Þóra Arnórsdóttir er hætt sem ritstjóri fréttaskýringaþáttarins Kveiks og mun Ingólfur Bjarni Sigfússon taka við starfi ritstjóra þáttarins. Þóra sagði upp störfum fyrir síðustu mánaðamót en það var fyrst í morgun sem ákvörðunin var tilkynnt. Ástæða uppsagnarinnar er að Þóra er að taka við öðru starfi, utan RÚV.
Ekki náðist í Þóru en Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri RÚV staðfestir þetta. „Þetta er að hennar frumkvæði og það er engin dramatík þarna, hún er bara að fara að skipta um starf.“
Heiðar segir að styrkja eigi Kveik eftir brotthvarf Þóru. „María Sigrún Hilmarsdóttir kemur inn í Kveiks-teymið, alla vega til að byrja með.“
Þóra hefur verið ritstjóri Kveiks frá upphafi, frá haustinu 2017, en tók þó eitt ár í frí. Heiðar segir hana hafa unnið gríðarlega mikið og gott verk á þeim tíma.
„Við þökkum henni gríðarlega gott og mikið og fórnfúst starf. Hún hefur unnið mjög gott verk í þættinum og við munum að sjálfsögðu sakna hennar úr ritstjórninni en við skiljum þá ákvörðun hennar að prófa eitthvað annað, eftir allan þennan tíma í fjölmiðlum, hún er búin að vera í þeim í 25 ár,“ segir Heiðar.
Athugasemdir (2)