Jólin, sem nýlega eru um garð gengin, hafa sérstaka þýðingu í hugum kristins fólks enda minna þau á innkomu hins yfirnáttúrulega í þennan náttúrulega og efnislega heim. „Orðið varð hold“, segir í jólaguðspjalli Jóhannesar postula og er þar einmitt átt við það, að Guð hafi gengið inn á sviðið, inn á svið sögunnar og okkar lífs; að hið yfirnáttúrulega og óefnislega hafi gerst náttúrulegt og efnislegt. En svo eru auðvitað aðrir sem hafa öllu jarðbundnari hugmyndir um jólin og njóta þeirra á öðrum forsendum og sjá ekkert yfirnáttúrulegt á bak við þau eða nokkuð annað yfirhöfuð.
Það má nefnilega, þegar kemur að spurningunni um hið yfirnáttúrulega, almennt skipta fólki nokkurn veginn í tvo hópa.
Annars vegar eru það þeir sem hafna tilvist hins yfirnáttúrulega með öllu. Það eru náttúruhyggjusinnarnir, eða efnishyggjufólkið, sem lítur svo á að þessi náttúrulegi og efnislegi veruleiki tíma, rúms, efnis og orku, eða alheimurinn, sé tæmandi lýsing á því sem er til og fangi veruleikann í heild sinni. Engu öðru sé til að dreifa og handan hans sé bókstaflega ekki neitt.
Hins vegar eru það hinir, ég þeirra á meðal, sem líta svo á að þessi náttúrulegi og efnislegi veruleiki sem við lifum og hrærumst í sé alls ekki tæmandi lýsing á því sem er til heldur sé til annar og annarskonar veruleiki, utan og ofan við þennan, sem jafnframt er orsök þess að sá veruleiki sem við upplifum og skynjum er yfirhöfuð til. Slíku viðhorfi fylgir gjarnan sú trú að þessi yfirnáttúrulegi veruleiki hafi gert vart við sig með ýmsu móti á vettvangi hins efnislega.
Fyrrnefnda viðhorfið má kenna við guðleysi enda er náttúruhyggja, eða það viðhorf að enginn yfirnáttúrulegur veruleiki sé til og að hið efnislega sé allt sem til er, röklegt jafngildi guðleysis. Síðarnefnda viðhorfið má kenna við guðstrú og er það, í sögulegu samhengi, langtum algengara heldur en hitt og er kristin trú sú útgáfa guðstrúar sem útbreiddust er og flestir aðhyllast.
Hvort tveggja, guðstrú og guðleysi, eru niðurstöður eða ályktanir um grundvallareðli lífsins og tilverunnar, og fela í sér (andstæð) svör við þeim spurningum sem flest okkar glíma við með einum eða öðrum hætti á lífsleiðinni – spurningar um uppruna tilvistarinnar og lífsins, um gildi þess, tilgang og merkingu, og hver eða hvers eðlis við erum í því stóra samhengi. En bæði geta augljóslega ekki verið sönn og rétt enda er um mótsagnakennd viðhorf að ræða. Annað hvort á veruleikinn sér yfirnáttúrulega hlið eða ekki!
Nú er ég fyrstur til að viðurkenna að ekkert afgerandi er hægt að segja í þessum efnum, þ.e. um tilvist eða tilvistarleysi hins yfirnáttúrulega. Með því á ég við að skotheldar, óhrekjanlegar sannanir af eða á eru ekki í boði. En það er ekki áhyggjuefni enda vitum við fæst af því sem við vitum upp að því marki. Það er því ekki óviðeigandi að segja að guðleysinginn og ég grundvöllum báðir sannfæringu okkar á frumspekilegum (eða trúarlegum) forsendum þegar allt kemur til alls. Enda er staðhæfingin „Guð er ekki til“ frumspekileg staðhæfing rétt eins og staðhæfingin „Guð er til“. En hitt er umræðunnar virði hvort sé skynsamlegri og rökréttari afstaða eða túlkun á lífinu og tilverunni, og rími betur við upplifun og reynslu okkar af sjálfum okkur og veruleikanum almennt, tilvist hins yfirnáttúrulega eða tilvistarleysi þess. Í þeim efnum tel ég öll rök hníga að tilvist hins yfirnáttúrulega.
* * * *
Nú er sú skoðun mín þó ekki beinlínis tilefni þessa pistils. Tilefnið er stutt en áhugaverð færsla á facebook sem ég rakst á fyrir ekki löngu síðan eftir píratann Helga Hrafn Gunnarsson. Ljóst er að Helgi Hrafn deilir ekki skoðun minni á hinu yfirnáttúrulega enda staðhæfir hann þar af miklu öryggi og fullvissu að „Ekkert sem er kallað yfirnáttúrulegt er til, ekki eitt einasta staka fyrirbæri.“ Í huga Helga Hrafns þýðir nefnilega hugtakið yfirnáttúrulegt „í rauninni bara eitthvað sem fólk heldur að sé til, en [sem] kemur í ljós að er ekki til þegar það er raunverulega skoðað“.
Hér rær Helgi Hrafn á sömu mið og annar guðleysingi og pírati heldur sig á, Björn Leví Gunnarsson, sem fyrr á árinu tilkynnti úr ræðustóli Alþingis að það væri einföld staðreynd að Guð er ekki til. Þótt Helgi Hrafn geri guðstrú ekki beinlínis að umræðuefni sínu er pistill hans hinn áhugaverðasti og gefur líkast til ágæta innsýn í hugsun íslensks nútímaguðleysingja.
Staðhæfing Helga Hrafns um tilvistarleysi hins yfirnáttúrulega er mjög stór og því mætti ætla að henni fylgdu skynsamleg rök af einhverju tagi sem leiddu til þeirrar niðurstöðu sem hann slær fram sem heildarsannleika um lífið og tilveruna. En svo er ekki – sem kemur reyndar ekki á óvart.
Burtséð frá því er ýmislegt í máli Helga Hrafns sem áhugavert væri að ræða. En það sem pistill hans endurspeglar kannski umfram allt er að nútíma samfélag einkennist í vaxandi mæli af guðleysi og efa, náttúruhyggju, vísindahyggju og afstæðishyggju. Hugsunarhátturinn sem svífur yfir vötnum samfélagsins og mótar að miklu leyti viðhorf fólks og hugsun er sífellt að verða lokaðri fyrir því að eitthvað geti verið til umfram dautt efnið og hin blindu lögmál náttúrunnar. Samfélagið, menningin og umhverfið þjálfar okkur þannig býsna snemma í því að sjá ekkert handan hins efnislega, ekkert sem kalla mætti Guð, ekkert yfirnáttúrulegt í neinni merkingu eða mynd. Lífið sé bara efnislegur grautur á kosmískum skala, tóm tilviljun án eiginlegs tilgangs og merkingar sem bíður óhjákvæmilegra endaloka sinna. Þannig hljóma hin guðlausu fræði þegar allt kemur til alls.
William Provine dregur þá mynd sem náttúruhyggjan bregður upp af lífinu og tilverunni með eftirfarandi hætti:
„Þetta er það sem nútíma þróunarlíffræði segir okkur hátt og skýrt: Það eru engir guðir, enginn tilgangur, engin markmiðsdrifin öfl af nokkru tagi. Það er ekkert líf eftir dauðann. Þegar ég dey er ég algjörlega viss um að ég verð áfram dauður. Það eru endalok mín. Það er engan eiginlegan grundvöll að finna fyrir siðferði, engan eiginlegan tilgang á bak við lífið og heldur engan frjálsan vilja handa manninum.“
Kollegi Provine, Richard Dawkins, slær á sömu strengi er hann dregur fram óhjákvæmilegar afleiðingar náttúruhyggjunnar:
„Í alheimi blindra efnislegra lögmála náttúrunnar og erfðafræðilegrar fjölföldunar verða sumir hart leiknir en aðrir hafa heppnina með sér og þú finnur hvorki ástæðu á bak við það né réttlæti. Alheimurinn, eins og hann blasir við, er einmitt eins og við má búast, ef það er þegar öllu er á botninn hvolft engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti. DNA veit ekkert og lætur sig ekkert varða. DNA einfaldlega er og við dönsum í takt við það.“
Engin merking eða tilgangur, ekkert rétt og rangt, gott og illt, í eiginlegum, hlutlægum skilningi, enginn frjáls vilji eða raunveruleg hugsun, einungis dautt, hugsunarlaust efni á valdi blindra náttúruafla. Út frá forsendum náttúruhyggjunnar er saga veruleikans, allt frá hinu smæsta til hins stærsta, ekki fólgin í öðru.
Nú lifa fæstir lífi sínu dag frá degi með aðra eins raunarmynd í huga. En þrátt fyrir hinar augljósu og rökrænu afleiðingar guðleysis finnst mörgun erfitt að ná utan um þá hugsun að til sé yfirnáttúrulegur veruleiki og finnst möguleg tilvist þess jafnvel fráleit og óhugsandi ef ekki hreinlega hlægileg. Í þeirra huga er tilvist Guðs einfaldlega stærri biti en hægt er að kyngja. Ekki geri ég lítið úr því enda eru þeir þröskuldar sem margir þurfa að yfirstíga í dag til þess að opna hugann fyrir möguleikanum á hinu yfirnáttúrulega sannarlega stórir.
En í ljósi orða Helga Hrafns vaknar augljóslega ein spurning umfram aðrar: Hvernig veit hann, sem og aðrir sem hugsa á sömu nótum, að hið yfirnáttúrulega sé ekki til og geti ekki verið til? Hvernig getur hann fullyrt með þeim hætti sem hann gerir og það af jafnmikilli fullvissu og raun ber vitni? Hvað veit hann sem aðrir vita ekki? Jú, fyrir honum er svarið einfalt: Vísindin! Hin vísindalega aðferð! Helgi Hrafn tekur sérstaklega fram að hann sé hvorki þröngsýnn né geri tilkall til þess að vita allt heldur hafi hann „bara [...] grunnþekkingu á vísindalegri aðferð og hef[ur] kynnt [s]ér hvað gerist þegar vísindalegri aðferð er beitt á svokölluð yfirnáttúruleg fyrirbæri.“ Helgi Hrafn hefur sumsé yfir að búa grundvallarþekkingu á hinni vísindalegu aðferð og getur í krafti þess staðhæft að yfirnáttúrulegur veruleiki sé ekki til í nokkurri mynd.
Helgi Hrafn virðist líta svo á, líkt og margir guðleysingjar jafnan gera, að náttúruhyggja sé vísindalega sönnuð staðreynd. En ekkert er fjær sanni og þarf ekki nema augnablikshugsun til að átta sig á því. Enginn ábyrgur vísindamaður mundi heldur gera tilkall til þess, á grundvelli hinnar vísindalegu aðferðar, að hafa sýnt fram á að tilvist hins yfirnáttúrulega sé óhugsandi. Það er vandséð til dæmis að vísindamaður mundi gera tilkall til nóbelsverðlauna (t.d. í eðlisfræði) fyrir að hafa afsannað með óyggjandi vísindalegum hætti tilvist hins yfirnáttúrulega. Það minnir okkur á þá einföldu staðreynd að staðhæfingin: „Ekkert yfirnáttúrulegt er til“ er alls ekki vísindaleg staðhæfing í neinum skilningi. Og vel mætti líka spyrja vin minn guðleysingjann til hvaða vísindalegu uppgötvuna(r) eða tilrauna(r), sem samsinni er um, og um er fjallað í viðurkenndum og ritrýndum vísindaritum, hann vill vísa til máli sínu til stuðnings. Hvernig beitir maður annars vísindalegri aðferð á Guð, á yfirnáttúrulegan veruleika, sem er utan efnisins, tímans og rúmsins? Þangað geta vísindin ekki náð. Þau geta einungis fengist við hinn efnislega veruleika sem er að finna innan tímarúmsins.
Vissulega eru vísindi stórkostleg. Því verður ekki neitað. Þau hafa aukið, dýpkað (og í mörgum tilfellum leiðrétt) þekkingu okkar á hinum efnislega heim meir en nokkurn hefði getað grunað og leitt til framfara á mörgum sviðum sem hafa bætt hag mannsins stórkostlega. En þau eru sannarlega ekki gallalaus enda hafa þau leitt af sér gríðarstóra ógnvalda sem mannkynið neyðist til að horfast í augu við í dag.
En burtséð frá því hvaða skoðun við höfum á vísindum sem slíkum er það hrein rökleysa að ætla að þar sem við vitum nú hvernig og hvers vegna þetta og hitt innan hins náttúrulega og efnislega heims hagar sér að við getum þar með dregið þá ályktun að náttúruhyggja sé sönn og að ekkert sé til utan við hinn náttúrulega og efnislega heim. Það leiðir einfaldlega ekki af hinu. Það er eins og að segja að við getum útilokað tilvist Henry Fords af því að við vitum með nákvæmum hætti úr hverju Ford-T bíll er samansettur og af hverju hann virkar eins og hann gerir. Við gætum vitað allt sem mögulega er hægt að vita um innviði og virkni Ford-T bílsins en það mundi samt ekki fela á nokkurn röklegan eða skynsamlegan hátt í sér að við gætum þar með ályktað að Henry Ford gæti ómögulega verið til.
Öðru verður einungis haldið fram með því að skrumskæla og snúa út úr því sem vísindi eru, eins og margir guðleysingjar gera, og ætla að seilingarmáttur þeirra sé annar og meiri en hann er eða getur verið. Sú blinda heitir vísindahyggja og er það útbreiddur -ismi innan hins vestræna samfélags (og er stór hluti af því sem hægt og bítandi hefur komið mannkyni á heljarþröm). Hið rétta er að vísindi skoða, rannsaka og leitast við að útskýra hinn náttúrulega og efnislega veruleika og eingöngu hann. Það er það eina sem þau gera og hið eina sem þau geta gert. Þegar haft er í huga að Guð er yfirnáttúrulegur blasir við að vísindi, eins mögnuð og þau eru, geta einfaldlega ekkert sagt um Guð. Og undir það taka heiðarlegir vísindamenn fyrstir allra. Líffræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Peter Medawar orðaði það vel þegar hann sagði að fljótlegasta leiðin til að koma óorði á vísindi væri að segja þau eiga svar við öllum spurningum og að þær spurningar sem þau geti ekki svarað séu merkingarlausar. Að mati Medawar eru vísindi augljóslega takmörkuð enda geti þau ekki svarað barnslegum grundvallarspurningum varðandi uppruna tilverunnar, tilgang lífsins og örlög eða hvað sé gott, rétt og fallegt. Vísindi spyrji takmarkaðra spurninga og geti ekki náð utan um eða útskýrt allt sem leitar á huga mannsins eða er fólgið í reynslu hans.
Hvers kyns staðhæfing í nafni vísinda um Guð sem yfirnáttúrulegan veruleika er ekki og getur ekki verið vísindaleg staðhæfing heldur er persónuleg – og þegar allt kemur til alls frumspekileg eða heimspekileg – staðhæfing sem byggir á lífsskoðun þess sem leggur hana fram. Um hana má ræða, og er um fátt merkilegra og dýpra hægt að ræða, og velta upp kostum hennar og göllum, hvað mælir með henni og gegn henni í ljósi þekkingar okkar og reynslu af lífinu.
* * * *
En látum þetta allt liggja á milli hluta. Áhugavert er að spyrja og velta vöngum yfir því hvers vegna tilhugsunin um hið yfirnáttúrulega er jafn erfið og óyfirstiganleg eins og margir aðrir vilja vera láta. Hvað gerir hið yfirnáttúrulega svona óaðgengilegt í hugum þeirra?
Þegar við lítum upp úr okkar hversdagslega veruleika – og hann er sannarlega mjög hversdagslegur – blasir við allt annað en hversdagsleg mynd. Afkimi okkar í veruleikanum er jú ekki stór. Í samanburði við alheiminn sjálfan er hann litlu stærri en smæsta rykkorn og allt að því ekki neitt. Á þessari agnarögn sem jörðin er fæðumst við og deyjum og eigum okkar hverfula tímaskeið – sem þó er ekki nema brot úr sekúndu á kosmískum skala. Hér snúumst við með jörðinni stutta ævistund á ógnarhraða, í örlitlu horni stjörnuþoku einnar sem hefur að geyma hundruði milljarða stjarna og þeytist sjálf um á hundruða þúsunda kílómetra hraða á klukkustund. Og þó er sú störnuþoka einungis ein af allt að því óteljandi mörgum stjörnuþokum í þessum tröllaukna veruleika tíma, rúms, efnis og orku, sem við köllum alheiminn, sem sjálfur þeytist um og þenst út í allar áttar. Þegar þannig er horft á tilvistina fá orðin „hversdagslegt“ og „venjulegt“ á sig býsna aðra merkingu – eða réttara sagt missa algjörlega merkingu sína.
En samt er þessi alheimur nægilega reglu– og lögmálsbundinn til að leiða tilvist okkar fram og leggja okkur til það vit sem gerir okkur kleift að gera okkur grein fyrir stöðu okkar mitt í þessu öllu og spyrja stórra og magnaðra spurninga um tilvistina, um uppruna hennar, merkingu, tilgang og eðli og örlög okkar sjálfra.
Mörgum finnst Guð ekki passa inn í þessa mynd eða vera svar við neinum spurningum sem einhverju máli skipta. En þegar við hugsum um þá mynd sem blasir við og spyrjum okkur stóru spurninganna – Af hverju er eitthvað til frekar en ekkert? Hvert er upphaf þessa alls? o.s.frv. – þá eru í raun og veru aðeins þrír möguleikar í boði. Hver þeirra er nógu „hversdagslegur“ og „venjulegur“ og þar með „yfirstíganlegur“ til að teljast ásættanlegur í huga nútímamannsins, hvort sem hann telur sig hafa viðunandi þekkingu á hinni vísindalegu aðferð eða ekki?
Valmöguleiki 1# er sá að Guð skapaði alheiminn!
Á bak við alheiminn er að finna óskapaðan og eilífan veruleika sem jafnframt er orsök alls annars sem til er. M.ö.o. er að finna á bak við (eða utan og ofan við) þennan efnislega og náttúrulega veruleika annarskonar veruleika, yfirnáttúrulegan veruleika, Guð, sem alltaf hefur verið til og er orsök og ástæða þess að alheimurinn varð til. Nú skal ég vera fyrstur til viðurkenna að hér er um magnaða staðhæfingu að ræða sem við munum aldrei ná utan um að öllu leyti. Og ég hef skilning á því að margir eigi erfitt með að fallast á hana og streitist jafnvel á móti henni með öllum mögulegum og ómögulegum ráðum.
En hverjir eru hinir valkostirnir? Eru þeir „náttúrulegri“ eða „vísindalegri“?
Valmöguleiki 2# er sá að gjörvallur alheimurinn hafi einfaldlega sprottið fram úr alls engu (það er jú ekkert annað til en alheimurinn skv. náttúruhyggjunni) og það án nokkurrar útskýringar eða ástæðu.
Er það „hversdagslegri“ eða „venjulegri“ eða „rökréttari“ möguleiki sem „auðveldara“ er að ná utan um? Nei, það er stórkostlega undarlegur möguleiki, svo ekki sé fastar að orði kveðið, sem ekkert auðveldara er að ná utan en hinn fyrrnefnda. Hvaða vit er líka í því að ætla að eitthvað geti orðið til úr bókstaflega engu? Við hljótum að spyrja okkur: Ef það var einhvern tíma svo að eitt sinn hafi bókstaflega(!) ekkert verið til, hvað ætti þá að vera til núna? Það þarf ekki lágmarkskunnáttu í vísindalegri aðferð til að svara því. Blasir svarið ekki við?! Ekkert! Ekki neitt! Ekkert er jú „alls ekki neitt“, bókstaflega ekkert. Ekkert er ekki bara tómarúm (sem er jú eitthvað). Það er ekki bara fjarvera einhvers heldur bókstaflega fjarvera alls og sem slíkt hefur það enga eiginleika og ekki nokkra einustu getu til neins. Það getur ekki gert nokkurn skapaðan hlut. Það kemur engu til leiðar og hefur engin á áhrif á neitt (enda er ekkert til að hafa áhrif á) og skapar eða orsakar sannarlega ekki alheim.
Frá engu kemur einfaldlega ekkert!
Sú frumspekilega kennisetning er hornsteinn allrar skynsamlegrar og vísindalegrar hugsunar. Sú staðhæfing að eitthvað geti ekki orðið til án nokkurrar orsakar upp úr bókstaflega engu virðist augljóslega sönn og samræmast öllum skynsamlegum mælikvörðum, – hún er í öllu falli mun sennilegri heldur andstæðan (að eitthvað geti orðið til upp úr bókstaflega engu) og því eru það engin svik við skynsamlega hugsun að sópa þeim möguleika út af borðinu. Ef það væri nú raunin að eitthvað gæti orðið til úr engu þá má spyrja sig hvers vegna hvað sem er verði ekki í sífellu til úr engu? Af hverju bara þessi alheimur sem við erum hluti af? Hvaða takmörkunum gæti „ekkert“ verið háð sem gerir það að verkum að það framleiðir einungis alheim, þennan alheim, og með honum mig og þig? Hvað getur líka verið óvísindalegra en að ætla að af engu geti komið eitthvað? Vísindi eru jú fólgin í leit að orsökum, ástæðum fyrir því að hlutirnir eru eins og þeir eru. Þar fyrir utan staðfestir öll okkar þekking og reynsla, vísindaleg og hversdagsleg, undantekningarlaust, að hlutir sem verða til eiga tilvist sína að þakka undanfarandi orsökum.
Hver er þriðji valmöguleikinn?
Valmöguleiki 3# er sá að alheimurinn (eða jafnvel röð alheima) eigi sér alls ekkert upphaf og hafi því ekki orðið til (á einhverju augnabliki í fyrndinni) heldur hafi einfaldlega alltaf verið til og teygi sig því óendanlega langt aftur í tíma.
Eilífur alheimur án upphafs! Er það betri kostur en sá á undan? Er hann skynsamlegri, ásættanlegri eða einfaldari að yfirstíga og ná utan um? Ég get ekki séð það. Ýtum við ekki bara undarlegheitunum á undan okkur? Ef til vill má útskýra sérhvern hluta alheimsins, eða alheiminn á hverjum tíma, á grundvelli einhvers hluta alheimsins sem á undan kom. En eftir sem áður myndum við ekki hafa nokkra einustu útskýringu á því hvers vegna alheimurinn er til yfirhöfuð eða hvers vegna eitthvað er til fremur en ekkert.
Þegar við við kynnum óendanleikann til sögunnar í sambandi við tilvist alheimsins lendum við líka mjög fljótt í hringiðu fáránleikans. Spurðu þig, að því gefnu að óendanlega mörg augnablik (eða atburðir) hafi liðið (eins og raunin væri í alheimi sem alltaf hefur verið til): Hvers vegna er núna núna? Hvernig gátum við eiginlega náð til augnabliksins hér og nú? Hvernig gat dagurinn í dag runnið upp ef það var aldrei neinn fyrsti dagur (eða augnablik) og óendanlega margir dagar (eða augnablik) urðu fyrst að koma og fara, einn í einu, á undan deginum í dag? Það hefði auðsjáanlega aldrei geta komið að deginum í dag! Dagarnir á undan hefðu aldrei náð til hans (því óendanlega margir dagar urðu fyrst að koma og fara – og það sem er óendanlegt tekur aldrei enda). Við gætum allt eins reynt að færa okkur niður eftir óendanlega háum stiga (þ.e. stiga sem á sér ekkert upphaf) með því að fikra okkur frá einu þrepi til þess næsta. Það er ekki hægt. Ekkert frekar en við gætum talið aftur á bak frá óendanleika og komist að núlli. Það blasir því við að augnablikið hér og nú gæti aldrei hafa runnið upp í eilífum alheimi, ekkert frekar en að röðin kæmi að þér í óendanlega langri biðröð þar sem einhver er alltaf á undan þér. Hin rökrétta og skynsamlega niðurstaða blasir við: Alheimurinn hefur ekki alltaf verið til. Hann á sér upphaf eða fyrsta augnablik.
Burtséð frá óskynseminni sem fólgin í er í honum er þessi möguleiki, að alheimurinn sé eilífur og hafi því alltaf verið til, alls ekki vísindalegri en sá á undan enda hafa vísindi rennt býsna traustum stoðum undir þá skynsamlegu niðurstöðu að alheimurinn eigi sér upphaf. Elífur alheimur var vissulega hið viðtekna viðhorf allt frá dögum Aristótelesar og fram undir lok 19. aldar. En nú eru yfir hundrað ár liðin síðan sú aristótelíska hugsun leið undir lok fyrir tilstilli vísindalegra uppgötvana og þekkingar – sem enginn sá fyrir – sem benda eindregið til þess að alheimurinn hafi orðið til fyrir 13,7 milljörðum ára, á tilgreindu augnabliki sem kallað er Miklihvellur (sem var þó enginn hvellur í hefðbundinni merkingu þess orðs). Þar á undan var alheimurinn einfaldlega ekki til. Það var enginn tími, ekkert rúm, ekkert efni og engin orka!
Einnig má í þessu samhengi nefna varmafræðilega eiginleika alheimsins. Samkvæmt náttúruhyggjunni er alheimurinn jú bara eitt gríðarstórt lokað kerfi, og rétt eins og öll lokuð kerfi missir hann orku sína statt og stöðugt enda er ekkert utanaðkomandi sem fyllir á þverrandi orku hans. Alheimurinn er eins og heitur kaffibolli sem stendur óhreyfður á borðinu og kólnar uns hann verður ískaldur. Í raun er alheimurinn eins og gangverk sem búið er að trekkja upp og hægir á sér jafnt og þétt uns það óhjákvæmilega stoppar. Með sama hætti blasir við að alheimurinn verður á endanum hreyfingarlaus, kaldur, ljóslaus og lífvana, eins og klukkan sem getur ekki gengið lengur eða bollinn sem er orðin kaldur. En ef alheimurinn hefur alltaf verið til, þ.e. ef óendanlega langur tími hefur liðið nú þegar, þá ætti hann að vera í slíku ásigkomulagi núna. Raunar ætti það að hafa gerst fyrir óendanlega löngum tíma. En svo er ekki.
Allt bendir þetta í sömu átt, til alheims sem hefur ekki alltaf verið til heldur á sér upphaf. Og í raun má segja að aldrei í sögunni hafa vísindin verið jafn opin fyrir því að alheimurinn eigi sér orsök og sé því ekki tæmandi lýsing á veruleikanum enda bendir allt til þess að eitthvað annað og meira hljóti að vera til utan við tímann, rúmið, efnið og orkuna, eitthvað sem er ástæða þess að alheimurinn varð til. Það setur staðhæfingar um að hið yfirnáttúrulega sé vísindalega óhugsandi í annað ljós.
En burtséð frá því þá eru þetta möguleikarnir sem í boði eru þegar við veltum fyrir okkur eðli alheimsins og tilvistarinnar eins og við þekkjum hana: Annað hvort hefur hann alltaf verið til eða ekki! Ef ekki, þá virðist blasa við að eitthvað annað, eitthvað utan hans, hafi orsakað tilvist hans, eitthvað óbundið af tíma, rúmi, efni og orku, eitthvað ótrúlega máttugt og skapandi, sem alltaf hefur verið til og leiddi til þess að alheimurinn varð til. Enda verður ekkert til af engu! Og þetta „eitthvað“ er ekki langt frá því sem í hefðbundinni merkingu þess orðs er vanalega kallað „GUГ.
Eðlisfræðingurinn P.C.W. Davies orðaði það sem svo að „tilkoma alheimsins, eins og um hana er rætt innan nútíma vísinda ... er ekki aðeins fólgin í því einhverskonar reglu sé komið á fyrirliggjandi óreiðukennt ástand heldur bókstaflega tilkomu alls efnislegs veruleika úr engu.“
Í því ljósi verða ummæli Eddingtons gamla, sem var enginn sérstakur trúmaður, afar áleitin: „Upphaf alheimsins virðist valda óyfirstíganlegum erfiðleikum nema við séum tilbúin að líta á það hreinlega sem yfirnáttúrulegt.“
Eru þessir þrír valkostir ekki allir með einhverjum ólíkindum, ef svo má segja? Er einhver þeirra „hversdagslegur“ í raun? Ég fæ ekki séð að einn þeirra sé „venjulegri“ en hinir. Þeir liggja allir handan þess sem kalla má hið venjulega og hversdagslega sem hugsun okkar og skilningur rúmar. En hitt tel ég augljóst að í samanburði við hina er það einungis fyrsti möguleikinn sem eitthvað vit er í.
Nú segir kannski einhver: „Jú, þetta hljómar allt hálf ótrúlegt og fáránlegt. Ætli það sé ekki best að láta þetta bara liggja, láta þetta eiga sig, gangast við engu og neita engu, segjast bara ekkert vita eða geta vitað.“ Jú, það er möguleiki. Efahyggja er valkostur, sérstaklega ef hún er ekki lokuð í báða enda. Margir velja hana, meðvitað eða ómeðvitað. En það breytir ekki því að einn þessara valkosta hlýtur að vera réttur. Og eins og fram hefur komið erum við ekki alveg í myrkrinu í þessum efnum. Skynsamlega og vísindalega upplýst hugsun, sem guðleysingjar hampa og segja yfirleitt að tali fyrir sínum viðhorfum, hefur margt að segja hér. Og hún bendir eindregið í þá átt að eitthvað sé til utan og ofan við hinn náttúrulega og efnislega veruleika, eitthvað yfir–náttúrulegt í réttum skilningi þess orðs. Í öllu falli þarf enginn upplýstur, hugsandi einstaklingur, sem þykir vænt um skynsemi sína, að skammast sín fyrir að gangast við tilvist þess – þvert á það sem Helgi Hrafn og félagar vilja telja okkur trú um.
C.S. Lewis kemst vel að orði í þessu samhengi:
„Í öllu falli verður að líta svo á að upphafið hljóti að hafa verið utan við hina hefðbundnu framvindu náttúrunnar. Egg sem kom frá engum fugli er engu „náttúrulegra“ en fugl sem hefur verið til um alla eilífð. Og þar sem egg-fugl-egg röðin leiðir okkur ekki að neinu sennilegu upphafi er þá ekki skynsamlegra að leita að hinu raunverulega upphafi einhvers staðar utan við röðina sjálfa? Þú verður að fara út fyrir röð véla og inní heim manna til að finna raunverulegan orsakavald eldflaugarinnar. Er ekki með sama hætti skynsamlegt að leita út fyrir náttúruna til að finna raunverulegt upphaf og orsakavald hins náttúrulega?“
Sjálfum finnst mér það liggja í augum uppi – þó ég tefli skoðunum mínum ekki fram sem óhrekjanlegum sannindum. En ég tala vitaskuld bara fyrir mig.
Burtséð frá því finnst mér það all sérstakt af vini mínum guðleysingjanum að láta eins og það sé óhugsandi að til sé yfirnáttúrulegur veruleiki, eða einhvers konar Guð, sem hafi komið öllu til leiðar úr engu (þótt það sé vissulega hugsun sem erfitt er að ná utan um að öllu leyti) en láta eins og það sé miklu eðlilegra, náttúrulega og auðveldara, að ekki sé sagt vísindalegra og skynsamlegra, að hugsa sér að ekkert hafi breytt sér í allt, eða að allt hafi alltaf verið til. Hvorugt rímar enda við röklega og vísindalega upplýsta hugsun og er heldur ekkert sem leiðir af reynslu okkar af, og þekkingu okkar á, heiminum sem krefst þeirrar ályktunar og afstöðu.
Höfundur er prestur Árborgarprestakalls.
https://theconversation.com/curious-kids-is-there-such-a-thing-as-nothing-197223?utm_medium=email&utm_campaign=Latest%20from%20The%20Conversation%20for%20January%2017%202023%20-%202518125275&utm_content=Latest%20from%20The%20Conversation%20for%20January%2017%202023%20-%202518125275+CID_127ec3a1ef0c2c4b8c3e8c4ba6a02ded&utm_source=campaign_monitor_uk&utm_term=Curious%20Kids%20is%20there%20such%20a%20thing%20as%20nothing
Hér má finna grein Helga Hrafns í heild sinn:
https://www.facebook.com/helgihg/posts/pfbid0ae1p8DFcdy4RxRZ7zEbt8WBDorFfKwkKrw5MrcmjHXihxU8JrmHS2Lspgmue5Jwgl