Guðrún Johnsen hagfræðingur hefur verið ráðin sem ráðgjafi yfirstjórnar danska seðlabankans í málefnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og Alþjóðagreiðslubankanum (BIS). Hún hefur undanfarin ár starfað sem lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn (CBS) og setið í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Guðrún, sem greindi frá vistaskiptunum á LinkedIn, mun hætta í stjórn sjóðsins samhliða því að hún tekur við nýju starfi. Hún hefur setið í stjórn lífeyrissjóðsins, sem er sá næst stærsti á Íslandi, síðan sumarið 2019.
Guðrún á að baki yfir 20 ára feril sem háskólakennari og kenndi áður við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og við Oslóarháskóla. Auk þess sem hefur hún starfað sem rannsakandi á sviði fjármála og efnahagsmála hjá alþjóðlegum stofnunum. Frá 2009-2010 starfaði Guðrún hjá Rannsóknarnefnd Alþingis og gaf út bókina „Bringing Down the Banking System – Lessons from Iceland“ árið 2014.
Hún hefur lokið doktorsprófi í hagfræði frá ENS í Frakklandi og meistaragráðum í bæði tölfræði og hagnýtri hagfræði frá University of Michigan. Frá 2009-2010 starfaði Guðrún hjá Rannsóknarnefnd Alþingis, en eftir hana liggja margar greinar, bókarkaflar og bók um fjármálakreppuna miklu.“ Þá var hún um tíma stjórnarformaður Gagnsæis, sem í dag Heitir Transparency International á Íslandi.
Áberandi í umræðunni
Guðrún hefur verið áberandi í umræðu um efnahagsmál og viðskipti á undanförnum árum. Hún sat í stjórn Arion banka í tæplega átta ár en var látin hætta þar síðla árs 2017 eftir að hafa greitt atkvæði í stjórninni gegn umdeildri sölu á hlut bankans í Bakkavör í nóvember 2015 og lagði það síðan til á fundi stjórnar Arion banka 14. nóvember 2018 að gerð yrði könnun á söluferli eignarhlutarins. Sú tillaga var felld.
Í minniblaði sem Bankasýsla ríkisins skrifaði Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, vegna þeirrar sölu, sem stofnunin mat að ríkissjóður hafi tapað 2,6 milljörðum króna á, kom fram að degi eftir að Guðrún lagði fram tillöguna hafi henni verið tjáð að „breytingar væru fyrirhugaðar á stjórn bankans og [hennar] aðkomu væri ekki óskað“.
Í fyrra var hún gagnrýnin á sölu ríkisins á 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka sem fram fór í mars í fyrra í lokuðu útboði með tilboðsleið. Guðrún hefur meðal annars sagt að hún telji að lög hafi verið brotin við söluna þar sem lögum samkvæmt eigi að leggja áherslu á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni, að leitað sé hæsta verðs, að tilboðsgjafar njóti jafnræðis og að salan efli virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði. Því hafi ekki verið að skipta þegar hluturinn í Íslandsbanka var seldur.
Athugasemdir