Samninganefnd Eflingar segir að með verkbanni á 21 þúsund Eflingarfélaga, sem samþykkt var í allsherjaratkvæðagreiðslu í dag, hafi atvinnurekendur fært vinnudeilu sína við stéttarfélagið á nýtt og mun alvarlegra stig en afmarkaðar verkfallsaðgerðir Eflingarfélaga hafi nokkurn tíma gert. „Ákvörðun um verkbann er þvingunaraðgerð, langt fram úr öllu meðalhófi. Samtök atvinnulífsins bera alla ábyrgð á þeirri ákvörðun og afleiðingum hennar, ekki Efling. Verkbannið er í samræmi við þá ósæmilegu afstöðu sem SA hafa til kjaraviðræðna við Eflingu, sem er að virða ekki í reynd sjálfstæðan samningsrétt félagsins og ástunda ekki samningaviðræður í góðri trú. Þess í stað styðjast SA eingöngu við þvingunaraðgerðir, þar sem treyst er beint og óbeint á inngrip ríkisvaldsins og stofnana þess.“
Þetta kemur fram í ályktun sem samninganefndin samþykkti í kvöld, en fyrr í kvöld lá fyrir að boðað verkbann atvinnurekenda innan Samtaka atvinnulífsins var samþykkt með 95 prósent greiddra atkvæða. Það á að hefjast eftir viku og er ótímabundið.
Í ályktuninni segir að samninganefnd Eflingar styðji þá afstöðu stjórnar vinnudeilusjóðs félagsins að ekki verði greitt úr sjóðnum vegna launataps sem orsakast af verkbanni atvinnurekenda. Verkbann atvinnurekenda sé á þeirra ábyrgð, ekki Eflingar, og þeim beri að veita starfsfólki sínu skýringar á því hvers vegna þeir telji rétt og nauðsynlegt að reka þau heim launalaus úr vinnu, hyggist þeir gera það. „Efling hefur fengið staðfest að margir atvinnurekendur hafa tilkynnt starfsfólki sínu um að þeir muni ekki framfylgja verkbanni. Jafnframt hafa SA gefið út að þau muni ekki stunda eftirlit til að þrýsta á um framfylgd verkbannsins. Þetta staðfestir að ákvörðun um að reka starfsfólk sitt heim launalaust er á ábyrgð hvers og eins atvinnurekanda.“
Samninganefnd Eflingar hvetur félagsfólk til að ganga á eftir atvinnurekendum sínum um skýr svör við því hvort verkbanni verði fylgt og hvaða réttlætingar atvinnurekandinn gefi upp fyrir því.
Stjórn vinnudeilusjóðs Eflingar samþykkti líka einróma ályktun á fundi sínum í kvöld. Í henni segir að hún muni hvorki auglýsa eftir né taka við umsóknum vegna tekjutaps félagsmanna sem hlotnast af fyrirhuguðu verkbanni atvinnurekanda. „Atvinnurekendur bera alla ábyrgð á þeirri skömm að reka fólk launalaust heim. Vinnudeilusjóður Eflingar verður ekki nýttur til að niðurgreiða það pólitíska níðingsverk.“
Athugasemdir (1)