Olof Palme forsætisráðherra Svía, var fyrstur til að fjalla um vistmorð (e. ecocide) sem glæp. Það var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Stokkhólmi 1972. Í ræðu sinni vísaði hann í víðtæka notkun gróðureyðisins „Agent orange“ sem Bandaríkjaher sprautaði með hörmulegum afleiðingum á stór svæði í Víetnam. Síðar, þegar umræða hófst um að glæpavæða þjóðarmorð, kom einnig til tals að hafa vistmorð með í alþjóðlegum sáttmála Sameinuðu þjóðanna, Rómarsáttmálanum, sem var samþykktur 1998. Hundrað tuttugu og þrjár aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna hafa staðfest sáttmálann og er Ísland þar á meðal. Þetta er stofnsáttmáli Alþjóðaglæpadómstólsins í Den Hague í Hollandi, en hann var settur á fót til að framfylgja Rómarsáttmálanum. Þegar sáttmálinn var lagður fram til samþykktar var vistmorð ekki lengur með vegna mótmæla nokkurra evrópskra olíuríkja. Hins vegar voru frá byrjun þjóðarmorð, glæpir gegn mannkyni og stríðsglæpir tilgreindir. Seinna bættist við glæpir gegn friði (e. crimes of aggression) sem fjórði glæpurinn.
„Þegar sáttmálinn var lagður fram til samþykktar var vistmorð ekki lengur með vegna mótmæla nokkurra evrópskra olíuríkja“
Baráttumál Polly Higgins
Frá aldamótum hefur víðtæk umræða farið fram um að bæta vistmorði við sem fimmta glæpnum í Rómarsáttmálann. Þar fór fyrir breski lögfræðingurinn Polly Higgins sem hóf baráttuna fyrir því að vistmorð yrði skilgreint sem glæpur. Hún benti á að fólk og fyrirtæki hafi lagaleg réttindi, en ekki náttúran – og ákvað að verða lögfræðingur jarðarinnar. Ég bauð Polly til Íslands 2014 og áttum við góðar samræður í Norræna húsinu – þar sem húsfyllir var. Þegar Polly lést fyrir aldur fram 2019 tók stór hópur fólks úti um allan heim við keflinu og hefur lyft grettistaki í tilraunum sínum til að koma hugtakinu um vistmorð á framfæri.
Framlag lögfræðinga á alþjóðlegum vettvangi
Árið 2020 óskaði hópur þingmanna í Svíþjóð eftir alþjóðlegri skilgreiningu á vistmorði í þeim tilgangi að bæta því inn í Rómarsáttmálann. Með styrk frá umhverfissjóði Gretu Thunberg, hófst umfangsmikil vinna 12 alþjóðlegra mannréttinda- og umhverfislögfræðinga og skilaði hópurinn frá sér tillögu að nýrri skilgreiningu 2021. Samkvæmt tillögunni merkir vistmorð „ólögmætar eða ósvífnar (e. wanton) athafnir sem framdar eru með vitneskju um að verulegar líkur séu á því að alvarlegt og annaðhvort víðtækt eða langvarandi tjón á umhverfinu verði af völdum þessara athafna“. Í þessu samhengi stendur „ósvífið“ fyrir kærulaust tillitsleysi fyrir tjóni sem væri greinilega óhóflegt miðað við þann félagslega og efnahagslega ávinning sem gert er ráð fyrir. Þessi skilgreining er nú notuð um vistmorð sem alþjóðlegan glæp.
Lög um vistmorð, Parísarsamkomulagið og velsældarhagkerfið
Árið 2021 vann ég með samstarfsmönnum í félagasamtökunum End Ecocide Sweden við að setja saman vísindalegan grunn um hvernig vistmorð sem glæpur getur bæði stutt baráttuna gegn loftslagsbreytingum og undirbyggt nýja og sjálfbæra haghugsun. Þær niðurstöður hafa nú verið birtar í skýrslum. Helstu ávinningar þess að skilgreina vistmorð með öðrum alþjóðlegum glæpum eru í fyrsta lagi að það mun veita alþjóðlega vernd fyrir lífkerfi jarðar sem hagkerfi heimsins er háð; í öðru lagi, það mun gera ólöglegar og ósvífnar athafnirnar mjög áhættusamar fyrir þá sem taka ákvarðanir; og í þriðja lagi, það jafnar samkeppnisskilyrði fyrir fyrirtæki sem kjósa sjálfbærari ferla og athafnir.
Fleira vinnst með því að skilgreina vistmorð sem glæp. Það mun stuðla að langtíma efnahagslegum stöðugleika og alþjóðlegu öryggi, vernda líffræðilega fjölbreytni, leggja grunn að því að uppfylla Parísarsamkomulagið, auk þess að snúa við þeirri staðreynd að við erum nú þegar komin yfir 5 af 9 mörkum jarðarinnar. Einnig mun vistmorð sem alþjóðlegur glæpur geta komið í veg fyrir ólöglega starfsemi sem tengist skipulagðri glæpastarfsemi.
Með alþjóðlegum lögum um vistmorð má haga ákvörðunum til samræmis við markmið heimsmarkmiðanna, sem og velsældarhagkerfis sem byggir á hringrás og auðgandi eða endurnýjandi aðgerðum. Það er staðreynd að efnahagskerfið byggist á vistkerfum náttúrunnar og þegar við röskum lögmálum náttúrunnar, þá röskum við jafnvægi efnahagskerfisins.
Ný heimsmynd
Glæpir sem skilgreindir eru í Rómarsáttmálanum bæta við og styrkja önnur lög, til dæmis landslög, félagarétt og einkarétt. Þær skilgreiningar marka ákveðin siðferðileg viðmið og nýja heimsmynd, það er það sem alþjóðasamfélagið telur með öllu óásættanlegt og verðskuldi refsingu fyrir dómi.
„Á sama tíma og almenningur úti um allan heim hefur varla eða ekki efni á að hita heimili sín vegna verðhækkana á jarðefnaeldsneyti skiluðu olíufyrirtæki methagnaði árið 2022“
Hitagráður, græðgi og samhengi hlutanna
Heimurinn er á heljarþröm. Ef við snúum ekki við nú þegar og helmingum útblástur fyrir 2030 eru miklar líkur á að ástandið fari alveg úr böndunum þar sem aðgerðir sem hefðu virkað fyrir 30 árum virka ekki árið 2030 því þá koma þær of seint. Eftir stendur ólífvænleg jörð fyrir komandi kynslóðir. En hver er fjárhagslega forsendan fyrir að breyta um vegferð? Sem dæmi má nefna að núverandi niðurgreiðslur fyrir jarðefnaeldsneyti á alþjóðavísu eru tvöfalt hærri (6 trilljónir bandarískra dollara á ári) en fjárfestingar sem þarf til að halda meðalhita loftslags undir 20 C. Þannig að fjármagn er nú þegar til í alþjóðlega heimshagkerfinu. Á sama tíma og almenningur úti um allan heim hefur varla eða ekki efni á að hita heimili sín vegna verðhækkana á jarðefnaeldsneyti skiluðu olíufyrirtæki methagnaði árið 2022. Til að mynda var eitt félag, Exxon, með 56 milljarða dollara hagnað – og greiddi hluthöfum út 30 milljarða dollara í arð. Í stað þess að niðurgreiða jarðefnaeldsneyti og byggja undir methagnað mengandi stórfyrirtækja er hægt að veita þessu fjármagni í orkuskipti- og tækniþróun úti um allan heim.
Lög um vistmorð: Áhætta og tækifæri
Vistmorð er áhætta aðeins fyrir örfáar atvinnugreinar sem valda mengun í stórum stíl. Sýnt hefur verið fram á að einungis um 100 fyrirtæki hafa valdið yfir 70% af útblæstri síðan 1988.
En tækifærin eru mörg. Með vistmorð sem glæp verða til grænar og jafnar leikreglur á vettvangi viðskiptalífsins um allan heim sem gerir fyrirtækjum með sjálfbærum starfsháttum kleift að verða arðbær. Í einni skýrslunni okkar höfum við eftir framkvæmdastjórum stórra sænskra fyrirtækja að lagalegur skýrleiki muni gera það auðveldara að reka sjálfbær viðskipti vegna þess að fyrirtæki kjósi að fylgja stöðluðum reglum til langs tíma. Auk þess halda þeir því fram að leiðandi fyrirtæki á heimsvísu verði leiðandi á markaði.
Vistmorð sem glæpur styður rekstur fyrirtækja sem hafa metnaðarfullar umhverfis- og samfélagsreglur (e. ESG og CSR). Borgarstjóri Pittsburgh í Bandaríkjunum hefur leitt borgina til að fjárfesta í framtíðinni í stað fortíðar. Vistmorð sem glæpur styður gagnlegar tæknibreytingar, t.d. endurnýjanlega orku, og skapar ný störf í sjálfbærri tækni – miklu fleiri störf en þau sem tapast.
Umræða um vistmorð er nú komin vel á veg hjá ríkisstjórnum og þingum landa í öllum heimsálfum, auk Norðurlandaráðs og Evrópusambandsins. Athyglivsert er að Evrópuráðið ákvað í lok janúar að „glæpavæða vistmorð á áhrifaríkan hátt“ og gera „áþreifanlegar ráðstafanir til að breyta Rómarsamþykkt Alþjóðaglæpadómstólsins með því að bæta vistmorði við sem nýjum glæp“.
Tillaga um að breyta Rómarsáttmálanum er einföld. Eitt ríki eða fleiri leggja fram tillögu um að vistmorð verði 5. glæpurinn í sáttmálanum. Um leið og 2/3 af þeim 123 ríkjum sem hafa samþykkt Rómarsáttmálann hafa staðfest breytingartillögunina, sem eru 82 ríki, er breytingartillagan samþykkt.
Nú er ástæða til að fylgjast vel með framvindu mála og fagna því að Ísland leiðir bæði Norðurlandaráð og Evrópuráðið þetta árið. Einnig er ánægjuefni að lögð hefur verið fram lagatillaga af þverpólitískum hópi þingmanna á Alþingi Íslendinga um að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að vistmorð verði viðurkennt sem brot á alþjóðalögum og jafnframt að hún leggi fram frumvarp til að banna vistmorð að landslögum. Vistmorð sem glæpur er komið á dagskrá.
Haldið verður málþing um vistmorð í Norræna húsinu 14. febrúar kl. 17.15 og eru allir velkomnir.
Athugasemdir