„Ætli þetta sé ekki eins og að fá Messi í Val og íslensku deildina.“ Þessi orð lét heilbrigðisráðherra falla í desember árið 2021 þegar hann réð Björn Zoëga sem sérstakan ráðgjafa sinn.
Ári seinna, um það leyti sem argentínski snillingurinn lyfti heimsmeistaratitlinum í Katar, barst neyðarkall frá starfsfólki Landspítalans. Ástandið er verra en nokkru sinni fyrr, segir formaður Læknafélags Íslands. Gangarnir eru fullir af veiku fólki, starfsfólk kulnar, segir upp, þjónustan skerðist. Okkar eigin Lionel Messi tók þennan bolta á kassann. Í viðtali við RÚV sagði Björn spítalann vera fullfjármagnaðan: „Þetta er ekki spurning um peninga – þetta er spurning um að koma á skipulagi og horfa lengra fram í tímann.“
„Þetta er ekki spurning um peninga – þetta er spurning um að koma á skipulagi.“
Þessi rök urðu hávær í heimsfaraldrinum: spítalinn væri ekki vanfjármagnaður, þar væru bara of margir millistjórnendur, of margir að bora í nefið. Þetta er sniðug taktík. Svo abstrakt. Því er alheimurinn ekki einn stór skipulagsvandi?
Annað lögmál varmafræðinnar segir okkur að öll kerfi stefni að stöðugt meiri óreiðu þar til þau eyðist – alheimurinn er skipulagsvandi. Svarthol gleypa í sig vetrarbrautir, utanlandsferðir fara úr böndunum, fólk situr fast í umferðarteppu, hjónabönd fara í vaskinn – út af skipulagsvanda. Meira að segja vel fjármögnuð hjónabönd.
Nei: Landspítalinn, starfsfólk hans og sjúklingar eiga eitthvað betra skilið. Annars fara orð heilbrigðisráðherra um okkar eigin Messi að minna meira og meira á orð foreldra sem segir krökkunum að nei, við ætlum ekki að borða á ítalska veitingastaðnum í kvöld, við eigum þessa flottu ítölsku pitsu heima, hún er í neðsta hólfinu í frystinum, bökuð í útjaðri Chicago fyrir hálfu ári, flutt til landsins með gámaskipi, þarf bara fjórar mínútur í örbylgjunni.
Með öðrum orðum: Þetta er eins og að fá Lionel Messi í Val – og þótt hann hafi ekkert skorað fyrsta árið á Hlíðarenda erum við róleg, þetta er spurning um leikskipulag, þetta er spurning um að horfa langt, alveg hrikalega langt, fram í tímann.
Athugasemdir (1)