Danska matvælaeftirlitið (Fødevarestyrelsen) hefur, í stuttu máli sagt, eftirlit með framleiðslu og geymslu matvæla. Þar er í mörg horn að líta en starfsmenn eru rúmlega 1.500. Stofnunin skiptist í fimm deildir, ein þeirra nefnist Kødkontrol og hefur, eins og nafnið gefur til kynna, eftirlit með sláturdýrum og slátrun ásamt hollustuháttum í sláturhúsum og kjötvinnslum.
Starfsfólk matvælaeftirlitsins heimsækir reglulega fyrirtæki um allt land og heimsóknirnar eru yfirleitt ekki tilkynntar fyrir fram.
Meðal þeirra fyrirtækja sem starfsfólk kjöteftirlitsins hefur heimsótt á mörgum undanförnum árum er kjötvinnslufyrirtækið Skare í bænum Vejen á Suður-Jótlandi.
Skare Meat Packers, eins og fyrirtækið heitir fullu nafni, var stofnað árið 1972. Stofnandinn var Kurt Skare og hann var jafnframt framkvæmdastjóri fyrirtækisins í 50 ár. Dóttir hans, Gitte, tók þá við sem framkvæmdastjóri en Kurt er enn þá stjórnarformaður, „á gólfinu“ eins og hann komst að orði í viðtali fyrir skömmu.
Athugasemdir (1)