Að minnsta kosti 1.700 manns létu lífið í jarðskjálfta sem reið yfir Tyrkland og Sýrland í nótt. Upptökin voru nálægt borginni Gaziantep í Tyrklandi, 97 kílómetra norðan við Aleppo í Sýrlandi.
Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands sagði í morgun að yfir 900 væru látnir og 5.000 slasaðir þar í landi og erfitt væri að áætla hversu margir hefðu látið lífið, samkvæmt fréttaveitunni Reuters. Hann sagði jafnframt að 45 lönd hefðu hingað til boðið fram aðstoð en talið er að mörg hundruð manns séu enn föst í rústum og grjótmulningi eftir jarðskjálftann.
Í Sýrlandi var tala látinna klukkan 11 í morgun komin yfir 320 og 1.000 voru slasaðir. Talið er að sú tala muni hækka til muna á næsta klukkutímum.
Forsætisráðherra sendir samúðarkveðjur
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands hefur tjáð sig um hamfarirnar en á Twitter sendir hún fyrir hönd Íslendinga samúðarkveðjur til allra sem hafa orðið fyrir áhrifum af þessum „skelfilega harmleik“.
Yfir 17.000 létust árið 1999
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem tyrknesta þjóðin verður fyrir áfalli sem þessu en árið 1999 reið yfir landið stór jarðskjálfti þar sem yfir 17.000 létust og meira en 250.000 manns urðu heimilislaus.
Fréttin var uppfærð klukkan 14:00.
Athugasemdir