Oddný Mjöll Arnardóttir var í dag kosin dómari við Mannréttindadómstól Evrópu af þingi Evrópuráðsins. Hún er fyrsta konan sem er skipuð af Íslandi sem dómari við dómstólinn en skipunartíminn er til níu ára.
Róbert Spanó var íslenski dómarinn við Mannréttindadómstólinn frá árinu 2013, en skipunartími hans rann út í október fyrra. Róbert, sem var forseti dómstólsins frá 2020, mátti ekki sækjast eftir áframhaldandi setu.
Embætti íslenska dómarans var fyrst auglýst til umsóknar seint á árinu 2021, með það fyrir augum að íslenska ríkið gæti skipað nýjan dómara til að taka við af Róberti þegar skipunartími hans leið undir lok. Þá sóttu þrír um embættið. Auk Oddnýjar voru það Jónas Þór Guðmundsson, lögmaður og stjórnarformaður Landsvirkjunar, og Stefán Geir Þórisson, lögmaður.
Fimm manna nefnd sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði til að leggja mat á þessa þrjá umsækjendur lauk störfum í byrjun febrúar 2022. Niðurstaða hennar var sú að allir umsækjendurnir þrír sem sóttust eftir tilnefningu teldust hæfir til að vera verða tilnefndir af hálfu Íslands.
Í byrjun júní í fyrra tók svo nefnd ráðgjafa á vegum Evrópuráðsins umsækjendurna í viðtal. Eftir þau viðtöl drógu Jónas og Stefán Geir hins vegar umsóknir sínar til baka. Viðmælendur Heimildarinnar segja að nefndin hafi frestað því að skila niðurstöðu sinni eftir viðtölin þar sem umsækjendahópurinn í heild hafi þótt of veikur til að gegna stöðunni. Undantekningin þar hafi verið Oddný. Þar sem reglur um skipun dómara í embætti hjá Mannréttindadómstólnum séu þannig að kjósa þurfi milli þriggja umsækjenda var ekki annað að gera en að auglýsa aftur eftir umsækjendum.
Því var auglýst aftur eftir umsækjendum og í ágúst 2022 var greint frá því að þrír hefðu sótt um. Oddný var sú eina úr fyrri hópnum sem gerði það að nýju. Auk hennar sóttu Dóra Guðmundsdóttir lögfræðingur og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, um embættið.
Oddný hefur verið landsréttardómari frá 2018 en áður var hún prófessor, bæði við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, auk þess að vera sjálfstætt starfandi lögmaður. Hún er með embættispróf frá lagadeild Háskóla Íslands og doktorspróf frá lagadeild Edinborgarháskóla.
Mannréttindadómstóll Evrópu var stofnaður árið 1959 á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu og er aðsetur hans í Strassborg í Frakklandi. Dómstóllinn fjallar um mál sem til hans er vísað af einstaklingum og samningsaðilum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu eða samningsviðaukum við hann. Alls eiga 46 dómarar frá aðildarríkjum Evrópuráðsins sæti í dómstólnum.
Athugasemdir (1)