Á unglingsárum skrifaði stelpa ritgerð í enskutíma um Bandaríkin. Hún fann Bandaríkjunum svo margt til foráttu að á endanum snupraði enskukennarinn hana fyrir forpokaðan hugsunarhátt. Stelpan var alveg steinhissa og móðguð. Henni fannst hún vera frjálslynd. Klæddi sig mátulega pönkað og hunsaði hvers kyns regluverk.
Stelpan hafði skrifað það sem hún var alin upp við að heyra innan um hefðbundna róttæklinga, þetta fullorðna fólk sem sötraði bjórlíki með SS-pylsum á sumarhátíð Alþýðubandalagsins; fannst allt borgaralegt púkó en lagði upp úr því að börnin töluðu kórrétta íslensku, því fylgdu snuprur að nota orð sem þóttu vera af of enskum stofni eða jafnvel of dönsk.
Í gegnum tíðina hafði stelpan hlustað á rispaða plötu um óæskilega ameríkanseríngu (já, sérkennilegt orð!) í íslensku samfélagi. Keflavíkurgangan var reyndar líka hluti af uppeldi hennar sem og andstaða við hernaðarbandalag. Pabbi hennar hafði meira að segja pissað á rútu fulla af sendifulltrúum NATÓ.
En stelpan hafði aldrei heyrt orðið innræting.
Þessi stelpa var sú sem þetta skrifar. Þó að síðarnefnd vilji lítið kannast við stelpuna í dag.
Sama stelpa mætti í lopapeysu til að mótmæla EES samningnum einhverjum árum seinna og gott ef hún mótmælti ekki líka ráðhúsi við Tjörnina. Aðeins of sein á ferðinni til að geta mótmælt litasjónvarpinu.
Einhverjum árum seinna var stelpan samt komin í ráð til að stuðla að aðildarviðræðum við Evrópusambandið og skildi ekkert í sér að hafa mætt þarna í lopapeysunni. Hana var líka farið að langa til Bandaríkjanna.
Hvenær erum við að tjá skoðanir okkar? Og hvenær erum við að tjá skoðanir annarra?
Í þessu fámenna samfélagi erfast ósjaldan stjórnmálaskoðanir. Og skoðanir á hinu og þessu, öllu og engu. Stundum er skondið að hlusta á flokksbundið fólk rökræða því rökræðan getur orðið svo fyrirsjáanleg, nánast hönnuð. Ég segi mitt, þú þitt, og við annaðhvort skálum hlæjandi eða rífumst.
Allt má rökstyðja með góðu móti og þannig hættir fyrirframgefnum hugsjónum til að verða innantómt orðagjálfur. Orðin tóm. Hönnuð slógan persónugervingar stjórnmálaskoðana.
Ættbálkastemning hefur löngum loðað við pólitíkina – eins og svo margt annað – og fjórflokkarnir lengi verið eins og félagsleg mengi þar sem fólk getur speglað persónugildi sín í skoðanasystkinum sínum, þó með þeim fyrirvara að of afgerandi skoðanir, sem stinga í stúf við hjörðina, geta veikt sess þess í félagsmenginu. Skoðanir mótast því gjarnan í bandalagi einhvers konar hagsmuna.
Inn í þennan kúltúr rann svo like-menningin með tilkomu samfélagsmiðla. Og freistingin efldist að treysta frekar þægilega umhugsunarlaust á visku félagsnetsins en eigið hyggjuvit og flækja málin. Allt í einu var hægt að ná sér í skoðun með læki.
Fyrst þegar like-kúltúrinn var að byrja var undirrituð búin að skrifa skoðanapistla í einhver ár og því fljót að nota miðilinn til þess að básúna skoðunum, setja út á skoðanir annarra eða læka og vera lækuð. Eftir á séð var það mikið til sama fólkið sem lækaði hana og hún sjálf lækaði. Fólkið í búbblunni, margt af því með keimlíkan bakgrunn og hún sjálf, fólk með svipaða sjóndeild í lífinu.
Búbblan lækaði status á þessum nótum: Það er í alvörunni raunhæfur möguleiki að Bretar gangi úr ESB og Trump verði forseti!
Já, mörgum í búbblunni þótti þetta álíka varhugavert og það þótti fjarstæðukennt. Skoðanir eiga til að blinda okkur, þannig að við greinum heiminn eftir því sem okkur sjálfum finnst og hættum að gera ráð fyrir skoðunum annarra.
„Á netinu verða til ættbálkar, rétt eins og í pólitíkinni.“
Á netinu verða til ættbálkar, rétt eins og í pólitíkinni. Okkur hættir til að hlykkjast um í like-hjörðum, sama fólkið er grunsamlega oft sammála, um leið og það myndar sér skoðun við að setja læk við skoðanir hvert annars.
Það er hollt að velta fyrir sér hvernig fortíðin og félagsmengi móta skoðanir okkar. Hugsum við eins sjálfstætt og við höldum að við gerum? Veltum við rökum andstæðinga raunverulega fyrir okkur, með það fyrir augum að kannski hefur hvorugt alveg rétt fyrir sér, eða förum við strax í skotgrafirnar? Reynum við að skilja úr hvaða jarðvegi andstæðar skoðanir spretta? Getur verið að vond skoðun eigi sér sögu og samhengi sem gerir hana að einhverju leyti réttmæta?
Já, getur verið að lífið sé gaddaflækja (broskarl með sólgleraugu)?
Og síðast en ekki síst: Persónugerum við okkur eftir skoðunum?
Einhver sagði að það væri hollt að skipta helst um skoðun á hverjum degi – og það er vit í þeim orðum. Ekki algilt, samt vit.
Verandi á miðjum aldri, í miðri á tækni- og viðhorfsbreytinga, er kona dæmd til að segja stundum eitthvað hallærislegt eða úr sér gengið, þori hún á annað borð að tjá sig. En um leið er tjáningin leiðin að skilningi. Orðin okkar helsta greiningartæki til að greina eigin hugsun. Daginn sem við verðum hrædd við að tjá okkur af ótta við að segja eitthvað vitlaust er voðinn vís. Við verðum að hafa andrými til að þróa skoðanir okkar.
Gallinn er sá að bæði samfélagsmiðar og fjölmiðlar hafa þróast í þá áttina að þar gætir tilhneigingar til að smætta fólk ef það tjáir sig ekki nákvæmlega eftir blæbrigðum nýjustu upplýsingaöldunnar þann daginn. Og ef þú varst bara í berjamó og ekki á netinu meðan vakningin blossaði, þá segirðu kannski eitthvað vitlaust! Glórulaus um síðustu ferð hringekjunnar. Í loftinu liggur ósýnileg krafa um að allir séu alltaf að fylgjast með öllu, til að vera 100% réttir. Bara möst að vera extremely online!
Stundum gleymist það að við komum úr alls konar áttum, með alls konar bakland, að læra meðan við lifum. Við getum ekki upprætt einelti með aðferðum eineltis. Og þá er ekki verið að beina þeim orðum að sérstöku málefni eða hóp, heldur bara almennt, að góð umræðuhefð krefst þess bæði að við reynum að vanda okkur en líka að þora að vera ögrandi. Og ögra sjálfum okkur. Netmiðlar eru jú fyrst og fremst frábært tæki til að ögra eigin hugsun.
„Áskorunin er að þora að endurskoða skoðanir okkar, rökræða án þess að smætta – og tala. Vera með skoðun, frekar en að vera skoðun.“
Umræða er menning. Hún er jafnframt birtingarmynd menningar. Og við, öll, erum þessi menning. Öll orðin okkar, allt sem okkur finnst, hugmyndir okkar og tjáning. Spriklið í núinu að brjótast út úr innrætingu fortíðar og inn í nýjan skilning. Sjálfstæðan skilning. Inn í vitundarvakningar sem búa í nýjum hugtökum og nýjum tíma. Áskorunin er að þora að endurskoða skoðanir okkar, rökræða án þess að smætta – og tala. Vera með skoðun, frekar en að vera skoðun.
Athugasemdir