Kristín Inga Grímsdóttir, sérfræðingur í geðhjúkrun barna og unglinga, segir að fyrir nokkrum árum hafi verið talað um að tíðni sjálfsskaða hjá unglingum væri 10-18% en nú sýni nýjustu rannsóknir að tíðnin er komin að þessum efri mörkum.
Hún segir bestu forvörnina vera að kenna börnum að takast á við erfiðar tilfinningar og efla seiglu þeirra. „Við upplifum öll ástarsorg eða upplifum mótlæti í skólanum. Ef börn hafa lært snemma að takast á við mótlæti og höfnun eru minni líkur á að þau grípi til ógagnlegra aðferða í vanlíðan sinni,“ segir Kristín.
Tilraun til að lina andlega vanlíðan
Sjálfsskaði felst í því að einstaklingur skaðar sig viljandi, til að mynda með því að veita sér áverka á húð, svo sem skera sig eða brenna, eða með inntöku efna. Algengasti tilgangur sjálfsskaða er að lina andlega vanlíðan.
„Þetta er augljóslega að aukast. Við finnum það líka hjá okkur í viðtölum,“ segir Kristín sem starfar á göngudeild BUGL og á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þá heldur hún einnig námskeið um sjálfskaðahegðun unglinga sem ætluð eru fagfólki í heilsugæslu, skólum, þjónustumiðstöðvum, barnavernd, félagsþjónustu og öðrum aðilum sem starfa með unglingum. Hún segir eftirspurnina eftir þessari fræðslu sömuleiðis vera að aukast.
„Þetta er tvennt ólíkt. Sjálfsskaði er í raun leið til að lifa af á meðan sjálfsvígshugsanir eru sprottnar út frá því að vilja ekki lifa.“
Sjálfsskaði unglinga er vaxandi vandi á Vesturlöndum og er víða farið að skilgreina hann sem lýðheilsuvanda. Kristín segir mikilvægt að greina á milli sjálfsskaða annars vegar og hins vegar sjálfsvígshugsana og sjálfsvígstilrauna. „Þetta er tvennt ólíkt. Sjálfsskaði er í raun leið til að lifa af á meðan sjálfsvígshugsanir eru sprottnar út frá því að vilja ekki lifa. Þó þarf að hafa í huga að sjálfsskaðahegðun er áhættuþáttur fyrir sjálfsvígi en það er ekki stór breyta,“ segir hún. Kristín bendir á að þessi munur sé einmitt eitt af því sem kemur þeim sem ekki þekkja til hvað mest á óvart og margir setji ranglega samasemmerki á milli sjálfsskaða og sjálfsvígstilrauna.
Sjálfsskaðahegðun hefst yfirleitt á aldursbilinu tólf til til átján ára en Kristín segist vita um yngri börn sem hafa veitt sér sjálfsskaða þó það sé sjaldgæft. Í flestum tilfellum felst sjálfsskaðinn í því að veita sér áverka á húð.
Tengist óstöðugum tilfinningum unglingsáranna
Þegar allir aldurshópar eru skoðaðir er tíðni sjálfsskaða 0,5% heilt yfir. Kristín bendir á að þessi hegðun tengist helst þeim óstöðugu tilfinningum sem fylgja unglingsárunum.
„Líklega er sjaldgæft að þetta hefjist á fullorðinsárum. Um 5-10% þeirra sem byrja að skaða sig eiga erfitt með að hætta. Allir þurfa eitthvað inngrip, hvort sem það er stuðningur við foreldra svo þau geti stutt við börnin sín eða þá meðferð hjá fagaðila. Oft er gott að foreldrar leiti fyrst aðstoðar á heilsugæslu ef þeir verða varir við þennan vanda. Það er ekki algengt að þessi hegðun haldi áfram fram á fullorðinsár sem sýnir okkur hvað þessar óstöðugu tilfinningar, sem við þekkjum öll frá unglingsárunum, hafa stór áhrif,“ segir hún.
„Fyrir foreldra er gott að vera vakandi fyrir breytingum á hegðun, andlegri vanlíðan eða hvort barnið er farið að ganga meira í langerma bolum.“
Og sjálfsskaðinn getur verið vel falinn. „Þau fela þetta fyrir foreldrum eins og þau geta. Fyrir foreldra er gott að vera vakandi fyrir breytingum á hegðun, andlegri vanlíðan eða hvort barnið er farið að ganga meira í langerma bolum.“ Þá segir Kristín mikilvægt að spyrja barnið hreint út ef grunur leikur á sjálfsskaða.
Kristín vekur athygli á því að sjálfsskaði er flokkað sem hegðun en ekki sem geðsjúkdómur. „Þetta er hegðun sem er afleiðing af einhverju öðru og það þarf ekki að vera geðrænn vandi. Þarna er um að ræða unglinga sem eiga erfitt með að takast á við erfiðar tilfinningar sem valda því að þeir fara að skaða sig.“
Smitáhrif þekkt
Þekkt eru ákveðin smitáhrif þegar kemur að sjálfsskaða. „Það var eftir því tekið þegar netnotkun var orðin almennari og sömuleiðis notkun samfélagsmiðla að tíðni sjálfsskaða jókst gríðarlega. Ungmennin eru að segja hvert öðru á netinu hvaða aðferðir þau nota. Í unglingahópnum er líka oft hjarðhegðun. Unglingur sem skaðar sig segir kannski vini sínum frá því að honum finnist það hjálpa sér að veita sér skaða og þau styðja hvert annað í þessari hegðun.“
Kristín leggur hins vegar áherslu á að unglingur sem líður vel grípur ekki til þess allt í einu að skaða sig vegna smitáhrifa. „Unglingurinn þarf að upplifa óstöðugar tilfinningar eða vera með undirliggjandi geðræn einkenni sem hafa áhrif á einhvern af þeim áhættuþáttum sem þarf að horfa til varðandi sjálfsskaða og þá eru alltaf líkur á smitáhrifum, en alls ekki þegar kemur að ungmennum sem eru á góðum stað.“
Góð tengls foreldra og barna lykilatriði
Hún segir forvarnir skipta miklu þegar kemur að því að vinna gegn sjálfsskaðahegðun. „Þegar við skoðum forvarnarleiðir er mikilvægt að þekkja bæði áhættuþætti og verndandi þætti. Félagslegar aðstæður hafa mikil áhrif, bæði á heimilinu og vinahópurinn. Ef unglingur á erfitt í félagahópnum er það áhættuþáttur en ef hann á gott bakland heima er það verndandi þáttur sem vegur þar upp á móti. Þroskafrávik, fötlun, lágt sjálfsmat og áföll eru meðal áhættuþátta. Stærsta forvörnin er að foreldrar séu í góðum tengslum við börnin og að þau upplifi að þau geti leitað til foreldra sinna. Það er svo mikilvægur verndandi þáttur. Ef barn upplifir vanlíðan í skóla þarf það að geta leitað til foreldra sem geta hjálpað því í gegn um tilfinningar sínar frekar en að það fari að skaða sig.“
Kristín segir mikilvægt að kenna börnum að þola erfiðar tilfinningar og efla seiglu þeirra. „Við mætum öll mótlæti á einhverjum tímapunkti í lífinu og ýmsir verða fyrir áföllum. Við getum ekki stýrt því en ef börn hafa ákveðna seiglu og mótlætaþol, og hafa frá unga aldri lært að takast á við erfiðar tilfinningar eru minni líkur á því að óstöðugar tilfinningar á unglingsárum leiði til sjálfsskaða.“
Eðlilegt að upplifa alls konar tilfinningar
Þá bendir hún á að foreldar þurfi að tryggja að börnin þeirra viti að þau geti alltaf leitað til þeirra. „Stundum þarf hreinlega að setjast niður og segja þetta upphátt. Börnin þurfa líka að vita að það er eðlilegt að upplifa alls konar tilfinningar, bæði gleði og sorg, og að allir eiga eftir að upplifa mótlæti.“
„25% hættu að skaða sig því þau upplifðu að einhverjum þætti vænt um þau“
Krístín vísar til rannsóknar þar sem ungt fólk sem hafði skaðað sig á unglingsárum var spurt af hverju það hefði hætt því. Hún segir að 40% hafi hætt að skaða sig því þeir hafi áttað sig á því að þau gætu tekist á við erfiðar tilfinningar og þær myndu líða hjá, 27% þroskuðust upp úr þessari hegðun og 25% hættu að skaða sig því þau upplifðu að einhverjum þætti vænt um þau. „Þetta voru stærstu breyturnar,“ segir Kristín.
Stundar þú sjálfsskaða eða ert aðstandandi einstaklings sem stundar sjálfsskaða? Hjálparsími Rauða krossins er 1717. Hann er alltaf opinn, trúnaði og nafnleynd er heitið og hann er ókeypis. Einnig er hægt að tala við ráðgjafa í netspjalli á vefnum.
Peta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Píetasíminn 552 2218 er opinn allan sólarhringinn.
Í neyðartilvikum skal ávallt hringja í 112.
Athugasemdir