Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja mælist 39 prósent samkvæmt nýjustu könnun Maskínu og hefur ekki mælst minna á kjörtímabilinu.
Samfylkingin er með 23 prósent fylgi, mest allra flokka. Þar á eftir kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 20 prósent fylgi. Munurinn á fylgi flokkanna er þó innan skekkjumarka. Svo var ekki þegar Samfylkingin mældist með 25,3 prósent fylgi í könnun Gallup sem birtist í byrjun febrúar og er það í fyrst sinn síðan 2009 sem flokkurinn mælist stærstur.
Fylgi flokksins hefur farið hratt upp á við eftir að Kristrún Frostadóttir tilkynnti um formannsframboð í Samfylkingunni í ágúst 2022, en hún var kjörin formaður flokksins í október. Í könnun Maskínu mælist Samfylkingin nú með 13,1 prósentustigi meira fylgi en flokkurinn fékk í kosningunum í september 2021.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 20 prósent fylgi, 4,4 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í síðustu Alþingiskosningum. Framsóknarflokkurinn mælist með 12 prósent fylgi, 5,3 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í kosningunum haustið 2021. Vinstri græn mælast með 7 prósent fylgi, 5,6 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í kosningunum.
Ríkisstjórnin hefur ekki mælst með jafn lítið fylgi á kjörtímabilinu eins og nú, 39 prósent. Samanlagt fengu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn 54,4 prósent atkvæða í þingkosningunum í september 2021. Stuðningur við ríkisstjórnina eftir kosningar hefur mest mælst 50,9 prósent, í mars 2022, og í júlí sama ár mældist stuðningurinn 50,2 prósent.
Könnunin fór fram á netinu 3. til 13. febrúar og var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem dregin er með tilviljun úr Þjóðskrá. Svarendur voru alls staðar af á landinu, 18 ára og eldri. 1.892 svarenur tóku afstöðu til flokks.
Athugasemdir (3)