða króna arð, 2,9 milljarða norskra króna, á þessu ári eftir að hafa hagnast um tæplega 50 milljarða króna í fyrra. Fyrirtækið, norski laxeldisrisinn Salmar AS, kvartar samt yfir aukinni skattheimtu í Noregi og segir að gjaldheimtan geti komið niður á starfsemi félagsins. Þetta kemur fram í ársuppgjöri Salmar AS og kynningu á því sem gerð voru opinber í Noregi í lok febrúar. Arnarlax á og rekur sjókvíar á Vestfjörðum þar sem eldislax er ræktaður.
Salmar AS er meirihlutaeigandi í Arnarlaxi með rúmlega 51 prósent af hlutafénu í norsku móðurfélagi laxeldisfyrirtækisins, Icelandic Salmon AS. Næst stærsti hluthafi Arnarlax er svo lífeyrissjóðurinn Gildi með 7,16 prósenta hlut. Stjórnarformaður Arnarlax, Kjartan Ólafsson, er fjórði stærsti hluthafinn með rúmlega 3,2 prósenta hlut. Arnarlax er stærsta laxeldisfyrirtæki á Íslandi og stefnir félagið félagið á 16 þúsund tonna framleiðslu hér á landi á þessu ári samkvæmt uppgjörinu. Fyrirtækið framleiddi sama magn í fyrra.
Stærsti eigandi Salmar eru svo aftur fyrirtækið Kverva Industries sem er í meirihlutaeigu sonar stofnanda Salmar, Gustav Witzoe yngri, sem er ríkasti maður Noregs. Hann er því stærsti eigandi Arnarlax á Íslandi.
„Forsendur skattlagningarinnar byggja á þeirri forsendu að laxeldisiðnaðurinn skapi of mikla arðsemi miðað við þær áhættur sem iðnaðurinn felur í sér en þetta er ekki rétt.“
Segja skattlagningu koma í veg fyrir umhverfisvænni lausnir
Í ársreikningi Salmar kemur meðal annars fram að vegna aukinnar, boðaðrar skattlagningar í Noregi, þá geti fyrirtækið ekki einbeitt sér af sama krafti að því að þróa aflandslausnir í laxeldi. Með slíkum aflandslausnum yrði eldið flutt út á rúmsjó og úr fjörðum landa eins og Noregs og Íslands. Þetta myndi koma í veg fyrir mörg af helstu umhverfisáhrifum laxeldis í sjókvíum, meðal annars mögulega erfðablöndun við villta laxastofna sökum slysasleppinga úr sjókvíum. Slíkar slysasleppingar hafa átt sér stað í Noregi og á Íslandi. Skattlagningin á fiskeldið á að aukast úr 22 prósentum í 62 prósent.
Áhugavert er að Salmar stilli afleiðingum skattlagningarinnar upp með þessum hætti þar sem laxeldisfyrirtækið er að nota hagnað sinn af laxeldi í sjókvíum til að fjármagna þróun fyrirtækisins á umhverfisvænni lausnum úti á rúmsjó. Laxeldið sem Salmar stundar á Íslandi er laxeldi í fjörðum sem aflandseldið á að koma í staðinn fyrir með tíð og tíma, líkt og fyrrverandi stjórnarformaður Salmar hefur sagt.
Stjórnarformaðurinn fyrrverandi, Atle Eide, hefur látið hafa það eftir sér að 2030 verði laxeldi í sjókvíum ekki lengur stundað vegna umhverfisáhrifa þess. „Við munum líklega ekki sjá hefðbundnar, alveg opnar sjókvíar neins staðar árið 2030 [...] Kröfur samfélagsins hafa breyst svo mikið og tækniþróunin mun gera það arðbært að breytast,“ sagði Atle Eide í viðtali við sjávarútvegsblaðið Intrafish árið 2021.
„Vannýttir möguleikar“ á Íslandi
Þrátt fyrir þessa spá Atle Eide um endalok sjókvíaeldis, og þrátt fyrir að fyrirtækið sé að fjárfesta í öðrum lausnum fjarri ströndum landa, þá sér Arnarlax samt sem áður mikla vaxtarmöguleika á Íslandi. Í kynningunni á uppgjöri Salmar segir meðal annars: „Vannýttir möguleikar í fyrirliggjandi leyfum.“
Með þessu er meðal annars átt við að Arnarlax á samtals framleiðsluleyfi fyrir 23.700 tonnum af eldislaxi og á því eftir að hefja framleiðslu á samtals 6.700 tonnum af eldislaxi út frá fyrirliggjandi leyfum. Þá er tilgreint í kynningu á uppgjöri Arnarlax fyrir síðasta ársfjórðung 2022 að félagið sé með frekari umsóknir um leyfi í ferli, meðal annars 10 þúsund tonn í Ísafjarðardjúpi auk 4.500 tonn í Arnarfirði.
Í þessari kynningu segir Arnarlax líka, þrátt fyrir að ljóst sé að fyrirtækið og fyrrverandi stjórnarformaður Salmar AS, telja sjókvíaeldi ekki vera framtíðarlausn í fiskeldi að Ísland geti orðið eitt stærsta framleiðsluland heimsins í slíku eldi.
Salmar: Forsendur skattlagningarnar rangar
Nokkuð hefur verið fjallað um afleiðingarnar af þessari auknu skattlagningu í Noregi í fjölmiðlum hér á landi og hefur stjórnarformaður Arnarlax, Kjartan Ólafsson, meðal annars sagt að hún gæti meðal annars falið í sér tækifæri fyrir Íslendinga til að framleiða meira af eldislaxi.
Orðrétt segir um þessar afleiðingar af skattlagningunni í ársreikningi Salmar AS. „Í Noregi hefur ríkisstjórnin boðað auðlindaskatt á fiskeldi sem taka á gildi frá upphafi árs 2023. Ef nýja skattlagningin verður samþykkt af þinginu mun hún hafa mikil áhrif á möguleika á fjárfestingum og tækninýjungum í fiskeldinu í Noregi. SalMar sendi frá sér ítarlegt svar í hinu opinbera ferli sem málið fór í og lýsti yfir harðri andstöðu við skattlagninguna.“
Samkvæmt því sem Salmar segir þá eru forsendur skattlagningarinnar rangar þar sem ekki sé rétt að arðgreiðslur úr greininni séu of háar miðað við þá áhættu sem fjárfestarnir taka. Um þetta segir í ársreikningnum: „Forsendur skattlagningarinnar byggja á þeirri forsendu að laxeldisiðnaðurinn skapi of mikla arðsemi miðað við þær áhættur sem iðnaðurinn felur í sér en þetta er ekki rétt. Og Salmar undirstrikaði með afgerandi hætti að tillögurnar ætti að leggja til hliðar,“ segir í ársreikningnum.
Nærri 100 milljarða arður á þremur árum
Þessi staðhæfing í ársuppgjöri Salmar er sérstaklega áhugaverð í ljósi þess að á síðastliðnum árum hefur félagið greitt út tugi milljarða króna í arð á hverju einasta ári. Upphæðin var 32 milljarðar króna í fyrra líka og tæpir 30 milljarðar króna árið á undan. Samtals er því um að ræða nærri 100 milljarða króna arðgreiðslur til hluthafa á einungis þremur árum.
Þegar horft er á tekjur fyrirtækisins í fyrra, sem námu rúmlega 20 milljörðum norskra króna, þá nemur arðgreiðslan út úr félaginu rúmlega 14 prósentum af tekjum félagsins. Arðgreiðslan nemur sömuleiðis rúmlega 78 prósentum af heildarhagnaði fyrirtækisins á árinu en hann nam 3,7 milljörðum norskra króna.
Þrátt fyrir þetta telur Salmar AS samt ekki að rekstur félagsins geti staðið undir þeirri auknu skattlagningu á fiskeldi sem norska ríkið hefur boðað.
Athugasemdir