Sem kennari í háskóla þá fæ ég stundum fyrirspurnir frá nemendum sem vilja fá skýringar á því af hverju þeir fengu bara 8,5 fyrir ritgerðina sína en ekki 10. Nemendurnir vilja vita fyrir hvað ég dró þá niður um 1,5. Ég bendi þeim þá á, að þeir byrjuðu ekki með einkunnina 10, heldur byrjuðu þeir með 0 og unnu sig upp í einkunnina 8,5. Það er munur þar á. Ég get sagt þeim hvað þeir gerðu til að fá 8,5, en ekki endilega hvað þeir gerðu ekki til að verðskulda 10. Mismunandi sjónarhorn geta leitt til mismunandi niðurstöðu. Maður á ekkert fyrr en maður hefur unnið fyrir því. Að setja sér niðurstöðumarkmið, eins og það að verða heimsmeistari, er ekki ósvipað því og að líta sem svo á að maður byrji verkefni með einkunnina 10. Öll frávik frá einkunninni 10 þýða þá að maður er ekki að standa undir væntingum. Í þessari myndlíkingu liggur ein skýringin á slöku gengi íslenska handboltalandsliðsins á heimsmeistaramótinu.
Markmiðasetning og árangur
Markmiðasetning er almennt viðurkennd og frekar óumdeild aðferð til að hjálpa einstaklingum og hópum að ná árangri. Rannsóknir hafa jafnan sýnt gildi markmiðasetningar, þar sem þeir sem ná árangri á ýmsum sviðum hafa nýtt sér markmiðasetningu á vegferð sinni. Þetta á ekki síst við í íþróttum.
Það er jafnan vitnað til þess að það íþróttafólk sem kemst á Ólympíuleika eða á heimsmeistaramót, og vinnur til verðlauna á slíkum mótum hafi notast við markmiðasetningu. Markmiðasetningin er því tengd árangri. Við höfum því öðlast ofurtrú á markmiðasetningu sem einhvers konar töframeðali sem hjálpar okkur að ná árangri. En það íþróttafólk á Ólympíuleikunum og heimsmeistaramótum sem náði ekki tilskildum árangri setti sér líka markmið, en um það er sjaldnast rætt. Sagan er skrifuð af sigurvegurunum. Við heyrum af markmiðasetningu sigurvegaranna sem segja að þeir hafi stefnt hátt – og jafnvel séð sig fyrir sér með medalíu um hálsinn. En þeir sem tapa eru ekki spurðir nánar út í sín markmið og hvað hafi klikkað. Þeir fara bara heim á leið með vonbrigðin í ferðatöskunni – sem er allt í einu komin í yfirvigt þar sem vonbrigðin yfir því að hafa mistekist að ná markmiði og standast væntingar getur reynst þung byrði að bera.
Markmiðasetning getur reynst tvíeggja sverð. Markmiðasetning getur hjálpað einstaklingum og hópum að ná árangri, en markmiðasetning getur líka unnið gegn því að þeim árangri sem sóst er eftir verði náð. Markmiðasetning er í raun mjög vandmeðfarin og oft á tíðum ofmetin. Þeir sem vinna til verðlauna á Ólympíuleikum eða á heimsmeistaramótum gera það ekki vegna þess að þeir settu sér markmið. Þeir vinna vegna þess að þeir hafa mikla hæfileika, andlegan styrk, búa að áralangri þjálfun, hafa mikinn stuðning auk óteljandi annarra hluta sem þeir hafa gert rétta. En síðast en ekki síst féllu hlutirnir með þeim þegar á hólminn var komið. Þegar best lætur þá kann markmiðasetningin að kreista eitthvað aðeins meira úr afburðafólki og hjálpa þannig til, en meginhluti árangursins liggur ekki í markmiðasetningunni, heldur í færni þess, ákjósanlegum kringumstæðum og heppilegri atburðarás.
Í þessum pistli ætla ég ekki að tala markmiðasetningu upp, eins og jafnan er gert, heldur niður. Ég ætla að benda á vankanta og ókosti markmiðasetningar og hvernig markmiðin, og þar með væntingar þjóðarinnar, fóru illa með íslenska karlalandsliðið í handbolta á Heimsmeistaramótinu í Svíþjóð.
Markmið móta væntingar
Á yfir tuttugu ára ferli mínum sem ráðgjafi íþróttafólks og íþróttaliða þá hef ég margoft verið kallaður til, til að hjálpa íþróttafólki og liðum sem eru ekki að standast eigin væntingar og væntingar annarra í sínum íþróttum. Vandamálin á slíkum stundum hafa oftar en margan grunar reynst vera afleiðing óheppilegrar markmiðasetningar. Þar er, ef markmiðin byggja á langsóttum væntingum um árangur, og þá sérstaklega árangri sem byggir á þáttum sem leikmenn þessa tiltekna liðs hafa ekki fullkomna stjórn á (eins og að vinna leiki, komast í úrslitakeppni, eða vinna titla – sem eðli málsins samkvæmt er háð frammistöðu andstæðinga, dómara o.s.frv.) þá geta slík markmið reynst liðum bjarnargreiði. Niðurstöðumarkmið sem þessi geta reynst varasöm, og því er oft betra að notast við svokölluð frammistöðu- eða ferilsmarkmið, sem snúa meira að þáttum sem íþróttafólkið hefur betri stjórn á heldur en úrslit leikja.
Markmið móta væntingar. Þegar boginn er spenntur í hæstu hæðir þá fylgja væntingarnar með. Saga íslenska karlalandsliðsins í handknattleik hefur sýnt að þegar væntingar almennings til gengis liðsins eru miklar þá er það jafnan ávísun á vonbrigði. Aftur á móti, þegar væntingar almennings til liðsins eru litlar þá kemur liðið jafnan á óvart og nær betri árangri en búist var við. Besta dæmi þess er í lokakeppni Evrópumótsins í fyrra, þar sem laskað lið Íslands - sökum þess að margir lykilleikmanna liðsins gátu ekki keppt þar sem þeir sátu fastir í Covid einangrun - náði sjötta sæti á mótinu. Væntingar voru litlar en hver leikmaðurinn á eftir öðrum átti aftur á móti stórleik á mótinu. Liðið hafði engu að tapa og náði að sýna allar sínar bestu hliðar.
Það var eitthvað allt annað uppi á teningnum fyrir heimsmeistaramótið nú í ár. Það virtist altalað að íslenska liðið ætlaði að verða heimsmeistari í handbolta. Leikmenn liðsins gáfu til kynna að liðið stefndi alla leið. Og það sama gerðu sumir handboltasérfræðingar (sem mætti í þessu sambandi kalla áhrifavalda) sem kyntu undir væntingum almennings og sköpuðu þá stemningu meðal þjóðarinnar að nú væri loksins komið að því að íslenska liðið myndi vinna heimsmeistaratitil. Þjálfari liðsins reyndi að draga úr þessum væntingum almennings, en hann mátti ekki við margnum. Þessi háleitu markmið gengu ekki eftir, og niðurstaða mótsins olli gríðarlegum vonbrigðum. Sagan endurtekur sig.
Ég held því fram að markmið liðsins, sem og væntingar almennings um að liðið myndi landa sjálfum heimsmeistaratitlinum (eða að minnsta kosti að ná á verðlaunapall), hafi ekki hjálpað liðinu, þvert á móti hafi þau unnið gegn gengi liðsins. Liðið hafði þá þegar frá upphafi, við minnstu mistök, öllu að tapa en slík nálgun reynist sjaldnast árangursrík.
Að verða heimsmeistari
Það er hægara sagt en gert að verða heimsmeistari - það liggur í hlutarins eðli. Íslenska liðið hefur 23 sinnum tekið í lokakeppni heimsmeistaramótsins (frá árinu 1958) og náð hæst í fimmta sæti mótsins árið 1996. Vanalega lendir íslenska liðið í kringum 11-12 sæti mótsins. Það hefði því ansi margt þurft að ganga upp ef liðið hefði átt að ná á verðlaunapall – hvað þá að verða heimsmeistari. Flestir lykilleikmenn liðsins hefðu þurft að eiga mjög gott mót, ekki hefði mátt gera nein stór mistök í stjórnun liðsins, liðsmenn hefðu þurft að sleppa við meiðsli og/veikindi, leikjaniðurröðun hefði þurft að raðast vel upp fyrir liðið, og liðið hefði auk þess þurft ákveðinn skerf af heppni. Að ógleymdu því lykilatriði að öll önnur lið keppninnar hefðu þurft að vera lakari en það íslenska þegar á hólminn væri komið. Það er langur vegur frá því að vilja verða heimsmeistari og segjast ætla að verða heimsmeistari, og því að verða það lið sem í raun stendur uppi sem heimsmeistari.
En hvað gerðist hjá íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu? Lið sem búið er að tala upp sem væntanlega heimsmeistara, þrátt fyrir að hafa aldrei komist á verðlaunapall á heimsmeistaramótinu, mun alltaf basla við að standa undir slíkum væntingum. Og í raun er það ávísun á að slíkt lið verði sérstaklega brothætt undir tilteknum aðstæðum á þeirri vegferð sem það stendur frammi fyrir. Þessar miklu væntingar um árangur verða auka pressa á leikmenn að standa sig á stóru stundunum. Eins og það sé ekki nógu mikið álag fyrir að takast á við bestu leikmenn í heimi, bestu lið í heimi, og alls kyns áskoranir og óvæntar aðstæður sem alltaf koma upp í keppni á meðal þeirra bestu. Í keppni þar sem allt er undir og þjóðin fylgist agndofa með hverju augnabliki, hverri hreyfingu og hverju skrefi.
Vandamál íslenska landsliðsins var í raun markmið liðsins sem keyrði upp væntingar þjóðarinnar, sem reyndist á endanum hættuleg blanda. Háleitar væntingar um árangur er sérstaklega viðkvæmt mál fyrir íslenska liðið þar sem samband þess og þjóðarinnar er nánara og sterkara en víða annars staðar. Það sést meðal annars í áhorfstölum á leiki liðsins, fjölda Íslendinga sem gera sér ferðir á stórmót, sem og í orðræðu leikmanna sem tala um að spila fyrir þjóðina – frekar en fyrir peninga eða eigin framgang. Þegar strákarnir okkar spila þá snertir það þjóðarsálina – eins og sjá mátti á stuðningi við liðið á leikjunum í Svíþjóð. Og strákarnir okkar vilja ekki valda okkur vonbrigðum.
Þegar þetta kemur allt saman; gríðarlega háleitt markmið, óvenju miklar væntingar, og löngunin til að gleðja landann, þá er orðið ansi mikið undir. Undir slíkum kringumstæðum kunna reyndustu leikmenn að missa tökin. Það er mikill munur á því að fara í leiki og hafa einhverju að tapa, eða að hafa allt að vinna, þar sem það síðarnefnda er mun vænlegra til árangurs. Miðað við væntingar þjóðarinnar til heimsmeistaramótsins þá hafði íslenska liðið öllu að tapa; að tapa verðlaunapeningnum, að tapa heimsmeistaratitlinum, að bregðast fólkinu. Þessi hræðsla sást vel á hinum afdrifaríku 18 lokamínútum leiksins við Ungverja. Leikmennirnir misstu tökin. Þegar Ungverjar neituðu að gefast upp og fóru að vinna sig inní leikinn, saxa á þægilegt forskot íslenska liðsins og ná vopnum sínum þá breytist öll dínamík leiksins. Íslensku leikmennirnir urðu skyndilega ólíkir sjálfum sér. Þeir urðu hikandi, hræddir við að gera mistök, og tapa þannig leiknum. Leikur liðsins hrundi allt í einu eins og spilaborg. Og Ungverjar gengu á lagið. Og því fór sem fór. Með þessu urðu vonir okkar um heimsmeistaratitil (nú eða sæti á verðlaunapalli) strax orðnar fjarlægar. Við skynjuðum að við vorum ekki að verða heimsmeistarar – og það á tímapunkti þegar mótið var rétt að byrja. Það sat í mönnum.
Reynsla mín af vettvangi íþróttaliða hefur sýnt mér að það er erfitt að vinna sig upp úr slíkum vonbrigðum. Þegar markmið liða um ákveðinn árangur komast í uppnám þá grípur um sig örvænting og hræðsla sem hrindir af stað neikvæðri atburðarás. Íþróttafólkið fer að efast, og byrjar að reyna að verja það sem það hefur, í stað þess að sækja það sem það hefur ekki. Leikgleðin dvínar, samhjálpin minnkar, sjálfstraustið þverrar, pressan eykst og stemningin verður þyngri. Nemendur sem byrja með 10 eru ósáttari við að fá einkunnina 8,5 en þeir nemendur sem byrja með 0. Og afleiðingin er að liðin ná ekki að sýna sínar bestu hliðar. Það er erfitt að koma til baka þegar efasemdir um markmiðin láta á sér kræla. Niðurstöðumarkmið landsliðsins (að komast á verðlaunapall og vinna heimsmeistaratitilinn) sem og væntingar þjóðarinnar um slíkan árangur kom íslenska landsliðinu um koll á mótinu. Við skutum yfir markið. Væntingarnar léku okkur grátt.
Að læra af reynslunni
Það er við hæfi að ljúka þessari hugleiðingu um afdrif landsliðsins á heimsmeistaramótinu á tilvitnun frá bandaríska uppeldisfrömuðinum John Dewey sem hljóðar svona: „Við lærum ekki af reynslunni, við lærum af því að velta fyrir okkur reynslunni“. Árangur íslenska handboltalandsliðsins á heimsmeistaramótinu olli miklum vonbrigðum, um það verður ekki deilt. Helstu handboltaspekingar hafa haft orð á því að það hafi ekki aðeins verið þessar 18 mínútur á móti Ungverjum sem ollu vonbrigðum heldur hafi frammistaða liðsins í heild verið undir væntingum. Við hittum ekki á það. Þetta var ekki okkar mót. Við þurfum því að leita svara við því af hverju þetta var ekki okkar mót, velta þeim svörum fyrir okkur, og læra af þeim.
Að mínu mati liggur eitt svarið í því að háleit markmið og óraunhæfar væntingar þjóðarinnar hafi komið í andlitið á okkur og átt stóran þátt í því að draumurinn um heimsmeistaratitil fuðraði upp á mettíma. Þetta er ekkert nýtt, þetta sýnir sagan okkur aftur og aftur. Það er mín skoðun að það hefði verið vænlegra fyrir liðið að byrja með 0 og vinna sig upp í 10, í stað þess að byrja með 10 og enda með 0; að hafa allt að vinna í stað þess að hafa öllu að tapa. Með þessu er ég þó ekki að segja að landsliðið eigi ekki að setja sér markmið, nú eða að það eigi ekki að gera kröfur til landsliðsins. Ég er að halda því fram að markmiðasetning er vandasöm og að mínu mati oft ofmetið fyrirbæri, sem getur ýtt undir væntingar sem geta komið manni um koll.
Óheppileg markmiðasetning er þó ekki það eina sem misfórst á mótinu, þó að hún sé að mínu mati veigamikill þáttur í því hvernig fór. Þar kemur fleira til. En hvernig við tökumst á við áskoranir framtíðarinnar í íslenskum íþróttum er eitt þeirra umhugsunarefna sem er gagnlegt að taka til skoðunar. Í anda John Dewey þá þurfum við að vera meðvituð um söguna, því reynslan reynist oft vera besti kennarinn.
Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og höfundur bókarinnar Sport in Iceland: How small nations achieve international success.
Að sjá fyrir sér að ná á pall á einhverju móti er gott eitt markmið ... og þar á við að sitja.
... eftir þetta eina markmið þarf að setja tugi markmiða sem þarf að ná fyrst til að ná þessu eina aðal-markmiði.
(.. og það er allt frá atferlli + árangri + sálfræðilegu + tíma t.d. o.s.f.)