Minkamálið svonefnda er eitt stærsta fréttamál á síðari árum í Danmörku. Sömuleiðis var, og er, málið mjög umdeilt á hinum pólitíska vettvangi. Þar kemur margt til: Fyrirskipunin um að minkastofninum skyldi lógað byggði ekki á lagaheimild, framkvæmdin við eyðingu hræjanna, hlutverk lögreglu og ráðherra, ábyrgð á ákvörðuninni, deilur um bætur til bænda og fleira mætti nefna.
Danskir fjölmiðlar hafa kallað 4. nóvember árið 2020 örlagadag. Mette Frederiksen forsætisráðherra hafði boðað til fréttamannafundar þennan dag og fjölmiðlar höfðu fengið veður af að búast mætti við miklum tíðindum. Við eðlilegar aðstæður hefði fréttamannasalurinn í forsætisráðuneytinu líklega verið þéttsetinn. En aðstæður voru fjarri því að teljast eðlilegar, kórónaveiran hafði farið eins og eldur í sinu um Danmörku, eins og fjölmörg önnur lönd, fyrr á árinu. Fréttamannafundur forsætisráðherra var haldinn á netinu, kórónuveiran var komin á Kristjánsborg og lagst á þingmenn og ráðherra. Lyfjaframleiðendur kepptust við að þróa bóluefni sem ekki var komið á markaðinn þegar þarna var komið.
Fyrstu smitin
Á 17. júní, þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga, greindist kórónaveiran í fyrsta skipti í minkum á Norður-Jótlandi. Yfirvöld fyrirskipuðu þegar í stað að öllum dýrum á viðkomandi búi skyldi lógað þegar í stað. Minkar eru sérlega viðkvæmir fyrir hvers kyns veirum og talið víst að fyrst veiran hefði fundist á einu minkabúi væri nær öruggt að hún bærist í önnur bú. Það stóð heim, nokkrum dögum síðar var veiran komin í bú á Vestur-Jótlandi.
Strax í dag
Á áðurnefndum netfréttamannafundi 4. Nóvember 2020, tilkynnti danski forsætisráðherrann að allur minkastofn á öllum búum landsins, sem voru rúmlega þúsund talsins, skyldi sleginn af. Ráðherrann sagði að samtals væri um að ræða 17 milljón dýr (síðar kom í ljós sú tala var nær 15 milljónum). Ástæðuna fyrir þessari ákvörðun sagði ráðherrann þá að nýtt afbrigði veirunnar hefði greinst í minkum og einnig fólki á Norður-Jótlandi. Mikil hætta væri á að veiran færi um alla Danmörku og þess vegna væri nauðsynlegt að ráðast strax í að fella minkastofninn ,,strax í dag“.
Daginn eftir hélt Mette Frederiksen annan fréttamannafund. Þar tilkynnti hún að allar ferðir til og frá Norður-Jótlandi yrðu bannaðar, nema mjög brýna nauðsyn bæri til, samkomuhald bannað, kaffihús og matsölustöðum skyldi lokað, sömuleiðis bókasöfnum og íþróttahúsum. Einungis yngstu börn mættu mæta í skólann, önnur yrðu heima. ,,Við skellum Norður- Jótlandi í lás“ sagði Mette Frederiksen forsætisráðherra.
Óðagot
Þegar ákvörðunin um að slá minkastofninn af var tekin höfðu vaknað efasemdir um hvort sú fyrirskipun styddist við lög. Í ljós kom að svo var ekki og Mogens Jensen matvæla- og landbúnaðarráðherra varð margsaga í málinu og sagði á endanum af sér. Lögin sem heimiluðu fyrirskipunina voru svo sett eftirá, í miklum flýti. Lögreglan fékk það hlutverk að hafa samband við bændur og tilkynna þeim að lóga skyldi öllum minkum.
Á leiðbeiningablaði, sem lögreglan fékk, stóð að ef bændur neituðu að hlýða skipuninni yrði dýrunum eigi að síður lógað en bændur fengju þá ekki tiltekinn bónus. Bændur upplifðu þetta sem hótun. Danskir fjölmiðlar sögðu allt málið einkennast af óðagoti.
Klúðrið með urðunina
Hratt og vel gekk að lóga minkunum. Varðandi hræin voru tveir möguleikar: að urða eða brenna. Talið var að sorpbrennslur gætu ekki tekið á móti hræjunum og því ákveðið að þau skyldu urðuð. Ekki reyndist auðvelt að finna urðunarstaði og þótt það tækist að lokum var ekki öll sagan sögð. Skurðir sem grafnir voru og hræjunum sturtað í reyndust allt of grunnir og jarðvegurinn sem mokað var yfir tók að lyftast eftir nokkra daga. Í ljós kom að gasmyndun í hræjunum var orsökin. Þegar þarna var komið var hins vegar ljóst að sorpbrennslur gátu vel tekið á móti hræjunum sem á endanum voru öll grafin upp og brennd. Þessu fylgdi mikill kostnaður.
Minkamálið var dag eftir dag helsta fréttaefni danskra fjölmiðla.
Þingmenn kröfðust rannsókna
Með ákvörðuninni um að allur minkastofn í Danmörku skyldi sleginn af var fótunum í einu vetfangi kippt undan heilli atvinnugrein. Spurningarnar sem þingmenn vildu fá svör við voru margar. Fyrst og fremst þó hvernig það hefði gengið fyrir sig þegar ákveðið var að fella minkastofninn, hver hefði tekið ákvörðunina og á hvaða forsendum. Peningahliðin var líka mikið til umræðu í þinginu enda ljóst að tjón bænda og skinnaiðnaðarins í Danmörku væri mikið, skipti milljarðatugum danskra króna. Þingmenn vildu líka að þáttur lögreglunnar yrði rannsakaður sérstaklega.
23. apríl 2021 ákvað danska þingið, Folketinget, að skipa sérstaka rannsóknarnefnd, Minkkommission.
Margt athugavert
Minkarannsóknarnefndin skilaði skýrslu sinni 30. júní 2022. Nefndin lagði í vinnu sinni mat á þrennt: ráðstafanir einstakra stofnana, aðgerðir ráðherra sem í hlut áttu og þátt embættismanna. Varðandi stofnanirnar var það mat nefndarinnar að upplýsingar til minkabænda og almennings hefðu verið alls ófullnægjandi, og misvísandi. Aðgerðir og yfirlýsingar ráðherra og embættismanna hefðu verið ámælisverðar. Um embættismennina segir að þeir hafi gerst sekir um alvarlegar yfirsjónir, svo alvarlegar að stjórnvöld gætu dregið þá til ábyrgðar vegna brota á sannleiksskyldunni og lögmætisreglu. Þetta síðastnefnda vísar til ólögmætra ákvarðana vegna skorts á lagaheimildum.
Varðandi ráðherrana treystir rannsóknarnefndin sér ekki til að fullyrða að þeir hafi verið upplýstir um þau lagalegu vandkvæði sem tengdust ákvörðunum sem ráðherrarnir tóku. Það kæmi í hlut þingsins að meta hvaða viðurlögum, ef einhverjum, skyldi beitt. Þá kæmi tvennt til greina ,,gagnrýni þingsins“ (kallað næse) eða í versta falli mál fyrir ríkisrétti.
Meirihluti stjórnskipunarnefndar þingsins íhugaði hvort stefna ætti forsætisráðherra fyrir ríkisrétt en af því varð ekki.
Radikale Venstre, einn stuðningsflokka stjórnarinnar á þessum tíma krafðist þess að að Mette Frederiksen myndi boða til kosninga áður en þingið kæmi saman í októberbyrjun í fyrra (2022), ella yrði borin fram vantrauststillaga á stjórnina, sem ljóst var að yrði samþykkt. Kosningar fóru fram 1. nóvember, að þeim loknum mynduðu jafnaðarmenn undir forystu Mette Frederiksen stjórn með Venstre og Moderaterne.
Fyrir kosningar hafði Jakob Ellemann-Jensen formaður Venstre margsinnis sagt að ekki kæmi til greina að taka sæti í stjórn undir forystu Mette Frederiksen og Lars Løkke Rasmussen formaður Moderaterne sagði það ófrávíkjanlega kröfu að á vegum þingsins færi fram rannsókn á embættisfærslum Mette Frederiksen í minkamálinu. Þessar yfirlýsingar gleymdust þegar hillti undir hugsanlega ráðherrastóla ,,þau eru mjúk leðursætin í ráðherrabílunum“ sagði stjórnmálaskýrandi Berlingske.
Gengur hægt með bæturnar
Þegar forsætisráðherra tilkynnti 4. nóvember 2020 að allur minkastofninn skyldi sleginn af var jafnframt tilkynnt að minkabændur fengju bætur. Sérstakar reglur skyldu settar í þeim efnum. Þar var í mörg horn að líta, meta þurfti húsakost, stærð búsins, skuldastöðu og fleira og fleira. Margir bændur lýstu því yfir að þeir myndu ekki byrja aftur þótt það yrði heimilað. Aðrir óskuðu eftir svokallaðri biðstöðu, sem þýddi að halda möguleika á að byrja aftur, opnum. Í janúar 2021 töldu stjórnvöld að bætur til minkabænda og ýmissa annara sem tengdust eldinu t.d fóðurframleiðenda og flutningafyrirtækja næmu samtals um 18 milljörðum danskra króna (400 milljörðum íslenskum) en nú er talið að sú upphæð sé alltof lág. Margt hefur orðið til að tefja bótaútreikningana og greiðslurnar og nú er stefnt að því að uppgjöri ljúki í fyrsta lagi í árslok 2024.
Nú koma þeir aftur
Þegar fyrirskipunin um að slá allan danska minkastofninn af var gefin 4. nóvember 2020, var jafnframt tilkynnt að bann við minkaeldi skyldi gilda út árið 2021. Fljótlega var bannið framlengt til ársloka 2022. Sl. haust tilkynntu stjórnvöld að heimilt yrði að flytja inn dýr til eldis frá og með 1. janúar 2023.
Vitað var að nokkrir minkabændur biðu átekta, þeir ætluðu sér að hefja minkaeldi á ný. Danskir fjölmiðlar greindu frá því að til stæði að flytja inn minka frá nokkrum löndum, Íslandi, Noregi, Finnlandi, Póllandi og kannski fleiri löndum. Fyrstu dýrin, tæplega átta hundruð, komu svo til Danmerkur fyrir viku, frá Finnlandi.
Verður ekki jafn stór búgrein og áður
Eins og nefnt var fyrr í þessum pistli voru rúmlega eitt þúsund minkabú í Danmörku, samtals milli 15 og 16 milljón dýr, þegar ákveðið var að fella stofninn. Danir voru um áratugaskeið mjög umsvifamiklir í skinnaframleiðslunni og dönsk skinn höfðu á sér gæðastimpil. Í tengslum við endurkomu minkanna hefur sú spurning vaknað hvort þessi búgrein geti orðið jafn stór og áður var. Allir sem danskir fjölmiðlar hafa rætt við telja það útilokað.
Athugasemdir