Jón Gunnar Ottósson fyrrverandi forstjóri Náttúrufræðistofnunar segir að í raun sé verið að selja fólki gróðursetningu í staðinn fyrir kolefnisjöfnun hér á landi. Verið sé að blekkja fólk með sölu á kolefnisjöfnun með skógrækt.
„Það er í raun verið að selja því gróðursetningu. Það er verið að selja væntanlega kolefnisbindingu til langs tíma en það er ekki verið að selja kolefnisjöfnun eins og fólk heldur að það sé að kaupa. Það eru miklir peningar þarna á bak við.“
Þetta kom fram í máli Jóns Gunnars í Rauða borðinu á Samstöðinni í vikunni.
Kolefnisjöfnun ekki „vottorð til þess að menga meira“
Á vefsíðu Umhverfisstofnunar er kolefnisjöfnun skilgreind með eftirfarandi hætti samkvæmt lögum um loftslagsmál: „Þegar aðili hlutast til um aðgerðir annars aðila til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og/eða binda kolefni úr andrúmslofti og notar staðfestingu á slíkum samdrætti eða bindingu til að jafna út sína eigin losun að hluta eða öllu leyti.“
Umhverfisstofnun tekur sérstaklega fram að kolefnisjöfnun sé ekki „vottorð til þess að menga meira“ heldur eigi hún ávallt að koma í kjölfar aðgerða til samdráttar. Til þess að sporna gegn loftslagsbreytingum þurfi fyrst og fremst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að draga úr neyslu og þar með myndun úrgangs, endurvinna þann úrgang sem óhjákvæmilega fellur til, velja vistvænar samgöngur og loftslagsvænna mataræði, minnka matarsóun, nýta hluti betur og lengur og temja okkur orkusparnað.
Verið að veita falskar upplýsingar
Jón Gunnar segir í viðtalinu að allir viti að tré binda kolefni en það taki tíma. „Og eins og þessi verkefni eru sett upp þá er verið að veita svo falskar upplýsingar. Þessi verkefni sem annars vegar er verið að selja sem nytjaskórækt og hins vegar kolefnisbindingarskógrækt sem jafnvel getur skilað sér í miklum ágóða með ræktun það sem við köllum kolefniseininga sem gætu farið á alþjóðlegan markað en þetta er allt sett fram á svo fölskum forsendum.“
Hann tekur sem dæmi að á sumum langferðabílum standi að þeir séu kolefnisjafnaðir. „Ég er að lesa um það að Icelandair sé að selja fólki gróðursetningar og segja að þær kolefnisjafni flugferðirnar. Toyota er að selja með sama hætti og svo mætti áfram telja. Það eru alls konar spegúlantar að græða á þessu fyrirbæri en ef við skoðum málið mjög nákvæmlega þá sjáum við að gróðursetning í dag er ekki að skila bindingu fyrr en eftir 50 til 80 ár.“
Jón Gunnar bendir á að ríkisstjórnarmarkmið er varða loftslagsmál séu miðuð við árin 2030 og 2040 en það sem selt sé í dag skili nettólosun en ekki bindingu næstu 10 til 20 árin. Þá verði að taka inn í dæmið þá jarðvinnslu sem fylgir gróðursetningunni og vísindaleg gögn, hérlendis sem og erlendis, sem sýni að gróðursetning nái ekki að jafna út það sem manneskjan eyðir.
Þannig væri manneskja sem ætlaði að bæta vistspor sitt með því að kaupa gróðursetningu að auka losun í staðinn.
Ekkert annað en aflátsbréf
Kjarninn spjallaði við Jón Gunnar í byrjun árs 2021 og í því viðtali nefndi hann þetta málefni. Hann sagði að kolefnisjöfnun, það nýyrði sem fyrirtækjum væri þegar orðið tamt að nota í auglýsingum, væri ekkert annað en aflátsbréf. Syndaaflausn fyrir neytendur sem teldu sig meðvitaða en væru í raun að láta spila með sig. „Þetta gengur út á það að láta fólk kaupa einhverja hríslu svo það geti hagað sér eins og það vill,“ sagði Jón Gunnar. „En þetta er aldrei hugsað til enda. Skógur bindur hratt á meðan hann er að vaxa en svo kemur að því að hann bindur minna heldur en að hann andar. Skógur er eins og hver önnur lífvera. Hann eldist, hrörnar og deyr.“
Þegar hann var spurður hvað væri hægt að gera hvað varðar loftslagsmálin þá sagði hann að svarið væri einfaldlega að fara að haga sér allt öðruvísi. „Fara að draga úr losun í staðinn fyrir að auka hana endalaust og finna svo upp á einhverjum bindingaraðferðum. Þetta snýst allt um lífshætti í raun. Að vernda ákveðna lífshætti sem fólk telur sig eiga rétt á og ekki geta verið án.“
Heimatilbúnir staðlar sem ganga ekki upp
Jón Gunnar segir í Rauða borðinu að miklir peningar séu þarna undir. „Ef þú horfir á það sem er að gerast í dag þá eru útgerðarfélög að hoppa á þetta. Erlendir aðilar eru að kaupa jarðir vegna þess að kröfurnar sem hér eru gerðar til vottunar á þessum framkvæmdum til þess að fá viðurkenningu sem svona kolefniseigningar sem gætu farið í sölu standast ekki.“
Hann hrósar Skógræktinni þó fyrir að reyna að búa til vottunarkerfi vegna þess að halda þurfi utan um þessa hluti með einhverjum hætti. „Þeir byggja sína fyrirmynd á breskum staðli sem heitir Woodland Carbon Code en þeir aðlaga því „íslenskum aðstæðum“. Þessi aðlögun felst fyrst og fremst í því að draga úr kröfum. Hún dregur úr kröfum varðandi líffræðilega fjölbreytni og vernd náttúrunnar. Landið er einskis metið í rauninni – þannig að slíkir hlutir eru ekki teknir inn í dæmið svo þetta verður ódýrara,“ segir hann.
Hann segist aftur á móti viss um að þegar uppi er staðið eftir 30 til 40 ár þegar fyrirtækin ætla að fara að selja þessar kolefniseiningar sem þau fjárfesta í núna þá fái þær aldrei samþykki á alþjóðlegum mörkuðum vegna þess að alþjóðlegir staðlar séu ekki uppfylltir. „Við erum með heimatilbúna staðla sem ganga ekki upp.“
Þú þarft bara að lesa þér aðeins til. https://www.skogur.is/is/leit?q=kolefnisbinding
Hvort þang, þörungar eða annar sjávargróður sé skilvirkari eða "umhverfisvænni" (hvað sem það þýðir) veit enginn, því ekki veit ég til þess að nokkrar rannsóknir hafi farið fram á því hverju hann gæti skilað eða hvort hægt sé að auka vöxt sjávargróðurs á landgrunni Íslands með mannlegum inngripum.