Meirihluti íbúa í Ölfusi telur að þýska sementsfyrirtækið Heidelberg sé að reyna að kaupa sér velvild íbúa í sveitarfélaginu með því að veita félagasamtökum þar fjárstyrki. Þetta er niðurstaðan úr könnun sem Maskína vann fyrir Heimildina. Heidelberg veitti 3,5 milljóna króna styrki til slíkra félaga í Ölfusi fyrir jól, meðal annars til björgunarsveitarinnar Mannbjargar. Heimildin fjallaði um styrkina nú í janúar.
Heidelberg ætlar að byggja verksmiðju í Þorlákshöfn sem á að mala móberg til útflutnings. Móbergsmulninginn á svo að nota í sementsgerð. Bygging verksmiðjunnar er umdeild í Þorlákshöfn og Ölfusi og sýnir viðhorfskönnun Maskínu til dæmis að rúmlega tvöfalt fleiri íbúar eru á móti verksmiðjunni en eru fylgjandi henni. Áður en af byggingu verksmiðjunnar verður ákveðin mun fara fram íbúakosning um hana. Heidelberg þarf því á endanum að stóla á stuðning íbúa Ölfuss ef verksmiðjan á að verða byggð.
„Mér dettur ekki í hug að styrkir okkar til samfélagslegra verkefna í Þorlákshöfn breyti nokkru um það hvort fólk vilji hafa þessa verksmiðju þarna eða ekki.“
Meirihluti bæjarbúa ósammála Þorsteini
Þorsteinn Víglundsson, talsmaður Heidelbergs á Íslandi og fyrrverandi ráðherra, steig fram í kjölfar fréttaflutnings Heimildarinnar um styrkina og sagði að það væri af og frá að fyrirtækið væri að reyna að kaupa sér velvild með styrkjunum. „Fyrirtækið hafnar alfarið grófum aðdróttunum um nokkurs konar mútustarfsemi eða óeðlileg samskipti í því skyni að kaupa sér velvild eða fyrirgreiðslu.“
Miðað við svör íbúa í Ölfusi um styrkveitingar Heidelbergs í könnun Maskínu telur meirihluti þeirra hins vegar að þýska fyrirtækið sé að reyna að kaupa sér velvild íbúa með styrkjunum. 52,5 prósent þeirra sem svöruðu voru fremur eða mjög sammála því að Heidelberg væri að reyna að kaupa sér velvild íbúa í Ölfusi á meðan 24,3 prósent voru mjög eða fremur ósammála því að sementsfyrirtækið væri að reyna að kaupa sér velvild íbúanna.
Þorsteinn segir í viðtali við Heimildina í dag að honum þyki sú túlkun „súr að Heidelberg sé að reyna að kaupa sér stuðning íbúa: „Bara svo það sé skýrt, og það var þetta sem mér misbauð í ykkar fréttaflutningi, að það að líta á samfélagslega styrki sem tilraun til að bera fé á fólk og hafa áhrif á umræðuna í samfélaginu finnst mér algjörlega fjarstæðukennt. Mér dettur ekki í hug að styrkir okkar til samfélagslegra verkefna í Þorlákshöfn breyti nokkru um það hvort fólk vilji hafa þessa verksmiðju þarna eða ekki.“
Miðað við svör íbúa Ölfuss í könnun Maskínu er meirihluti þeirra ósammála þessari túlkun Þorsteins og Heidelbergs á tilgangi fjárstyrkjanna.
Athugasemdir (1)