Framsóknarflokkurinn í Reykjavík, undir forystu Einars Þorsteinssonar, mælist með 8,2 prósent fylgi í nýrri könnun Maskínu. Flokkurinn vann mikinn kosningasigur í borgarstjórnarkosningunum í fyrravor þegar hann fékk 18,7 prósent atkvæða. Því hefur Framsókn tapað 10,5 prósentustigum af fylgi það sem af er kjörtímabili, en Einar mun taka við sem borgarstjóri um næstu áramót.
Hinir flokkarnir sem mynduðu meirihluta með Framsóknarflokknum; Samfylkingin, Píratar og Viðreisn, bæta allir við sig fylgi frá kosningunum. Samfylkingin bætir við sig 3,1 prósentustigi, mælist stærsti flokkurinn í borginni og nýtur stuðnings 23,4 prósent kjósenda. Píratar bæta mesta allra flokka við sig, tæpum níu prósentustigum, og mælast með 20,4 prósent fylgi. Viðreisn fer svo úr 5,2 í 6,8 prósent fylgi. Samanlagt mælist fylgi flokkanna sem mynda meirihlutann 58,8 prósent. Það er þremur prósentustigum meira en þeir fengu í kosningunum í maí í fyrra.
Af því leiðir að minna hlutfall kjósenda myndi vilja kjósa flokkanna sem sitja í minnihluta borgarstjórnar nú en gerðu það í síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkurinn í minnihluta og sá sem fékk flest atkvæði allra í síðustu kosningum, mælist nú með 22,3 prósent fylgi. Það er 2,2 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í fyrravor. Flokkur fólksins fer úr 4,5 í 3,8 prósent og Vinstri græn úr 4,0 í 3,3 prósent.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/88hmTEvGZ1jr_1080x1070_c4sxJx1W.png)
Eini flokkurinn í minnihlutanum sem bætir við sig fylgi frá kosningum er Sósíalistaflokkur Íslands, sem fer úr 7,7 í 9,6 prósent.
Sanna stendur sig best
Maskína mældi einnig ánægju með meiri- og minnihluta og það hvort fólki fyndist Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, standa sig vel. Einungis 21,5 prósent sögðu að þeim fyndist meirihlutinn vera að standa sig vel og 46,6 prósent töldu hann raunar vera að standa sig illa.
Aðspurðir voru þó enn minna hrifnir af frammistöðu minnihlutans. Einungis 11,7 prósent sögðu að hann stæði sig vel og 44,9 prósent telja að hann hafi staðið sig illa. Alls sögðust tæplega 28 prósent vera ánægð með störf Dags sem borgarstjóra en 48 prósent voru óánægð með hann.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/20n7yxKOYBRl_1080x3062_YjvrWT-C.jpg)
Maskína spurði líka um þann borgarfulltrúa sem fólki þótti hafa staðið sig best. Þar nefndu flestir, 15,5 prósent, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, oddvita Sósíalistaflokksins. Dagur kom þar á eftir með 12,9 prósent og fast á hæla hans Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins. Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, var nefnd af 10,3 prósent aðspurðra en Einar Þorsteinsson, væntanlegur borgarstjóri, af einungis 8,5 prósent.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 702, en þeir eru á aldrinum 18 ára og eldri og búsettir í Reykjavík. Könnunin fór fram 25. nóvember til 2. desember 2022. Niðurstöðurnar voru fyrst birtar í dag.
Athugasemdir