Ef við setjum umræður um hin svokölluðu tröll í þrettándagleði ÍBV í samhengi við kynþáttafordóma virðast þær endurspegla svipuð mál sem hafa átt sér stað á undanförnum árum þegar birtingarmyndir rasisma hafa verið gagnrýndar í íslensku samfélagi. Við sjáum þannig að einhverju leyti svipuð þemu í viðbrögðum ólíkra aðila við þessu máli, það er að rasismi hafi ekki verið áætlunin; að þetta séu ekki fordómar og að fólk eigi ekki að vera svona hörundsárt. Mikilvægur þáttur í rasisma á Íslandi hefur einmitt verið að staðsetja landið utan við sögu kynþáttafordóma, en hér og erlendis aðskilur fólk sig einnig oft frá fordómum með því að reyna að smætta þá í viðhorf eða ásetning ákveðinna persóna. Rasismi er miklu meira heldur en að einhver einstaklingur ætlaði að gera eitthvað; hann snýst jafnframt um kerfisbundnar birtingarmyndir ákveðinna hópa og misrétti sem þeir verða fyrir.
„Rasismi er miklu meira heldur en að einhver einstaklingur ætlaði að gera eitthvað.“
Það er fyrir löngu síðan kominn tími á að horfast í augu við að á Íslandi viðgengst hvort tveggja kvenfyrirlitning og kynþáttafordómar, sem skarast í mjög mörgum tilfellum. Við þurfum að spyrja hvernig þessar fígúrur líta út ef það er upphafspunktur umræðunnar. Í því ljósi, hvaða merkingu hefur dökka fígúran með eldrauðar og þykkar varir? Það er sérlega sláandi þegar haft er í huga að fígúran á að tákna konu sem hefur reynt að vekja athygli á fordómum og þegar orðið fyrir áreiti og hatursorðræðu vegna þess.
Það er líka mikilvægt að undirstrika að á undanförnum árum hafa fordómar í garð múslima verið sterk birtingarmynd kynþáttafordóma, ásamt skrípamyndum af dökku fólki. Hin fígúran er eins og staðalmynd af múslima, þannig að sú fígúra talar líka inn í langa sögu fordóma. Hér þarf upphafspunktur umræðunnar einnig að vera sá að fordómar í garð múslima eru veruleiki á Íslandi og að fígúran talar inn í samfélag þar sem múslimar upplifa haturorðræðu og útilokun.
Hvernig ætla þeir sem standa fyrir þessu að bregðast við þessum tveimur fígúrum í þessu ljósi? Og hvað ætla þeir að gera í framtíðinni til þess að þessi skemmtun verði ekki einfaldlega aðgengilegur vettvangur til að tjá fordóma og ýta undir hatur í garð ólíkra hópa og eða einstaklinga – burtséð frá hvað þeir sem koma að þessu ætluðu sér?
Athugasemdir (6)