„Það skiptir máli hver ræður.“
Þetta var lengi mantra Vinstri grænna þegar þau reyndu að réttlæta þátttöku sína í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Katrín Jakobsdóttir í forsætisráðherrastólnum myndi vega upp á móti öllum hugsanlegum ókostum þessa stjórnarsamstarfs.
Því hún — svona stórsnjöll og réttsýn! — yrði sú sem réði.
Nú sjáum við hvernig það fór.
Jón Gunnarsson, pólitíkus sem hefur — með fullri virðingu — aldrei verið talinn til helstu andlegra jöfra í íslenskum stjórnmálum, hann leikur sér að því á lokametrum ferils síns að niðurlægja Katrínu og VG, bara svona til að sýna að hann geti það.
Með framgöngu sinni í rafbyssumálinu, því ég á auðvitað við það.
Og þetta getur hann auðvitað vegna þess að Katrín ræður ekki lengur.
Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að taka öll völd í þessari ríkisstjórn.
Hlutskipti VG er nú að í hvert sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn valtar yfir VG í einhverju máli — neyðir flokkinn til að „éta skít“ eins og Drífa Snædal orðaði það svo eftirminnilega — þá er gerður út einn þingmaður eða í besta falli ráðherra til að „lýsa áhyggjum“ í fjölmiðlum en svo er ekki meira að gert.
Ég hef VG sterklega grun um að varpa hlutkesti á þingflokksfundum um hvaða þingmaður á að „lýsa áhyggjum“ í hvaða máli.
Og svo ræður Sjálfstæðisflokkurinn þessu auðvitað.
Aumast er hlutskipti VG í rafbyssumálinu. Löngu eftir að Jón Gunnarsson er búinn að ákveða að leyfa þessar byssur, þá lúpast einhverjir VG þingmenn fram og „setja fyrirvara“ við málið.
Eftir að málið var afgreitt af Jóni!
Nú mundi ég hlæja ef ég væri ekki dauður, sagði karlinn.
Meira að segja einkavinur Katrínar í Sjálfstæðisflokknum, Bjarni Benediktsson, virðir hana nú svo lítils að hann sér sóma sinn í að hæðast að hugmynd hennar um námskeið í hatursorðræðu fyrir hátt setta embættismenn og silkihúfur.
Námskeið sem vissulega væri þörf á en Bjarni blæs út af borðinu.
Og styður Jón Gunnarsson í að hæða og smána og niðurlægja VG með rafbyssum sínum.
Hver var það aftur sem átti að ráða?
Athugasemdir (2)