Smáþorpið Lützerath í vesturhluta Þýskalands er á barmi hengiflugs. Í orðsins fyllstu merkingu. Fyrirtæki sem starfrækir opna kolanámu í næsta nágrenni þess ætlar að brjóta húsin niður, múrstein fyrir múrstein, svo stækka megi námuna – gera hina gríðarstóru holu sem fyrir er í jörðinni enn stærri og dýpri.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sveitaþorp í grennd við námuna, á svæði sem er ríkt af kolum, hverfa af yfirborði jarðar vegna stækkunar hennar. Langt frá því. En nú, á tímum mikillar vitundarvakningar um loftslagsmál og með tilkomu samfélagsmiðla þar sem hægt er að koma skilaboðum hratt og vel um allan hnöttinn ef því er að skipta, er komið babb í bát kolafyrirtækisins. Því síðustu vikur hafa aktivistar hvaðanæva að úr heiminum þyrpst til Lützerath. Og þetta fólk lætur ekkert stoppa sig. Það ætlar með öllum ráðum að stoppa jarðýturnar.
„Það er gríðarlega gott að finna fyrir stuðningi þessarar stóru hreyfingar,“ segir David Dresen, talsmaður samtakanna All Villages Must Stay, sem berjast fyrir verndun þorpanna á þessu helsta kolasvæði Þýskalands. Samtökin starfa í þágu fólks og loftslags og hafa nú fengið mikinn liðsauka í baráttunni fyrir tilveru Lützerath.
Flestir þeir sem leggja nú mótmælunum lið eru frá Evrópulöndum. En stuðningur kemur mun víðar frá. Fólk ýmist mætir í eigin persónu og steytir hnefann eða berst fyrir málstaðnum á netinu.
Garzweiler-náman er eins og sviðsmynd af Tunglinu. Rétt við Lützerath blasir við ógurleg hola, allt að 200 metra djúp og um 80 ferkílómetrar að flatarmáli. Þessari stærð hefur hún náð á mörgum áratugum og á þeim tíma hafa um 20 þorp verið jöfnuð við jörðu.
Næsta þorp sem á að hljóta þau örlög er Lützerath.
Allt frá miðri 19. öld hefur verið grafið eftir kolum í Rínarlöndum, héruðunum í vestanverðu Þýskalandi. Og nú hefur síðasti bóndinn við Garzweiler-námuna selt jörð sína til þýska kolarisans RWE. Hann hefur þegar yfirgefið býlið.
Um þúsund mótmælendur eru nú samankomnir í Lützerath. Aðdragandi mótmælanna hefur þó verið langur eða um tvö ár. Í þessi tvö ár hafa nokkrir þeirra dvalið í þorpinu eða allt frá því að áform RWE voru kunngjörð. Fólkið hefur sest að í yfirgefnum húsum í þorpinu eða hafist við í trjáhúsum sem það hefur byggt á síðustu bújörðinni.
Umdeilt er hvort stækkun námunnar sé í anda háleitra loftslagsmarkmiða þýskra stjórnvalda sem stefna að því að loka kolaverum sínum á næstu árum. Það var að minnsta kosti niðurstaða þýsku hagfræðistofnunarinnar sem komst að því með rannsókn sinni árið 2021 að stækkunin bryti í bága við skuldbindingar Þjóðverja samkvæmt Parísarsáttmálanum. Í skýrslu stofnunarinnar kom fram að stefnt væri að því að draga úr kolaframleiðslu og notkun, ekki auka hana.
Í haust gerði héraðsstjórnin á svæðinu samkomulag við RWE um að draga úr kolaframleiðslu og að henni verði hætt árið 2030. Það er átta árum fyrr en fyrra samkomulag hafði gert ráð fyrir. Þetta nýja samkomulag fól í sér að fimm þorpum sem annars hefðu þurft að víkja fyrir stækkunum kolanáma yrði þyrmt. En hins vegar er Lützerath ekki þeirra á meðal. Því „þarf að fórna“ sagði efnahags- og loftslagsráðherra héraðsins af þessu tilefni. „Þótt ég hefði viljað hafa þetta öðruvísi þá verðum við að viðurkenna raunveruleikann,“ sagði ráðherrann.
Aftur horft til kolanna
Orkukrísan sem herjað hefur á Evrópuríki frá innrás rússneskra herja í Úkraínu var að ná hápunkti er samkomulagið var samþykkt. Í þeirri erfiðu stöðu fóru að heyrast raddir um að draga þyrfti úr væntingum um að ná loftslagsmarkmiðum á tilsettum tíma. Meðal annars að fresta þyrfti lokun kolavera og fýra aftur upp í þeim sem þegar var búið að loka.
Kol, kol og aftur kol. Kol voru hluti að lausninni út úr orkukrísunni. Setja þyrfti orkuöryggi á oddinn og tryggja að orkan fengist áfram á viðráðanlegu verði.
Og í ljósi alls þessa var samið við RWE um að þeir mættu stækka Garzweiler-námuna gegn því að stækka ekki allar hinar. Framtíðin ein mun leiða í ljós hvort staðið verði við það.
Claudia Kemfert, sérfræðingur í orku- og umhverfismálum hjá þýsku hagfræðistofnuninni telur ákvörðun héraðsstjórnarinnar illskiljanlega. „Rannsókn okkar sýndi svo ekki var um villst að ekki þarf að eyðileggja Lützerath. Það er nóg af kolum í þeim kolanámum sem fyrir eru.“
Hún segir hins vegar að til framtíðar litið þurfi að margfalda orkuframleiðslu í Þýskalandi til að halda orkuöryggi. En það þurfi og eigi að gerast með endurnýjanlegum orkugjöfum, þ.e. virkjun vinds og sólar. Hún gagnrýnir ennfremur skort á samráði vegna stækkunar námunnar.
Mótmælendurnir í Lützerath líta málið sömu augum. Þeir vilja að héraðsstjórnin „taki í handbremsuna“ og stöðvi allar niðurrifsframkvæmdir. Þeir benda á að Lützerath sé orðið að táknmynd þeirra erfiðleika sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir við það að hætta notkun jarðefnaeldsneytis líkt og að er stefnt í flestum ríkjum heims.
Niðurrif þorps til að grafa megi eftir kolum og hreppaflutningar fólks af þessum sökum, eigi ekki að líðast í samfélagi sem ætlar sér að verða leiðandi í loftslagsmálum á heimsvísu.
Kolafyrirtækið RWE hefur eignast hvert einasta hús í þorpinu. Borgað fólki fyrir að flytja svo brjóta megi niður hús og grafa tugi metra ofan í jörðina eftir brúnkolum, þeim mest mengandi af öllum kolum. Allir íbúarnir sem þar bjuggu eru fluttir. En húsin þeirra eru ekki tóm því í þeim dvelja mótmælendur nú í tugavís.
Og þessir nýju íbúar Lützerath ætlar sér ekki að fara þrátt fyrir að lögreglan hafi verið kölluð á vettvang, myndi múr á milli þeirra og vinnuvélanna sem berja á húsunum til að brjóta þau niður. Því hefur verið sagt að það hafi frest þangað til á morgun, þriðjudag, til að yfirgefa svæðið. Ef það fari ekki sjálfviljugt verði það fjarlægt með valdi.
Athugasemdir