Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, greindi frá því í morgun að hún myndi ekki leika fleiri landsleiki fyrir Íslands hönd. Sara Björk er 32 ára gömul og hefur verið lykilleikmaður í kvennalandsliðinu nær allar götur frá því hún lék sinn fyrsta landsleik 16 ára gömul.
Hún hefur leikið 145 landsleiki frá árinu 2007 og segir, í yfirlýsingu sem hún birti á samfélagsmiðlum, að hún telji rétt að kveðja landsliðið á þessum tímapunkti knattspyrnuferilsins.
Sara hefur tvívegis verið valin íþróttamaður ársins í kjöri íþróttafréttamanna, árin 2018 og 2020. Hún hefur leikið með nokkrum af fremstu knattspyrnuliðum Evrópu, meðal annarra Wolfsburg í Þýskalandi og Lyon í Frakklandi, auk Juventus á Ítalíu, þar sem hún leikur nú.
Sara Björk segir að hún líti stolt til baka á landsliðsferilinn og það að hafa verið hluti af landsliði Íslands sem komst í fyrsta sinn á Evrópumót árið 2009 og þakkar KSÍ, öllum þjálfurum, starfsmönnum og leikmönnum landsliðsins fyrir, í færslu sem hún birti á Twitter í morgun.
„Ég óska sambandinu og liðinu alls hins besta og bjartrar framtíðar,“ segir Sara Björk í færslu sinni.
Athugasemdir