Íslandsbanki tjáir sig ekki um hvernig vinnu bankans við að setja fram skýringar sínar og sjónarmið, vegna frummats fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um ætluð lögbrot, miðar. Í ársreikningi bankans var boðað að þeirri vinnu yrði lokið fyrir miðjan febrúar en svo virðist sem sú áætlun hafi ekki staðist.
Um er að ræða skýringar og sjónarmið bankans vegna þess mats Fjármálaeftirlitsins (FME) að lög og reglur hafi verið brotin við framkvæmd á sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins í bankanum í mars 2022. Salan fór fram í lokuðu útboði og fengu aðeins þeir sem skilgreindir voru sem fagfjárfestar að taka þátt í því, alls 207 aðilar. Þar af voru átta starfsmenn bankans sjálfs eða makar þeirra. Með rannsókn FME hefur komið fram að bankinn sjálfur, sem var einn söluráðgjafa ríkisins við framkvæmd útboðsins, hafi skilgreint í það minnsta hluta starfsmannanna sem fagfjárfesta.
Heimildin upplýsti í janúar að rannsókn FME snúi einkum að þátttöku þessara starfsmanna og aðilum þeim tengdum í útboðinu. Rannsókn FME beinist þá meðal annars að því hvort að það hafi verið rétt mat bankans að skilgreina starfsmennina sem fagfjárfesta og virðist ekki ljóst að svo hafi verið. Þannig keyptu einstakir starfsmenn fyrir lágar upphæðir það benda til að bankinn og starfsmennirnir hafi ekki reiknað með að listi yfir kaupendur yrði gerður opinber.
„Eins og ég nefndi að ofan þá viljum við ekki tjá okkur um þetta á meðan ferlinu stendur“ Upplýsingafulltrúi Íslandsbanka
Þá sagði forstjóri Bankasýslu ríkisins í fjölmiðlum í apríl á síðasta ári að bankanum hefði verið ljóst að starfsmenn hans hefðu verið þátttakendur í útboðinu. Viðlíka viðgengist ekki erlendis.
Bankinn birti ársreikning sinn 9. febrúar síðastliðinn og er í honum gert ráð fyrir að bankinn þurfi að greiða stjórnvaldssekt vegna brotanna. Ekki er greint frá því hvaða upphæð bankinn hefur tekið til vegna þess, en sú upphæð hefur heldur ekki verið ákveðinn enn sem komið er.
Í ársreikningnum er fjallað um frummat FME á ætluðum brotum bankans við söluferlið. Þar segir að bankinn hafi þegar sett fram hluta skýringa sinna og sjónarmiða „og mun ljúka því fyrir miðjan febrúar og væntir viðbragða FME í kjölfar þess.“
Heimildin sendi fyrirspurn á Íslandsbanka síðastliðinn mánudag og óskaði svara við því hvort bankinn hefði lokið umræddri vinnu og sett fram skýringar sínar. Sömuleiðis var spurt hvenær það myndi verða, hefði bankinn ekki lokið við þá vinnu. Í svari Eddu Hermannsdóttur, samskiptastjóra Íslandsbanka, sagði að bankinn myndi ekki tjá sig á meðan að á ferlinu stæði. Þegar fyrirspurnin var ítrekuð og spurt hvort lesa mætti úr svarinu að vinnu við að setja fram sjónarmið bankans væri ekki lokið, svaraði Edda: „Eins og ég nefndi að ofan þá viljum við ekki tjá okkur um þetta á meðan ferlinu stendur.“
Athugasemdir (1)