Í stjórnarsáttmála þriggja flokka ríkisstjórnar Mette Frederiksen, sem var mynduð í kjölfar þingkosninga 1. nóvember 2022 kom fram að meðal stefnumála stjórnarinnar væri að afnema einn lögboðinn helgidag. Ekki var tilgreint hvaða helgidag væri um að ræða, það kæmi í ljós síðar.
Í Danmörku voru samtals 11 helgidagar og nú stefndi stjórnin að því að þeir yrðu framvegis 10.
Helgidagarnir 11 voru: Nýársdagur, skírdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, annar í páskum, kóngsbænadagur (store bededag), uppstigningardagur, hvítasunnudagur, annar í hvítasunnu, jóladagur, annar í jólum.
Stjórnmálaskýrendur dönsku fjölmiðlanna töldu að ef afnema ætti einn helgidag kæmu tveir dagar til greina. Annarsvegar annar í hvítasunnu og hinsvegar store bededag, sem við köllum kóngsbænadag. Fleiri töldu að sá síðarnefndi yrði fyrir valinu. Sem kom á daginn.
Den store bededag
Við Íslendingar nútímans könnumst mætavel við dönsku helgidagana, enda þeir sömu og hér á landi, að kóngsbænadeginum frátöldum. Saga hans nær 337 ár aftur í tímann.
27. mars árið 1686 sendi Kristján konungur V frá sér tilskipun. Samkvæmt henni skyldi fjórði föstudagur ár hvert verða helgidagur, allsherjar iðrunar- og bænadagur í öllum löndum danska ríkisins.
Klukkan sex síðdegis daginn áður skyldi öllum kirkjuklukkum í konungsríkinu hringt, verslunum lokað og sömuleiðis krám (sem fyrirfundust engar hér á landi), allri vinnu skyldi hætt og almenningur til guðshúss ganga, eins og það var orðað, og leggjast á bæn um drottins náð. Hvers kyns gleðskapur var bannaður frá því kirkjuklukkunum var hringt og þangað til messur væru yfirstaðnar á bænadeginum. Með þessu móti átti að tryggja að allir gætu tekið edrú á móti guðsorðinu, en þá lauk jafnframt föstunni sem staðið hafði síðan kvöldið áður.
Hugmyndina að bænadeginum, sem heitir réttu nafni ekstraordinær, almindelig bededag, sem fékk fljótlega nafnið store bededag, átti Hans Bagger (1645- 1693) biskup á Sjálandi. Hann hafði jafnframt samið sérstaka bæn sem flutt skyldi í öllum kirkjum landsins. Hans Bagger vildi reyndar að hinir sérstöku bænadagar yrðu þrír (ekki í samfellu) en einungis einn var staðfestur með lögum.
Kóngsbænadagur
Á 17. öldinni voru fjarskipti með öðrum hætti en í dag og tilskipun konungs, dagsett 27. mars 1686 barst ekki til Íslands fyrr en um miðjan júní sama ár en þá var komið vel fram yfir þann tíma sem miðað var við sem bænadag. Til að svíkjast ekki undan tilskipun hans hátignar var bænadagurinn fyrst haldinn hátíðlegur hér á landi 27. ágúst þetta sama ár. Íslendingum þótti danska heitið á þessum helgidegi óþjált og þá skaut nafnið kóngsbænadagur upp kollinum. Nafnið var dregið af því að þessi dagur varð helgidagur að konunglegri skipan. Ekki voru allir jafn glöggir á þessu með konunglegu tilskipunina og algengt var að Íslendingar teldu að á þessum degi skyldi beðið sérstaklega fyrir kónginum, sem raunar var gert við hverja guðsþjónustu.
Árið 1893 var á Alþingi lagt fram frumvarp sem gerði ráð fyrir fækkun helgidaga. Frumvarpið tók til kóngsbænadags, skírdags, annars í páskum, uppstigningardags og annars í hvítasunnu. Eftir miklar umræður lauk málinu með því að þingið samþykkti að „kóngsbænadagur er úr lögum numinn sem helgidagur“. Þar með hvarf hann af íslenska helgidagalistanum.
253 ár síðan helgidagur var aflagður í Danmörku
Árið 1770 var ár hinna aflögðu helgidaga í Danmörku. Þá voru lagðir af hvorki meira né minna en ellefu helgidagar. Síðan eru 253 ár án þess að svo mikið sem helgur dagpartur hafi verið aflagður. Fyrir allmörgum árum var í danska þinginu, Folketinget, nefnd sú hugmynd að leggja af den store bededag. Hugmyndin fékk litlar undirtektir og þar við sat.
Eins fyrr var nefnt var tekið fram í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að aflagður skyldi einn helgidagur. Og rétt eins og margir höfðu reiknað út var það store bededag sem til stóð að fella niður sem helgidag. 2. febrúar sl. hófust umræður í þinginu um frumvarp stjórnarinnar.
Af hverju að leggja þennan helgidag af?
Svarið við þessari spurningu var einfalt: til að afla meiri tekna fyrir samfélagið, það er að segja ríkiskassann. Samkvæmt útreikningum fjármálaráðuneytisins myndi þessi „auka“ dagur skila ríkissjóði 3 til 4 milljörðum króna (60- 80 milljörðum íslenskum) árlega. Og hvað á að gera við þá var spurt í þinginu. Fyrst voru svör ráðherra þau að þessar tekjur yrðu notaðar til að greiða aukin útgjöld hersins, sem ekki myndi af veita, eins og komist var að orði. Síðar breyttust svörin og nefnt að hluti peninganna færu til að styrkja velferðarsamfélagið og einnig til umbyltingar í orkumálum (den grønne omstilling).
Hvað næst, kannski að slaufa föstudeginum langa og láta tekjur þess dags renna til heilbrigðiskerfisins, eða láta skírdaginn róa og nota peningana sem þá kæmu í ríkiskassann renna í umbætur í skólamálum? Spurningar af þessu tagi mátti lesa á netmiðlunum. Forsætisráðherra sagði af og frá að til greina kæmi að fella niður fleiri helgidaga.
Mikil andstaða almennings
Eftir að frumvarpið um að leggja store bededag af var kynnt í þinginu og fjölmiðlum vakti það mikla athygli meðal almennings og fjölmargar spurningar vöknuðu. Meðal annars hvort þarna ætti að bætast við ólaunaður vinnudagur, hvort gert væri ráð fyrir store bededag, sem frídegi í kjarasamningum og yrði hann þá launaður sem hrein aukavinna? Þessar spurningar og margar aðrar dundu á ráðherrum, mörgum þótti svörin óljós, þetta væri úrlausnarefni var gjarna svarið.
Skoðanakannanir sýndu að mikill meirihluti landsmanna var andvígur því að store bededag yrði felldur niður sem helgidagur. Það kom kannski ekki sérstaklega á óvart að launafólk væri þessu andsnúið en að atvinnurekendur lýstu sig sömuleiðis mótfallna þessari breytingu kom mörgum á óvart. Kirkjunnar fólk var andsnúið breytingunni og bent var á að store bededag var einn helsti fermingardagur í landinu ár hvert. En þetta breytti engu, ríkisstjórnarflokkarnir virtust staðráðnir í að standa fast við þá ákvörðun að store bededag yrði felldur niður. Samkvæmt frumvarpinu tæki breytingin gildi á næsta ári og föstudaginn 5. maí nk. lyki því 337 ára sögu þessa helgidags yrði frumvarpið að lögum.
Hart tekist á í þinginu
28. febrúar var komið að atkvæðagreiðslu í þinginu. Umræður stóðu í rúma fjóra tíma áður en atkvæði voru greidd. Umræður er kannski ekki rétta lýsingin því andstæðingar frumvarpsins voru einir um að stíga í pontuna, hvorki ráðherrar né aðrir úr stjórnarflokkunum tóku til máls.
Þegar til atkvæðagreiðslunnar kom studdu 95 þingmenn frumvarpið en 68 voru á móti. 16 voru fjarverandi eða greiddu ekki atkvæði, en samtals eru þingmenn 179. Stjórnarandstæðingar voru ekki af baki dottnir og reyndu að beita sérákvæði í stjórnarskránni. Það ákvæði gerir ráð fyrir að hægt sé að senda samþykkt lagafrumvarp í þjóðaratkvæðagreiðslu. Til þess þarf stuðning 60 þingmanna. Ekki reyndist nægur stuðningur við þessa tillögu meðal þingmanna og þar með lögðu stjórnarandstæðingar árar í bát.
Rétt er að nefna að Færeyjar og Grænland eru undanþegin lögunum, þar verður store bededag áfram við lýði.
Kannski ekki öll sagan sögð, alls staðar
Eins og nefnt var framar í þessum pistli var yfirgnæfandi hluti almennings andsnúinn því að leggja store bededag af. Í sumum bæjarfélögum hafði meirihluti bæjarfulltrúa lýst sig andsnúna ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
Þótt einungis séu örfáir dagar síðan frumvarpið var samþykkt í þinginu eru þegar farnar að heyrast raddir um að viðhalda store bededag sem frídegi, þótt hann verði ekki helgidagur. Eitt þeirra sveitarfélaga þar sem stuðningur er við slíkt fyrirkomulag meðal meirihluta borgarstjórnar er Kaupmannahöfn. Þá gæti komið upp sú staða að þeir sem starfa hjá borginni verði í fríi þennan dag, en starfsmenn ríkisfyrirtækja verði að mæta til vinnu.
Athugasemdir