„Þetta kom ekki á óvart,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður annars tveggja manna sem ákærðir voru fyrir tilraun til hryðjuverka, en ákærum þess efnis var í dag vísað frá. Sveinn segir þessa niðurstöðu hafa legið í loftinu eftir að dómari ákvað að eigin frumkvæði að hafa flutning um frávísunina en slíkt er ekki algengt. Eftir standa nú aðeins ákærur vegna minniháttar brota.
Þeim hluta málsins sem snýr að ætluðum hryðjuverkum er þó ekki endilega lokið. Sveinn Andri segir að héraðssaksóknari geti kært úrskurðinn til Landsréttar eða reynt að lappa upp á ákæruna og gefa út nýja ákæru vegna undirbúnings hryðjuverka. Þó hafi stór áfangasigur unnist í dag.
„Við verjendurnir vorum þarna eins og Spartverjar í skarðinu forðum að halda Persum niðri,“ segir Sveinn Andri og vísar þar til frægrar orrustu sem átti sér stað árið 480 fyrir Krist þegar sem mörg hundruð þúsund manna herlið Persa reyndi að hertaka Grikkland en mun fámennari her Spartverja náði að verjast árásinni.
Blaðamannafundur og BBC
Það vakti gríðarlega athygli í septembermánuði 2022 þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu blés til blaðamannafundar og greindi frá því að hryðjuverkaárás hafi verið afstýrt. Þar var greint frá því að tveir menn væri í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að þeir hafi lagt á ráðin um hryðuverk gegn almennum borgurum sem og opinberum stofnunum. Mennirnir eru þeir Sindri Snær Birgisson, skjólstæðingur Sveins Andra, og Ísidór Nathansson, en verjandi hans er Einar Oddur Sigurðsson.
Sérsveit lögreglunnar hafði daginn áður handtekið þá og lagt hald á tugi þrívíddarprentaðra skotvopna og þúsundir annarra skotfæra. Greint var frá handtökunni í erlendum miðlum, til að mynda í sjónvarpsfrétt á BBC.
Rauk af stað of snemma
Sveinn Andri hefur frá upphafi haldið því fram að lögreglan hafi farið fram úr sér við rannsókn málsins. „Þetta er auðvitað í fyrsta sinn sem svona mál kemur upp hér á landi, sem betur fer. Menn geta dregið mikinn lærdóm af því, bæði hvað varðar rannsókn málsins, samskipti við fjölmiðla og síðan ákærumeðferðina sjálfa sem hangir saman við rannsóknina.“
Sveinn Andri rifjar upp að lögreglan hafi komist yfir samskipti Sindra Snæs og Ísidórs á samskiptaforritinu Signal og í framhaldinu hafi verið unnin svokölluð upplýsingaskýrsla þar sem kom fram að ástæða væri til að fylgjast með þessum mönnum. „Þeir voru hins vegar handteknir strax næsta dag. Ég held að lögreglan hafi hlaupið á sig. Hjá erlendum lögreglustofnunum eyða menn talsverðum tíma í að fylgjast með mönnum, í fyrsta lagi til að átta sig á því hvort eitthvað raunverulegt sé í undirbúningi, og í annan stað til þess að fá almennilegar sannanir í hendur. Ég held að lögreglan hafi rokið af stað of snemma.“
Miðaðist við að sanna kenningu
Í frávísuninni segir meðal annars að verknaðarlýsing í ákæru hafi verið takmörkuð. „Hvað varðar ætlaða tjáningu í því samhengi er til að mynda engin frekari lýsing eða flokkun á því hvaða orðfæri og yfirlýsingar ákærðu á umræddu samskiptaforriti ákæruvaldið telur að skipti máli við mat á sök ákærðu. Skal þá einnig hafa í huga að umfang málsgagna um samskipti ákærðu er gríðarlega mikið, sem og að hugsanir manna eru almennt refsilausar og að mannleg tjáning nýtur að nokkru marki stjórnarskrárverndar þrátt fyrir að hún kunni að vera ósmekkleg og ógeðfelld á köflum. Að þessu virtu er verknaðarlýsing ákærukaflans óskýr um allt framangreint.“
Hugsanir manna eru almennt refsilausar og að mannleg tjáning nýtur að nokkru marki stjórnarskrárverndar þrátt fyrir að hún kunni að vera ósmekkleg og ógeðfelld á köflum.
Þá telur hann enga ástæðu fyrir blaðamannafundinum sem haldinn var. „Ef einhvern tíman er ástæða til að halda rannsókn leyndri þar til menn eru búnir að ná utan um málið myndi ég halda að það ætti við skipulagningu hryðjuverka. Ég er hundrað prósent viss um að ef málið hefði verið rannsakað betur án þess að fara í fjölmiðla þá hefði orðið ljóst að ekki var tilefni til frekari aðgerða en að fylgjast með,“ segir Sveinn Andri.
Hann segir ennfremur að ein algengustu mistök við rannsókn sakamála séu þegar til verða kenningar í upphafi og öll rannsóknin miðist síðan við að sanna þá kenningu. „Þetta miðaðist allt við að sanna að þeir væru að undirbúa hryðjuverk. Málið var strax sett í þann farveg með þessum blaðamannafundi og í framhaldinu gekk allt út á að réttlæta þær aðgerðir í staðinn fyrir að rannsaka með opnum huga.“
Athugasemdir