Strandveiðifélag Íslands þakkar fyrir þann góða fund um stefnu um sjávarútveg sem haldinn var á vegum Matvælaráðherra, og fyrir tækifærið til þess að hlusta á þá vinnu sem starfshóparnir í Auðlindinni okkar hafa innt af hendi. Við gerum okkur grein fyrir því að vinnan er eingöngu hálfnuð, en erum með nokkrar spurningar sem við teljum nauðsynlegt að fá svar við áður en ráðist er í seinni hálfleik. Þetta er okkur, að sjálfsögðu, mikið mál þar sem flestar af þeim róttæku breytingum sem stungið er upp á snúa að félagslega kerfinu og strandveiðum.
Það var alls óljóst, út frá framsögum og svörum við spurningum, hver eiginleg grundvallarmarkmið starfshópanna eru. Stundum töluðu frummælendur um sátt, en stundum um hámörkun verðmæta. Gunnar Haraldsson, formaður starfshópsins Samfélag, hóf framsögu sína á því að segja að meginstef hans starfshóps væri að „Skapa sátt um sjávarútveg“. Hann viðurkenndi þó að nefndin væri hvorki búin að skilgreina „sátt“ í þessu samhengi, né hvert samband þessarar sáttar væri við kröfuna um að „hámarka afrakstur af nýtingu auðlindarinnar“. Eins var áberandi að þegar Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður starfshópsins Aðgengi, lagði fram tvær meginleiðir sem verið væri að skoða í fiskveiðistjórnunarkerfinu, þá var það undir þeim formerkjum að hámarka verðmæti, ekki til að stuðla að sátt. Það er algjört grundvallaratriði að hafa skýran og vel skilgreindan útgangspunkt fyrir mikilvægu verkefni af þessari stærðargráðu. Það er ógjörningur að leggja af stað í vinnu við að gera stórtækar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu þegar meginmarkmið eru óljós og flöktandi.
Umræður um kvótakerfið og félagslega kerfið voru óljósar. Í framsögu Eggerts þóttumst við greina hlutdrægni kvótakerfinu í hag. Lausnin sem hann lagði fram um afnám félagslega kerfisins var sett fram á mjög jákvæðum nótum, þar sem staðhæft var að sú leið að afnema félagslega kerfið og leggja það inn í kvótakerfið væri jafnvel best til þess að ná félagslegum markmiðum. Aftur á móti sagði hann að það þyrfti að endurskoða þau markmið sem reynt væri að ná fram með strandveiðikerfinu á grundvelli þess að þeim markmiðum hafi ekki verið náð. Þetta er loðin staðhæfing sem gæti þýtt hvað sem er. Mikilvægt er að það sé kýrskýrt hver réttlætingin er ef leggja á niður strandveiðikerfið.
Við tókum eftir því að lítil sem engin útskýring var gefin á þeirri aðferðafræði sem stuðst var við til að afla gagna, greina gögn, og komast að niðurstöðum. Það var því erfitt að átta sig á því hvaðan niðurstöðurnar komu og hvaða gögn liggja þar að baki. Til þess að verkefni sem þetta nái tilsettum árangri er það grundvallarforsenda að huga vel og vandlega að vali á aðferðafræði. Ef aðferðir eru valdar sem ekki eru vel til þess fallnar að skoða það sem skoða á er hætta á því að niðurstöður endurspegli ekki raunveruleikann. Enn fremur gefur greinargóð útskýring á aðferðum verkefnis lögmæti og trúverðugleika, þar sem lesendi/áheyrandi fær greinargóða skýringu á nálgun og aðferðum sem niðurstöður byggja á. Af þessum sökum voru fullyrðingar gjarnan settar fram án þess að áheyrendur hefðu forsendur til að meta réttmæti þeirra.
Sumar fullyrðingar voru einfaldlega og sannanlega rangar. Þar ber helst að nefna þá fullyrðingu um að upprunalegur tilgangur strandveiðikerfisins hafi verið að skapa sátt um fiskveiðistjórnunina. Hið rétta er að kerfinu var komið á til þess að uppfylla skyldur íslenska ríkisins um alþjóðleg mannréttindi, samkvæmt áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna nr. 1306/2004. Þetta er mikilvægt atriði, því strandveiðikerfinu var ekki komið á sökum góðvildar stjórnvalda og ósk um að stuðla að sátt, heldur vegna þess að án þess væri íslenska ríkið að brjóta alþjóðleg lög um mannréttindi. Verði kerfið lagt af, eins og ein tillagan stingur upp á, þá verður það gert þvert á úrskurð Sameinuðu þjóðanna.
Að lokum má beina sjónum að því sem ekki kom fram á fundinum. Enginn framsögumanna nefndi kolefnisspor. Þegar spurning kom fram um olíunotkun ólíkra skipa var svarið einfaldlega að við vitum það ekki. Strandveiðimenn bíða spenntir eftir rannsóknum á þessu. Lítið var talað um gæði hráefnis eftir veiðarfærum, og aftur var svarið við spurningu þar að lútandi að þær upplýsingar liggja ekki fyrir. Engu að síður virtust sumir nefndarmenn eiga auðvelt með að tala út frá því sem fyrirframgefnum forsendum að kvótakerfið sé best til þess fallið að hámarka verðmæti, þrátt fyrir það að ein dýrasta varan sem fæst í fiskbúðum heims sé íslenskur þorskur veiddur á krók.
Með þessi atriði í huga viljum við spyrja eftirfarandi spurninga:
-
Hvert er meginmarkmið starfshópanna?
-
Er meginmarkmiðið að stuðla að sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið? Ef svo er, hvernig er sú sátt skilgreind, og hvernig skal mæla hvort tillögurnar stuðli að aukinni sátt samkvæmt þeirri skilgreiningu?
-
Er meginmarkmiðið að hámarka verðmæti af auðlindinni? Ef svo er, hvernig er „hámörkun verðmæta“ skilgreind og mæld? Í störfum? Skattheimtu? Arðsemi fyrirtækja?
-
Varðandi starfshópana um aðgengi og samfélag:
-
Hvaða aðferðafræði var notuð til þess að safna gögnum, greina gögn, og draga ályktanir út frá þeim? Hvernig mun valið á aðferðafræðilegri nálgun hjálpa starfshópunum að ná meginmarkmiðum sínum?
-
Munu starfshóparnir gera grein fyrir því hvernig komist var að niðurstöðum, og gera þann vitnisburð sem starfshópunum berast opinberan?
-
Eggert lagði fram tvær meginleiðir til að hámarka verðmætin: A) eitt heildstætt kerfi án potta og B) endurskoðun á félagslega kerfinu.
-
Hvernig var komist að þeirri niðurstöðu að leggja mögulega niður félagslega (5,3%) kerfið og færa það inn í kvótakerfið?
-
Hver er grundvöllurinn fyrir þeirri fullyrðingu að félagslegum markmiðum yrðu betur náð „með fjárhagslegum stuðningi við sjálfbæran atvinnurekstur og samfélagslega innviði“ heldur en með 5,3% kerfinu? Hvaða gögn liggja að baki þessari staðhæfingu?
-
Hvers vegna var horfið frá þeirri hugmynd sem viðruð var í bráðabirgðaskýrslunni að almennur byggðakvóti (tillaga 19) og skel- og rækjubætur og línuívilnun (tillaga 20) yrðu færðar í sértæka byggðakvóta og/eða strandveiðar, yfir í það að færa þær heimildir eingöngu yfir í sértæka byggðakvóta?
-
Hvers vegna voru eingöngu lagðar fram þessar tvær leiðir, þar sem margar aðrar leiðir hafa verið viðraðar? Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar frá Vinstri grænum um að stækka í áföngum félagslegan hluta kerfisins úr 5,3% upp í 8,3%. Eins hefur Viðreisn lagt til að ákveðinn hluti kvótans verði settur á markað á hverju ári og seldur sem nýtingarsamningar til ákveðins tíma. Hvers vegna eru þessar tillögur ekki teknar til skoðunar?
-
Við hvað er átt þegar fullyrt er að það þurfi að endurskoða þau markmið sem reynt var að ná fram með strandveiðikerfinu? Hvers vegna þarf að endurskoða markmið strandveiða en ekki kvótakerfisins?
-
Hvers vegna var engin úttekt á gæðum afla ólíkra veiðarfæra í kynningum starfshópanna? Við tókum eftir því í bráðabirgðaskýrslunni að smábátar, sem framleiða verðmætustu og eftirsóttustu sjávarafurðirnar, voru gagnrýndir sérstaklega varðandi meðferð á afla. Hvers vegna?
-
Það vakti furðu að kolefnisspor ólíkra báta var ekki rætt í framsögum, en í bráðabirgðaskýrslunni voru grænustu og umhverfisvænustu veiðarnar teknar út fyrir sviga þegar rætt er um kolefnisspor. Hver var ástæðan fyrir því?
Strandveiðifélag Íslands er mjög hlynnt því að Matvælaráðuneytið hafi lagt af stað í þessa vinnu og vill fá að styðja við bakið á starfshópunum eins og unnt er. Við höfum þó áhyggjur af því að trúverðugleiki þessa verkefnis bíði hnekki ef ekki fást svör við spurningunum hér að ofan. Þetta verkefni er of mikilvægt og það er of mikið í húfi til þess að vinna starfshópanna strandi á óljósum markmiðum og aðferðum.
Virðingarfyllst,
Kjartan Páll Sveinsson, f.h. Strandveiðifélags Íslands.
Athugasemdir (3)