Nýliðið ár gat þjónað sem námskeið í valdakerfi heimsins. Hvert málið af öðru sýndi hvernig ólíkar tegundir valds hafa vaxið eða minnkað að mikilvægi og ekki síður hvernig ólíkir þræðir valdsins hafa spunnist saman á nýjan hátt. Spurningar um það hvernig ríki, stór og smá, geti helst hagað sér við nýjar aðstæður í heiminum urðu brýnni og kostir í þeim efnum sumpart ljósari.
Svipur og gulrætur
Vald snýst alltaf um getu þess sem valdið hefur til að ráða hegðun annarra. Í samtímanum gerist þetta með flóknari hætti en áður. Ríki koma vilja sínum sjaldnast fram með hervaldi en oftar með þögulli ógn um einhvers konar valdbeitingu og þá oftar efnahagslegri en hernaðarlegri. Frá degi til dags eru það þó fyrirheit um gulrætur frekar en hótanir um svipuhögg sem ráða hegðun ríkja. Ríki um allan heim ná líka mun meiri árangri á öllum sviðum með þátttöku í nánu samstarfi en með áherslu á óskorað sjálfstæði og sérstöðu. Náið samstarf við nágranna er draumur Úkraínu. En martröð valdhafa í Rússlandi.
Aukin friðsemd en vaxandi núningur
Útilokun frá samstarfi er líka orðin algengari og áhrifameiri aðferð en þvingun til þátttöku. Sú þróun hefur gert heiminn friðsamlegri en áður. Hún helst í hendur við heimsvæðingu viðskipta, menningar og stjórnmála.
Um leið hefur hins vegar heimsvæðing pólitískra gilda eins og mannréttinda, lýðræðis og jafnræðis aukið spennu í alþjóðamálum. Það væri þægilegast fyrir Vesturlönd og ríki Suðaustur Asíu að líta framhjá glæpum ógnarstjórnar hersins í Mjanmar og stunda þar ótrufluð viðskipti. Og að vera ekki að pirra olíufurstana við Persaflóa. Eins hefði verið öllu ódýrara að láta undan Rússum og skipta sér ekki af örlögum Úkraínu. En áhrif siðferðilegra viðmiða í alþjóðakerfinu hafa vaxið, þrátt fyrir allt.
Vond vist
Einangrun og óskorað fullveldi hefur orðið sífellt minna fýsilegur kostur fyrir jafnvel hörðustu einræðisstjórnir. Þetta er ekki aðeins vegna truflana á aðgengi elíta að vestrænum lúxusi, þótt hann pirri valdamenn, heldur miklu víðtækara og dýpra vandamál. Afleiðingar einangrunar eru ekki aðeins efnahagsleg vandræði og pólitísk óánægja heima fyrir heldur er árangur ríkja í nær öllum greinum lífsins sífellt meira undir því komin að þau séu sem opnust til umheimsins. Þessi þróun hefur breytt innbyrðis vægi hinna margvíslegu tegunda valds í heiminum, breytt hagsmunamati ríkja og haft djúp áhrif á samtíð okkar.
Sömu spurningar en önnur svör
Grunnspurningarnar í alþjóðapólitík eru þó alltaf þær sömu. Þær snúast um hvernig vald verður til og hvernig ríki umgangast þann veruleika sem ólikt vald einstakra ríkja leiðir af sér. Sem fyrr snýst valdapólitík allra ríkja um að hámarka sinn eigin hag. Jafnvel sterkustu og opnustu ríki þurfa sífellt að leita leiða til koma ár sinni sem best fyrir borð. Aðferðirnar til þess hafa hins vegar breyst.
Frá Stalíngrad
Klassíska valdið er hervald. Vald sterkra ríkja í heiminum hefur í þúsundir ára byggst á beitingu hervalds eða hótunum um ofbeldi. Beinn hernaður vék smám saman í rás tímans fyrir hótunum eins og sjá má af sögu breska heimsveldisins og öryggiskerfa kalda stríðsins sem tóku við af því. Útreikningar á styrk ríkja snerust um herstyrk og efnahagslegan mátt til að halda úti sterkum herjum. Þýskaland nasismans tapaði heimstyrjöldinni þegar samanlagður hernaðarstyrkur Sovétríkjanna og efnahagsmáttur Bandaríkjanna varð því ofviða. Tiltölulega fáum ríkjum er nú ógnað af hervaldi, þótt þeim hafi fjölgað að undanförnu. Þetta eru einkum lönd á jöðrum Rússlands og Kína.
Til Harvard og Hollywood
Vald Bandaríkjanna byggðist aldrei á hernaðarmættinum einum þótt hann væri yfirþyrmandi og honum beitt, stundum af glæpsamlegri sjálfhverfu. Efnahagslegir yfirburðir Bandaríkjanna og forusta í vísindum sem og tækifæri almennings og alþýðumenning landsins gerðu Bandaríkin öllu eftirsóknarverðari en Sovétríkin eða þá Rússland samtímans. Þarna var máttur sem réði smám saman úrslitum í mörgum helstu átakamálum heimsins, stundum kallað mjúkt vald. Það byggist á aðdráttarafli en ekki ofbeldi, hótunum og ótta.
Tapað hervald
Bandaríkin töpuðu hins vegar stríðum, allt frá Víetnam og Kambódíu og til Íraks og Afganistan þrátt fyrir að nær helmingur hernaðarútgjalda mannkyns væri á þeirra vegum. Mjúkt vald Bandaríkjanna reyndist í raun sterkara en aflið sem fólst í sterkasta her sögunnar. Uppgjöf þeirra í Afganistan gaf ekki endilega öðrum ríkjum aukið vald heldur sannaði vanmátt hervaldsins. Eftirleikurinn sýndi átök nútímans við forneskju og ýtti líklega undir baráttu ungs fólks í nálægum löndum eins og Íran fyrir frelsi frá ríkjandi forheimskun.
Mjúka valdið og Úkraína
Við fyrstu sýn virðist stríðið í Úkraínu áminning um að ofbeldi er valdið sem ræður. Þegar nánar er gáð kemur annað í ljós. Tugir þjóða reynast reiðubúnar til að leggja á sig miklar og oft erfiðar byrðar til að hjálpa Úkraínu. Bandamenn Rússa nota hins vegar stríðið fyrst og fremst til að fá afslátt af olíu. Þrátt fyrir fegurð, dýpt og mannlegan sannleika í stóru framlagi Rússa til heimsmenningarinnar er Rússland nú án hins mjúka valds, líkt og Sovétríkin áður. Þau hrundu líka þrátt fyrir sitt ógnarafl í hernaði.
Rétt er að muna að mörgum ríkjum Evrópusambandsins hryllti við þeirri tilhugsun að ESB tæki með einhverju móti að sér fátæka og spillta Úkraínu árin fyrir innrásina. Stuðningurinn nú byggir því ekki á ásælni. Þetta veit Pútín sem taldi sjálfur að hótanir um dýrara gas myndi duga til að hræða Evrópu frá stuðningi við Úkraínu.
Vald vitsins
Við höfum lifað uppgangstíma einfaldra hugmynda um flókna hluti. Það gerði fólk líka fyrir hundrað árum. Sigrar popúlista víða um Vesturlönd og blóðug innrás Rússa í Úkraínu undir stjórn stærsta ídols popúlismans í heiminum eru hrollvekjandi, ekki síst fyrir þá sem þekkja sögu síðustu aldar.
En heimurinn hefur breyst og tengst saman með nýjum hætti. Valdið hefur færst til. Við erum ekki á leiðinni til baka. Nýjar kynslóðir um allan heim aðhyllast opin samfélög og mýkri gildi en þær eldri. Sú tegund valds sem þrátt fyrir allt sækir í sig veðrið í heiminum sprettur úr jarðvegi opinna samfélaga, frjórrar menningar, kunnáttusemi, vitsmuna og siðferðiskenndar. Heimurinn mun þó áfram einkennast af ófriði og líklega eru framundan alvarleg átök í Austur Asíu og víðar. Sívaxandi alþjóðlegt samstarf vekur minni athygli. Það snýst líka oft um að forða því að fréttnæmir hlutir gerist.
Athugasemdir