Nærsamfélag Skeiða- og Gnúpverjahrepps mun njóta mjög takmarkaðs ávinnings af orkuframleiðslunni sem hlýst af fyrirhugaðri Hvammsvirkjun á meðan efnahagslegur ávinningur mun koma fram þar sem orkan er nýtt. Hvammsvirkjun mun því ekki þjóna hagsmunum Skeiða- og Gnúpverjahrepps til framtíðar í óbreyttri mynd.
Þetta sýna tölulegar staðreyndir sem eru hluti af greiningarvinnu sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps um áhrif orkuframleiðslunnar á nærumhverfi íbúa, og áhrif á nærsamfélags orkuframleiðslu almennt.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps lagði fram bókun á fundi sínum í gær þar sem hún hvetur öll sveitarfélög á landsbyggðinni sem hafa orkumannvirki í nærumhverfi sínu, eða eru með hugsanleg virkjanaáform í farvatninu, til þess að staldra við í skipulagsmálum virkjana á meðan sanngjörn skipting auðlindarinnar verður fest í lög. „Með öðrum kosti verða engin orkuskipti á Íslandi í náinni framtíð,“ segir meðal annars í bókuninni.
Orkustofnun gefur grænt ljós og Landsvirkjun sækir um framkvæmdaleyfi
Hvammsvirkjun, virkjun sem deilt hefur verið um í árafjöld, verður 95 MW að afli. Áin verður stífluð með 350 metra langri og allt að 18 metra hárri jarðvegsstíflu og við hana mun myndast fjögurra ferkílómetra lón.
Hvammsvirkjun er stóru skrefi nær því að verða að veruleika með virkjunarleyfi Orkustofnunar sem gefið var út í byrjun desember. Á aðfangadag var greint frá því að Landsvirkjun hefur sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarfélaganna tveggja sem virkjunin yrði innan; Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra. Samhliða framkvæmdaleyfinu verða útboð framkvæmdaþátta undirbúin. Þá þarf einnig samþykki stjórnar Landsvirkjunar fyrir framkvæmdinni áður en hægt er að hefjast handa.
Ef öll þessi mál fá jákvæða umfjöllun gæti bygging virkjunarinnar, sem yrði sú sjöunda á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, hafist í sumar. Landsvirkjun vonast til að virkjunin verði komin í gagnið 2026.
Tryggja þarf í lögum að nærumhverfi njóti efnahagsleg ávinnings
Í bókun sveitarstjórnarinnar er það gagnrýnt að ekkert samtal hefur átt sér stað á milli ríkis og sveitarfélaga sem þurfa að skipuleggja og heimila framkvæmdirnar. „Það er staðreynd að nærumhverfið þar sem orkan er framleidd nýtur mjög takmarkaðs ávinnings af henni.“ Sveitarstjórnin vill að tryggt verði með lögum að nærumhverfið þar sem orkan á uppsprettu sína njóti efnahagslegt ávinnings sem mun styrkja byggð þar sem orkan verður til um allt land. Einnig þurfi að breyta raforkulögum til að tryggja að dreifikostnaður raforku sé sá sami í dreifbýli og þéttbýli.
Bókun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps í heild sinni:
„Ríkisstjórn Íslands setti í stjórnarsáttmála sinn aðgerðir um orkuskipti og útfösun jarðefnaeldsneytis, þar sem grunnur er lagður að fullum orkuskiptum, að þeim verði náð eigi síðar en árið 2040 og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst þjóða. Hvammsvirkjun er einungis fyrsta skrefið af mörgum í gríðarlegum áformuðum virkjanaframkvæmdum Landsvirkjunar í nærumhverfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps á næstu 17 árum.
Ekkert samtal hefur átt sér stað á milli ríkis og sveitarfélaga sem þurfa að skipuleggja og heimila allar þessar framkvæmdir. Það er staðreynd að nærumhverfið þar sem orkan er framleidd nýtur mjög takmarkaðs ávinnings af henni.
Tryggja þarf með lögum að nærumhverfið þar sem orkan á uppsprettu sína, njóti efnahagslegs ávinnings sem mun styrkja byggð þar sem orkan verður til um allt land. Einnig þarf að breyta raforkulögum til að tryggja að dreifikostnaður raforku sé sá sami í dreifbýli og þéttbýli.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hvetur öll sveitarfélög á landsbyggðinni sem hafa orkumannvirki í nærumhverfi sínu, eða eru með hugsanleg virkjanaáform í farvatninu til þess að staldra við í skipulagsmálum virkjana á meðan sanngjörn skipting auðlindarinnar verður fest í lög. Með öðrum kosti verða engin orkuskipti á Íslandi í náinni framtíð.“
Athugasemdir