Við horfum upp á gamaldags stríð í Evrópu í fyrsta sinn síðan ég man eftir mér. Skriðdrekar, herþotur, skotgrafir og hetjur í Evrópu, retró landvinningastríð, borgarrústir, flóttamenn og nauðganir. Í fyrsta skipti skynjar maður stríð með hreinar línur eins og í seinni heimsstyrjöldinni, „góðan“ málstað og „hið illa“, utanaðkomandi innrásarher sem brýtur niður heimili annarra. Í fyrsta sinn er fólk sem maður kannast við, eða vinir vina, komið í búninga, jafnvel fallið í orrustu. Og allt í einu er maður að deila reikningsnúmeri úkraínska hersins og fer í klappliðið í von um að þeir fái bestu mögulegu vopnin.
Og um leið spyr maður sig líka og fær ákveðið óbragð, ef þetta er fyrsta „góða stríðið“ frá seinni heimsstyrjöld. Hvar voru og undir hvaða kringumstæðum voru þessi frábæru vopnakerfi þróuð? Írak? Lýbíu? Palestínu? Afganistan? Víetnam? Kóreu? Og hvað hefði verið hægt að gera við allar þær ótrúlegu upphæðir? Um leið og maður veltir fyrir sér af hverju hetjuskapur í stríði er svona heillandi og stórkostlegur, en venjuleg friðsamleg samskipti þjóða eru talin sjálfgefin og sjálfsögð, jafnvel frekar leiðinleg, yfirborðsleg og hláleg. Auðvitað er stríð milli Úkraínu og Rússlands jafn fáránlegt og stríð Noregs og Svíþjóðar. Líkari þjóðir er ekki hægt að finna og ef maður hugsar eins og Macchiavelli. Ef Pútín styrkti Trump til að veikja Ameríku, hver er að styðja Pútín til að veikja Rússland?
„Við eigum allt okkar undir því að styðja lýðræðisöflin í heiminum í orði og verki“
Það er margt sem maður sér í öðru ljósi í þessu stríði. Ég ólst upp á tíma kalda stríðsins og skynjaði alltaf að þrátt fyrir gallana væri austurblokkin samband ríkja sem aðhylltust kommúnisma og á einhvern hátt hafi þau verið byggð á hugsjón og kerfi sem fólk vildi trúa á. Til að láta þann draum rætast hafi máttur Rússlands skipt höfuðmáli til að viðhalda kerfinu. Núna er eins og önnur saga birtist, í nostalgíu Pútíns þá var austurblokkin fyrst og fremst nýlenda Rússlands og í stríðinu birtist sturluð þrá eftir að ná þessum fyrri glæsileika.
Og þar kemur kannski punkturinn um hvert framhaldið gæti orðið. Á meðan hægt er að skilja hvernig hugmyndir og hugsjónir breiðast út, hvernig landamæri breytast, þá er ekkert í Úkraínustríðinu sem gefur tilefni til þess að þar sé á ferðinni stríð sem gæti breiðst út um Evrópu. Á meðan hægt er að óttast popúlisma og fasískar tilhneigingar í samtímanum þá er erfitt að sjá fyrir sér hugsjónabylgju í austurblokkinni sem dauðlangar að leggja lönd sín undir Pútín ásamt vanhæfni og spillingu rússnesku blokkarinnar. Og þannig hefur Evrópusambandið, sem virtist við það að missa tilgang sinn með hugsanlegum Brexit bylgjum, vera búið að finna tilganginn aftur. Í samanburði við Rússland er þetta stórkostlegur vettvangur, með reglur, tilskipanir og opin landamæri, ekki síst vegna þess að einu sinni var öll Evrópa eins og Úkraína. Og þótt mönnum finnist mikið að 30.000 manns sitji við borð í Brussel þá er það um það bil sá fjöldi sem dó daglega frá 1939–1945. Það er alls ekki sjálfsagt að smáþjóð eins og Ísland sé með landhelgi og eignarrétt á landi og ríkulegum auðlindum. Við eigum allt okkar undir því að styðja lýðræðisöflin í heiminum í orði og verki. Allt.
Athugasemdir (2)