Það er oftast trúin hjá fólki að hlutirnir séu ætíð að batna, og að réttindabaráttu fólks fleyti fram eftir því sem á líður. Í réttindabaráttu hinsegin fólks hefur það verið raunin að mestu, en frá því að lög um staðfesta samvist voru samþykkt árið 1996 hefur hinsegin fólk hægt og rólega öðlast frekari réttindi, og viðhorf fólks í garð hinsegin fólks orðið jákvæðari. Margt hefur áunnist frá því að ég kom út úr skápnum fyrir rúmum tólf árum, og einn stærsti sigur í réttindabaráttu hinsegin fólks kom með lögum um kynrænt sjálfræði sem voru samþykkt 2019. Þau lög voru afurð margra ára vinnu og undirbúnings, og hlutu stuðning allra helstu mannréttindasamtaka, kvenréttindasamtaka og stofnana. Með þessum lögum (og síðari breytingum) var réttindastaða trans fólks og intersex fólks bætt svo um munaði.
En þrátt fyrir miklar flekabreytingar í réttindabaráttu hinsegin fólks þá virðist vegferðin ekki alveg jafn greið og búist var við. Á þessu ári hefur orðið „bakslag“ átt erindi við hinsegin samfélagið, en víðs vegar um heim hafa hreyfingar og pólitísk öfl sem eru fjandsamleg hinsegin samfélaginu risið upp á afturlappirnar – líka á Íslandi. Til að mynda hefur Miðflokkurinn stimplað sig inn sem andstæðingur réttindabaráttu hinsegin fólks ítrekað, og apað upp fordómafulla og fjandsamlega orðræðu frá Bretlandi í málefnum trans fólks. Fjölmiðlar hafa einnig tekið þátt í því að gefa út efni eða greinar sem eiga við engin rök að styðjast í nafni málfrelsis – og taka þar af leiðandi þátt í upplýsingaóreiðu, sem er vandamál sem hefur stigmagnast á undanförnum misserum.
„Hvað ætlar þú að gera til að sporna gegn bakslaginu?“
Hinsegin fólk á Íslandi hefur orðið vart við þetta bakslag á liðnu ári, en umfjöllun Kastljóss um þá fordóma og áreiti sem ungt hinsegin fólk verður fyrir var hrollvekjandi áminning um hversu fljótt fordómar og andúð geta undið upp á sig. Reglulega koma upp dæmi þar sem gelt er á hinsegin fólk út á götu af ungum mönnum, en slíkt á rætur sínar að rekja til öfgahópa á samfélagsmiðlum. Nýlega tapaði trans karl máli fyrir Landsdómi fyrir að hafa ekki fengið greitt veikindaleyfi eftir aðgerð tengda aðlögunarferli sínu, en túlkun bæði lögfræðinga og dómara lýstu að mínu mati vanþekkingu á lífsreynslu trans fólks og nýjustu breytingum á hvernig litið er á málefni trans fólks innan heilbrigðiskerfisins.
Það hefur því í raun aldrei verið mikilvægara að samherjar og fjölskyldur hinsegin fólks taki virkan þátt í réttindabaráttunni og kveði niður fordóma og andúð þar sem þau verða vör við. Öfgahópar hafa sem betur fer ekki fengið mikinn hljómgrunn á Íslandi enn sem komið er, en skjótt skipast veður í lofti. Við megum alls ekki sofna á verðinum. Áunnin réttindi hinsegin fólks víðs vegar um heim hafa verið skert eða afnumin á undanförnum árum, og ættu slík áköll hérlendis að vekja óhug og vera fordæmd harðlega af öllum þeim sem er annt um réttlæti og mannlega virðingu.
Ef við berjumst ekki fyrir réttlátu og frjálsu samfélagi þar sem hinsegin fólk getur lifað lífi sínu óáreitt og öðlast þau réttindi sem þau þurfa, þá höfum við sem samfélag brugðist komandi kynslóðum hinsegin ungmenna.
Spurningar mínar til þín eru því: Hvað ætlar þú að gera til að sporna gegn bakslaginu? Hvernig ætlar þú að styðja við hinsegin fólk á komandi ári?
Gleðilega hátíð.
Athugasemdir