Traust til Alþingis hríðfellur milli ára, alls um ellefu prósentustig, og mælist nú 25 prósent. Alþingi er í þriðja neðsta sæti yfir þær stofnanir sem almenningur treystir minnst.
Þær einu sem eru þar fyrir neðan eru bankakerfið, sem 18 prósent treysta, og borgarstjórn Reykjavíkur, sem nýtur einungis trausts 13 prósent aðspurðra. Traust til bankakerfisins hefur ekki mælst minna síðan 2017 og borgarstjórn hefur einungis einu sinni mælst með minna traust, á árinu 2008, þegar það mældist níu prósent.
Það er í eina skiptið sem stjórnvald hefur mælst með undir tíu prósent traust í mælingum Gallup. Þá hafði gengið mikið á í borgarstjórn en alls fjórir meirihlutar sátu við völd það kjörtímabil.
Traustið lagaðist hægt og rólega og árin 2014 og 2015, við lok borgarstjórnarferils Jóns Gnarr og við upphaf borgarstjórnarferils Dags B. Eggertssonar, mældist það 31 prósent. Það hefur hins vegar dalað hratt á undanförnum árum.
Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup þar sem traust til helstu stofnana samfélagsins er mælt.
Einungis tvær stofnanir sem mældar eru bæta lítillega við sig trausti milli ára: Landhelgisgæslan sem 90 prósent treysta og Ríkissáttasemjari sem nýtur trausts 51 prósent aðspurðra. Aðrar tapa trausti milli ára.
Traust til Seðlabanka í frjálsu falli
Traust til Seðlabanka Íslands fellur einna mest, alls um 13 prósent milli ára, og mælist nú 39 prósent. Á tveimur árum hefur það fallið um 23 prósent en það mældist 62 prósent í lok árs 2021.
Traust til Seðlabankans mældist 31 prósent árið þegar Ásgeir Jónsson tók við starfi seðlabankastjór af Má Guðmundssyni, sem hafði gegnt því í áratug. Auk þess var Fjármálaeftirlitið sameinað Seðlabankanum í byrjun árs 2020. Milli 2019 og 2021 tvöfaldaðist traust til bankans, og fór upp í 62 prósent. Stýrivextir lækkuðu mikið framan af stjórnartíð Ásgeirs og voru 0,75 prósent, sem er það lægsta sem þeir höfðu nokkru sinni verið.
Sú lækkunarhrina leiddi til þess að fjármagnskostnaður heimila og fyrirtækja lækkaði mikið. Stóraukin verðbólga, sem nú stendur í 9,9 prósent, hefur hins vegar leitt af sér skarpa hækkun á stýrivöxtum með tilheyrandi viðbótarkostnaði fyrir heimili og fyrirtæki. Þeir eru nú 6,5 prósent.
Samhliða hefur traust til Seðlabankans hrunið niður undir 40 prósent að nýju.
Heilbrigðiskerfið í traustvanda
Traust til heilbrigðiskerfisins dregst líka mikið saman milli ára, eða um 14 prósentustig og er nú 57 prósent. Það er minnsta traust sem mælst hefur til heilbrigðiskerfisins síðan 2016.
Traust til lögreglunnar fellur um níu prósent milli ára og mælist 69 prósent og traust til umboðsmanns Alþingis fellur um fimm prósent milli ára. Traust til annarra stofnana en ofangreindra fellur um minna en fimm prósentustig milli ára.
Fyrir utan Landhelgisgæsluna mælist mest traust til embættis forseta Íslands og Háskóla Íslands, sem 73 prósent aðspurðra treysta.
Athugasemdir (1)