Heimildin birti nýlega grein eftir Eirík Rögnvaldsson, málfræðing og prófessor emeritus, undir fyrirsögninni Lúkas endurborinn. Þar fer höfundur mikinn vegna gagnrýni stórs hóps Íslendinga á tilteknar breytingar sem verið er að þvinga fram á íslensku tungutaki. Nýlegasta dæmið þar um er að setja inn í löggjöfina orðið „fiskari“ í stað orðsins „fiskimaður“ sem áður stóð í því samhengi og er í daglegu tali nefnt sjómaður. Breytingin kallaði fram efasemdir og umræðu sem Eiríki hugnast illa og vill nú með öllum ráðum kveða niður. Ekki alls fyrir löngu reis svipuð alda vegna orðsins „leghafi“ sem á að vera samheiti yfir það fólk sem er með leg. Stærstur hluti þess hóps eru konur, eðli málsins samkvæmt, og þótti okkur mörgum sem orðið væri hlutgerandi og smættandi. Í þeirri umræðu tók Eiríkur sér einnig stöðu umvandarans gagnvart þeim sem voru breytingunni ósammála.
Nokkur digur ummæli hafa fallið af þessu tilefni, ekki síst í grein Eiríks, en hún er að mestu áróður fyrir þeim málfarsbreytingum sem nú er verið er að innleiða með vanhugsuðum nafngiftum á starfsstéttum og samfélagshópum.
Hamagangur eða skoðanaskipti?
Skoðanaskipti geta oft verið af hinu góða, en verra er þegar fallið er í þann pytt að gera fólki upp skoðanir – ætla því duldir og fordóma líkt og Eiríkur gerir. Hann forðast að nefna á nafn þau sem hann er að ræða við og þvælir saman óskyldum skoðunum og ummælum svo ætla mætti að allt væri það komið úr einni átt. Og þar sem Eiríkur nafngreinir ekki þau sem hann er að tala við og um, en hefur samt eftir þeim ýmis ummæli, sum ófögur, er engin leið fyrir lesanda að átta sig á því til dæmis hver hefur sagt hvað. Er sú sem hér heldur á penna t.d. svo orðljót sem sumar tilvitnanir Eiríks gefa til kynna, eða var það einhver allt annar sem lét umrædd orð falla, kannski í athugasemdakerfi en ekki opinberi færslu? Hér skal upplýst að undirrituð hefur ekki viðhaft nein af þeim ófögru ummælum sem tínd eru til í grein Eiríks, þó að annað mætti ætla. Hvað honum gengur til með því að hræra því öllu saman á þann hátt sem hann gerir skal ósagt látið, en vissulega lítur út fyrir að ætlunin sé að draga upp mynd af einsleitum hópi æstra andstæðinga andspænis röksemdarmanninum Eiríki, sem gengur svo langt að líkja málinu við „Lúkasarmálið alræmda“ eins og hann orðar það og kallar umræðuna eitt „sérkennilegasta fjölmiðla- og samfélagsmiðlafár“ sem upp hafi komið. Þá gefur hann andmælendum sínum þá einkunn að þeir „hamist“ í umræðunni, væntanlega ólíkt honum sjálfum. Hann lætur líka að því liggja, bæði í umræddri grein og víðar, að öll sé þessi andstaða sprottin af því að gagnrýnendur orðsins „fiskari“ og „leghafi“ séu á einhvern hátt æsingafólk og andstæðingar kynhlutleysis svona almennt og yfirleitt.
Það er ekki bara ósiður að gera fólki upp skoðanir og spyrða það saman við ómálefnalega hluti, það er líka þekkt áróðursbragð. Áróður á þó illa heima í fræðilegri eða faglegri umræðu.
Um hvað snýst þá deilan?
Deilan um orðin „fiskari“ og „leghafi“ snýst um máltilfinningu, áhuga á íslenskri tungu og virðingu fyrir atvinnuheitum og nafngiftum sem notuð eru um samfélagshópa. Hún snýst líka um aðferðafræði.
Bent hefur verið á að orðið „fiskari“ sé ekki nýtt í málinu. Það fyrirfinnist í gömlum bókum og skrám. Sama á við um orðin „fiskimaður“ og „sjómaður“ sem eru góð og gegn orð um þá stétt manna sem lifir af fiskveiðum. Orðið „sjómaður“ hefur orðið ofan á sem starfsheiti og er skilgreining sem stéttin hefur valið sér sjálf. Sjómannaskóli Íslands, Sjómannasamtök og Sjómannafélög ýmis, Dvalarheimili aldraðra sjómanna og fleiri heiti segja allt sem segja þarf um stöðu orðsins í vitund almennings og atvinnusögunni. Svo sterkri stöðu hefur orðið náð að í daglegu tali er nær aldrei talað um fiskimenn heldur nær eingöngu um sjómenn.
Með lagabreytingunni sem nú hefur verið gerð er fiskari „hver sá eða sú sem starfar eða er ráðinn eða ráðin til vinnu á fiskiskipi, þ.m.t. þau sem eru ráðin upp á aflahlut“ eins og það er orðað í 2. grein laganna. Orðið „fiskari“ er þar komið í staðinn fyrir orðið „fiskimaður“ sem er það heiti sem lögin höfðu áður í umræddri lagagrein. Ekki þarf að þræta um það að fiskimaður um borð í fiskiskipi er það sem í daglegu tali er kallað sjómaður. Hér er orðið „fiskari“ því komið inn í íslenskan lagatexta í merkingunni sjómaður, við lítinn fögnuð þeirra sem um er rætt.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þessi breyting er gerð í nafni kynhlutleysis. Reyndar er vandséð hvaða kynhlutleysi felst í því að skipta út einu karlkynsorði fyrir annað, en undirliggjandi er augljóslega andstaða við orðið „maður“ sem er viðskeyti margra atvinnuheita. Er vandséð hvert sú hreinsunarstefna að útrýma viðskeytinu „maður“ úr atvinnumáli okkar muni leiða. En miklu veldur sá sem upphafinu veldur segir máltækið. Hér er vert að staldra við.
Orðið „maður“
Stundum er látið að því liggja að orðið „maður“ eigi einungis við um karlmenn, líkt og er þegar viðtekin venja í ensku og Norðurlandamálum. Íslenskan hefur þó sérstöðu að þessu leyti því orðið „maður“ hefur frá alda öðli verið samheiti yfir karla og konur, enda er það tegundarheiti.
Í Laxdæla sögu segir um það er Höskuldur Dalakollsson gáði að mannaferðum: „Sá hann þar tvo menn og kenndi. Var þar Ólafur sonur hans og móðir hans.“ (13. kafli)
Vegna þessarar stöðu orðsins „maður“ í íslensku höfum við einnig orð eins og „karlmaður“ og „kvenmaður“, „kona“ og „karl“. Við tölum um mannkyn. Sami skilningur á við um öll tegundarheiti annarra dýra. Í öðrum tungumálum eru kynin með ýmsum hætti. Finnskan hefur ekkert kyn, franskan hefur aðeins tvö, í ensku og þýsku eru þau þrjú en danska, norska og sænska hafa auk þess samkynið „den“. Allur gangur er á því hvort málfræðilegt kyn og líffræðilegt fara saman í íslensku. Við eigum bæði karlkyns og hvorugkynsorð yfir konur, t.d. orðin „svanni“ sem er karlkyns og „víf“ sem er hvorugkyns fyrir utan hvorugkynsmyndina „menni“ (sbr. ómenni, illmenni) svo dæmi séu tekin.
Atvinnuheiti með viðskeytinu „maður“ hafa það fram yfir öll önnur að fela í sér hvern þann sem tilheyrir mannkyni, af hvaða kyni eða gerð sem hugsast kann. Þegar Vigdís Finnbogadóttir var spurð að því hvort ætti að kjósa hana sem forseta af því að hún væri kona svaraði hún sem frægt varð „nei, heldur af því að ég er maður“.
„Maður“ er umfaðmandi orð og umlykjandi en alls ekki útilokandi eins og sumir virðast álíta. „Treystu á þinn innri mann“ er stundum sagt og „maður hefur nú …“. Ég efast um að þau sem forðast að nota orðið „maður“ átti sig á því hvað myndi undan láta ef við hættum að nota það í um bæði karla og konur. Öll orðasamböndin og samsetningarnar sem tjá margt það mikilvægasta sem við eigum, myndu þar með hverfa úr málinu. Það væru orð eins og mennska, mannkærleikur, mannvit, mannkyn, menntun, manngildi, mannhelgi, menning, manngerð, mannlegt, mannamál, o.fl., o.fl. Allt frábær orð, merkingarþrungin og lýsandi.
Með því að kynhlutleysa tungumálið og forðast þar með að nota orðið „maður“ er hætt við keðjuverkun með nokkuð fyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir málkerfið í heild. Ef við ætlum að hafna orðinu „maður“ sem samheiti, og nota það einungis yfir karlmenn, þá mun kynhlutleysiskrafan á endanum leiða til þess að orðinu verður úthýst úr fjölmörgum samheitum og orðasamböndum þar á meðal atvinnuheitum.
Því spyr ég: Væri ekki nær væri að taka stöðu með orðinu, gæta að raunverulegri merkingu þess og halda henni fram? Það er ekki aðeins einfaldari lausn heldur skynsamlegri á allan hátt.
Orð eru ekki bara orð
Orðin sem við notum eru annað og meira heldur en dauðhreinsaðar merkingareiningar klipptar og skornar. Ef svo væri gætum við ekki talað um lifandi tungumál, skapandi tungutak. Þá ættum við ekki skáldskap. Orðin eru hlaðin tilfinningum, lífsskynjun, afstöðu, sögu og menningu. Þau hafa liti og áru.
Orðið „fiskari“ er gamalt og úrelt orð sem segir allt annað en orðið „sjómaður“. Seinna orðið er nútímafólki tamt á tungu, það hefur tilvísun í sögu og lífsbaráttu þjóðarinnar, er hluti af sjálfsmynd stórs hluta landsmanna, hlaðið atvinnusögu og atvinnumenningu. Allir þeir þættir tilheyra orðinu og þess vegna kemur ekkert annað þess í stað. „Fiskari“ líkt og orðið „leghafi“ eða „legberi“ eru aftur á móti dauðhreinsaðar merkingareiningar og einmitt þess vegna hljóma þau annarlega í eyrum, eins og kaldur, litlaus málmhlutur – einhverskonar orðskrípi.
Látum okkur þykja vænt um tungumálið okkar. Það er arfur okkar og ómetanlegt menningarverðmæti. Virðum uppruna orðanna og hefðbundna notkun í stað þess að skekkja tungutakið – með valdi liggur mér við að segja – í þágu pólitískrar hentistefnu frá einum tíma til annars.
Höfundur er prófessor og forseti Félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst.
Nú sýna ótalmargar rannsóknir fram að kynið í tungumáli virðist hafa áhrif á hugsun og sýn okkar.
Hver getur sjálfur gert litla tilraun við sjálfan sig hvort mynd af konu eða karli bregður upp fyrir hans innra auga við orð eins og ökumaður, flugmaður, lögmaður.
Að segja konur eru líka menn er í því samhengi bara útúrsnúningur. Í biblíunni stendur að guð hafi skapað manninn eftir sinni mynd: aldrei þó hef ég séð mynd af guði í líki konu - alltaf er hann (sic) gamall vitur karl.
Að tala í því samhengi um hefð er á sama plani og löndin eru stödd sem við kennum við kvenkúgun því þar er sú kúgun eingöngu rökstudd með gamalli og helst heilagri hefð.
Tungumálið er tæki til þekkingarmiðlunar, það má aldrei verða eitthvað heilagt í sjálfu sér.
Ég gerði þetta. Þegar ég hugsaði um ökumann þá sá ég fyrir mér konuna mína, en hún keyrir heimilisbílinn yfirleitt. Þegar ég hugsaði um "flugmann" þá sá ég fyrir mér karlmann, sem er líklega vegna þess að ég hef mun sjaldnar séð kvenkyns flugstjóra. Þegar ég hugsaði um lögmann þá sá ég fyrir mér nokkrar konur, allar sem hafa unnið fyrir mig.